Fjallganga í Bergen

Júní byrjaði eins og við var að búast. Með örlitlum hjartslætti. Þegar Svala litla ætlaði að skutla mér til Billund í flug þann 3. júní, fundust ekki bíllyklarnir. Hvergi nokkursstaðar.

Fúsi, Svala og ég snérum eiginlega húsinu við! Ég var að fara til Bergen og yfirleitt gef mér að vera mætt hálftíma fyrir check in-lokun þegar um lengri keyrslu á flugvelli er að ræða. Við erum fimm korter að keyra til Billund.

Við leituðum bókstaflega allsstaðar að þessum fjandans lykli. Eftir tuttugu mínútna leit var hringt í vini og beðið um bíl. En þá fannst lykillinn… ofan í skónum mínum. Fúsi hafði verið síðast á bílnum…  Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið á meðan leitinni stóð. Ég hélt að ég myndi springa inn í mér. Fúsi furðaði sig á hversu róleg og yfirveguð ég hefði verið… Hvað gat ég gert? Svona er júní meira og minna, spenntur og á fleygiferð. Ég gat alveg eins vanið mig við það strax.

Planið í Bergen var að kíkja í miðbæinn, ganga á hæsta fjallið og taka þrjár 10 tíma næturvaktir á gjörinu á Haukeland. Ég byrjaði á að kíkja í bæinn. Það var mjög fínt. Ég sá að miðbærinn er gullfallegur en það hafði ég ekki séð síðast þegar ég var í Bergen eins og þið getið lesið um hér. Eftir rölt á milli kaffihúsa ákvað ég að fara upp á fimm stjörnu hótelið sem PowerCare hafði pantað fyrir mig. Ég fór þangað sem leigubílarnir halda til og sá mér til mikillar skelfingar að sá fremsti var Toyota. Einhvern veginn hef ég alltaf staðið í þeirri meiningu að það eigi að taka fremsta bílinn í röðinni. Ég beið í 35 mínútur eftir að Toyotan færi en varð ekki að ósk minni. Það spaugilega við þetta er að þegar ég las Bergen færsluna frá því í desember, hafði ég lennt í því nákvæmlega sama en mundi ekkert eftir því, nema þá var fremsti bíllinn Mazda. Seinna, þegar ég var á heimleið og tók leigubíl aftur. fékk ég þýskan dreka. Ég var svo sátt að ég gat ekki orða bundist og tjáði leigubílsstjóranum gleði mína og einnig raunir með toyotuna. Það var þá sem hann sagði að þetta með að taka fremsta bílinn væri bara bull. Viðskiptavinurinn hefur rétt á að velja bíl og fyrirtæki sjálfur. Takk.

Jæja, ég tjekkaði mig inn á fimm stjörnu hótelið sem er spölkorn frá sjúkrahúsinu, skoðaði tölvupóstinn minn og sá að vöktunum hafði verið breytt í 13 tíma vaktir. Það var ekki seinna vænna en að fara að sofa.

Á laugardeginum gerði ég mitt besta til að sofa til kl. 17 og fór að vinna stuttu seinna. Það sama var uppi á teningnum á sunnudeginum. Á leiðinni í vinnuna það kvöldið horfði ég upp í Ulriken (hæsta fjallið) og bölvaði vaktalengingunum sem gerðu það að verkum að ég færi ekki upp á það í þessari ferð. Strigaskórnir og myndavélin voru því tekin með til einskins. Fór það í grátbölvað.

Eftir næturvaktina rölti ég, sparkandi í smásteina, heim á fimm stjörnu hótelið, sem á meðan ég man, er síður en svo fimm stjörnu hótel. Heldur bara gistiheimili með kristileg gildi og kristileg dagatöl. Jesús vakti yfir ísskápnum og rödd Guðs hljómaði reglulega um að langtíma gestir mættu skipta um rúmföt á fjögurra vikna fresti. Og að handklæðin bæri að nota í þrjú skipti.

Eftir að hafa sparkað í óteljandi smásteina og sjö bíldekk, gaf ég skít í alla svefnþörf, klæddi mig í stuttbuxur og ermalausan bol og dreif mig á fjallið. Ulriken

(Myndin er fengin að láni á netinu)

Ég gat varla verið mikið meira en tvo tíma upp og niður og næði því tveggja tíma svefni fyrir flug. IMG_5659Fjallið er töluvert bratt, ef styttri leiðin er valin. Svona snemma dags er gönguumferð í lágmarki og því fáir á ferli. Þegar ég var u.þ.b. hálfnuð gekk ég fram á skurðgrafara. Alveg helling af þeim. Fyrst hélt ég að þeir væru kínverskir en þegar ég nálgaðist þá sá ég að þetta voru indíánar. Það eitt skaut mér skelk í bringu. Því ef það er eitthvað sem ég hræðist, þá er það að vera fláin lifandi. Eins og afbrotamaðurinn í bókinni World without end eftir Ken Follett. Sá kafli olli mér nefnilega ógleði. Það vita allir að indíanar fletta höfuðleðrinu af á svipstundu og jafnvel meiru þannig að ég hljóp við fót fram hjá þeim. Sem varð til þess að ég mæddist í meira lagi í brattanum. Þið ykkar sem vinnið næturvinnu kannist kannski við hverslags áhrif hún getur haft á líkamsstarfssemina. Það getur allt farið á hvolf. Bókstaflega. Blóðsykurinn verður óviðræðuhæfur, astma og gigtareinkenni koma í ljós og stundum verður mér íllt í framtönnunum… hvað þá að ég geti hlaupið upp á móti í 85 % halla.

Og eitt leiðir af öðru. Mæðin sem var farin að hrjá mig olli mér síðan töluverðum áhyggjum af hjartastoppi. Ég settist á stein í eitt augnablik og íhugaði hversu mikið ég gæti misboðið hjartanu í mér. Og einnig hverjar lífslíkurnar væru ef það stoppaði. Ég taldi þær ekki miklar. Því einu sýnilegu lífverurnar fyrir utan mig voru kindur… IMG_5618 …og einn og einn hlaupari. Og það eru ekki beinlínis týpurnar sem ég vil láta hjartahnoða mig á ábyggilegan hátt. Því fólk sem reimar á sig skóna og hleypur af fúsum og frjálsum vilja upp á fjall í 85% halla á stórgrýttum stíg, í 25 stiga hita er bara alls ekki með öllum mjalla. Og myndi því bara hnoða einhvern veginn. Og ég myndi ekki lifna við. Það er alveg klárt.

En þrátt fyrir töluverðar líkur á að ég myndi mæta dauða mínum þarna í fjallshlíðinni á mismunandi hátt, komst ég upp á topp. IMG_5650

Og það þarf varla að taka það fram að ég var enga anskotans tvo tíma upp og niður og fór því ósofin í flug. Mikið voðalega var gott að leggjast upp í rúm á mánudagskvöldið, eldsnemma. Sátt við að hafa klifið Ulriken.

IMG_5638

IMG_5634

IMG_5632

IMG_5629

IMG_5624

IMG_5619

IMG_5642

 

2 Responses to “Fjallganga í Bergen

Skildu eftir svar við Dagný Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *