Tasiilaq

Er með magann svo stútfullan af bloggi að hann tútnar meira og meira út. Sumarfríið mitt var æði! Og ég hef þörf fyrir að deila því með ykkur… en í bitum og ekki í tímaröð.

Einhverntíman í sumarfríinu fór ég til Austur Grænlands. Búin að vera með Grænlandssýki síðan 2007 þegar ég var næstum lent í Qaanaaq (hjá Thule) en hætti við á síðustu stundu.

Ferðin um daginn var 2ja nátta ferð og flugum við frá Reykjavík til Kulusuk og þaðan til Tasiilaq. Ef klikkað er á myndirnar, stækkast þær. Og já, enn og aftur, þetta eru allt símamyndir.

2013-08-07 14.20.41

Ég hafði aldrei flogið í þyrlu fyrr og hlakkaði því svakalega mikið til. Þyrluflugið var frá Kulusuk yfir á Ammassalik eyjuna þar sem bærinn Tasiilaq er.

2013-08-05 14.14.03

Þyrluflugið var algjörlega ég! Ef ég kynni þýsku og ef launin væru mannsæmandi í Þýskalandi, myndi ég sækja um vinnu í sjúkraþyrlunni í Niebull. Hefði kannski bara átt að verða þyrluflugmaður…

2013-08-05 13.58.01

Þessi grænlenski töffari var meira en til í að vera með mér á mynd. Í Tasiilaq eru 50% íbúanna undir 18 ára aldri. Í bænum búa um 2000 manns og er því 7jundi stærsti bær á Grænlandi.

2013-08-05 14.49.13

Þetta er útsýnið úr hotelinu okkar. Fremstur er fótboltavöllurinn sem kostaði 1millj Dkk.

2013-08-05 14.49.23

Tasiilaq er gullfallegur bær, umkringdur hrjóstrugum fjöllum og kuldalegum sjónum. Húsin eru í öllum litum og grænlendingar og danir skælbrosandi.

2013-08-05 15.45.54

Mörgum húsunum var takmarkað viðhaldið. Rúður voru brotnar, líklega ekki verið málað síðan húsið var sett upp 1960 eða 70 og drasl útum allt. Mörg hús hafa ekki rennandi vatn, og hlutir eins og bað og þvottavél er ekki algengt. Fólk fer í þjónustuhúsið og þvær sér og þvottinn sinn. Klósettkerfið er einhver kúkakassi og þegar hann verður fullur blikkar rauða ljósið á húsinu og þá kemur súkkulaðibíllinn og tæmir.  Atvinnuleysið er gífurlegt (70% í Kulusuk, veit ekki með Tasiilaq) og þjóðarrétturinn er orðin frosin dönsk pizza úr kaupfélaginu.

2013-08-06 10.00.07

Hundarnir eru í sumarfríi og hlekkaðir á hólunum. Þeir fá selkjöt að éta 3svar í viku og eru fitaðir upp fyrir veturinn. Þeir gelta og hamast í keðjunum þegar maður fer framhjá. Um kvöldið fór ég ein í fjallgöngu og lenti í svarta myrkri á leiðinni heim. Þegar ég fór fram hjá hundunum hélt ég að þeir væru lausir því mér fannst keðjan aldrei ætla að kippa í. Ég varð frekar hrædd.

2013-08-06 14.20.22

Hvolparnir eru lausir og vinarlegir en lykta eins og refir.

2013-08-06 14.15.22

Við kíktum á kirkjuna en Maggi hvarf. Þegar ég leit útum gluggann var hann komin í Tuborgin útá túni!

2013-08-06 13.18.41

Það voru 2-3 kaupfélög… eitt var stórt og á tveimur hæðum. Ávextir, grænmeti og annað ferskmeti var af skornum skammti en frystarnir sneisafullir af frosinni danskri  matvöru svo sem pizzu! Það var líka mikið magn og úrval af gerviblómum til að setja á leiðin í kirkjugörðunum.

2013-08-06 12.40.39

Þetta var uppáhaldsbúðin mín eða staðurinn. Reyndar aðal kaffihúsið í bænum. Gerda sem er danskur karlmaður og klæðskiptingur með mikla og djúpa en á sama tíma skræka rödd, rekur staðin. Hún hefur búið þarna í 30 ár. Búðin heitir Verdens universitetet og er bókabúð en það er einnig hægt að kaupa barnaföt, wii leikjatölvu, dvd, nammi, jólapappír, raksápu, pelahitara, brjóstapumpu, skeifur og hest… nei joke, er að ýkja með skeifunum og hestinum. Síðan er veitingasala og hægt að fá Thaibox sem er hitaði í 6 min í öbbanum, pizzusneið (frosna frá DK), instant núðlur og pulsu. Þetta matreiðir Gerða með síða gráa hárið sitt, uppsett með bleikum spennum, af bestu lyst. Hún gefur út póstkort með mynd af búðinni sinni.

Þetta átti að vera stutt samantekt af Tasiilaq… bjartsýna ég!

 

 

One Response to “Tasiilaq

  • María Huld
    11 ár ago

    Takk fyri þetta Dagný. Frábærlega gaman að lesa þetta og myndirnar æði. Grænland er greinilega ótrúlegt land og fáránlegt að vita svona lítið um það þegar það er svona nálægt okkur.

Skildu eftir svar við María Huld Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *