Byggingarkranar

Um daginn tók ég nokkrar vaktir á Gjörinu á Haraldsplass í Bergen.

Fyrir utan Haraldsplass er verið að byggja eitthvað stórt með tilheyrandi mönnum með hjálma á vappi og byggingarkrönum. Það er svo sem ekki í frásögur færandi og hefði ekki vakið athygli mína nema hvað vaktirnar mínar voru margar og afar rólegar. Mér hafði verið úthlutað stofu 2 þar sem ung kona (á mínum aldri) lá. Hún þjáðist af ALS (hreyfitaugahrörnunarsjúkdómur, samskonar sjúkdómur og í þessari færslu) og hafði fengið lungnabólgu ofan í sjúkdóminn eins og oft vill verða. Hún hafði hresst það mikið af lungnabólgunni að ég þurfti ekki að vakta hana. Maðurinn hennar og dætur voru mikið inni á stofunni og ég því annarsstaðar. Ég stóð þess vegna oft við gluggann á skrifstofunni og horfði út til að drepa tímann.

Byggingarplássið var í beinni sjónlínu.

Fyrsta kvöldið mitt sá ég mann klifra upp byggingarkranann. Ég hef auðvitað oft séð byggingarkrana áður en aldrei velt þeim neitt sérstaklega fyrir mér, heldur ekki að það situr manneskja uppi í litlu glerbúri allan liðlangan daginn og stjórnar krananum. Ég fylgdist með manninum klifra alla leiðina upp og eftir það varð ekki aftur snúið. Ég fékk byggingarkranann á heilann!

Ég tók ótal myndir á símann af krananum frá mismunandi sjónarhornum og í mismunandi birtu og leyfði öllum sem vildu að fylgjast með gangi mála.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Ég smitaði ótal manns af þessum áhuga mínum.

Þegar ég fór síðan að velta því fyrir mér hvernig svona græja væri tekin niður, stóð ekki á netvinum mínum. Mér bárust ótal skilaboð í máli og myndum um það hvernig svona krani væri tekinn niður.

Einn í Suður Englandi tjáði mér að það þyrfti aðeins 3-4 menn í það verk. Það finnst mér enn afar ótrúlegt. Hann viðurkenndi að það væri bras með svona fáa. Ég hefði haldið að það þyrfti lágmark 30-40 manns.

Að auki var ég frædd í myndum og máli um að það væru til byggingarkranar í alls konar litum. Á Íslandi, Í Noregi, í Bretlandi og í París.

Mér bárust líka youtube myndbönd. Mér finnst voðalega þægilegt þegar aðrir youtube-a fyrir mig.

Enn skil ég þó ekki hvar svona magn af járni er geymt þegar þetta er ekki í notkun?

Nokkuð algengt er að svona kranar brotni í tvennt eða sporreisist. Ég hafði samt engar áhyggjur af því.

Ég kom heim á sunnudagskvöldið síðasta og á mánudagsmorguninn mætti ég til vinnu á mínu eigin Gjöri hérna í Sönderborg. Það fyrsta sem blasti við mér þegar ég kom hjólandi var byggingarkrani! Sem hefur staðið niður á höfn í marga mánuði en ég ekki veitt honum neina eftirtekt.

img_6426

img_6431 img_6436

Ég heillast oft af stórfenglegum byggingum, mannvirkjum og hvers kyns samansettu dóti í stærra lagi, vegna þess að ég skil ekki alltaf fræðin á bak við þetta. Tökum dæmi. Brýr! T.d. nýja brúin í Kína. Háar byggingar sem eru látnar hallast út yfir sjálfa sig… án þess að hrynja??? Gamlir katedralar sem byggðir voru fyrir 800 árum. Og byggingarkranar. Hvar þeir eru geymdir þegar þeir eru ekki í notkun!?!

Ef það hvarflar að ykkur að ranghvolfa í ykkur augunum yfir því hversu vitlaus ég er, sleppið því frekar og útskýrið þetta fyrir mér.

Eigið góða helgi.

 

 

 

2 Responses to “Byggingarkranar

Skildu eftir svar við Bogga Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *