Grísir gjalda, gömul svín valda.

Er ég sú eina sem fæ yfirþyrmandi tilfinningu við tilhugsunina um að heimurinn sé á leiðinni til andskotans? Að útblástur nautgripa eigi eftir að tröllríða koltvísýrings magninu (CO2) í andrúmsloftinu og að Holland, Danmörk og jafnvel Grímsey verði sokkin í hafið fyrir næstu jól. Eða að næsti plastpoki grandi öllu kviku á hafsbotninum og að kóralrifin verði orðin sögulegt fyrirbæri áður en ég sný mér við næst?  

(Listaverk eftir Jorge Gamboa frá Mexíkó)

Og til að bæta gráu ofan á svart varðandi þessa yfirþyrmingartilfinningu, opnaði barnið á heimilinu páskaeggið frá Nóa Síríus í ár og fékk málsháttinn: „grísir gjalda, gömul svín valda“ og ekki nóg með það, þegar næstu tvö páskaegg voru opnuð komu þessir: „Sannur umbótamaður er sá sem bætir sjálfan sig“ og „fénar farandi, sveltur sitjandi“.

Ég upplifði þessa málshætti í ár sem vinsamlegar ábendingar, já eða hreinlega bein skot á mig persónulega. Talaðu ekki bara Dagný, gerðu frekar eitthvað í málunum. Gerðu eins og þú getur.

En það virðist vera hægara sagt en gert. Tökum lítið dæmi: Ég hætti með tárin í augunum að borða tígrisrækjur (mér þykja þær góðar) vegna þess að manni verður á að lesa um vinnuaðstæður fólksins (sem oft eru börn) í Vietnam þar sem rækjurnar eru ræktaðar. Á mörgum stöðum eru rækjutjarnirnar svo mengaðar og eitraðar að fætur barnanna eru allir út í brunasárum og oft þarf að skera þá af við ökla vegna ígerða. Að mínu mati er mikilvægt að miðla þessu, því svona vinnuaðstæður er rangt að styrkja, og því segi ég frá þessu í góðra vina hópi og borða jafnvel banana frá Cameroun á meðan, en fljótlega kemur skot úr annarri átt þess efnis að bananinn sem ég er að borða sé ræktaður á bananaplantekru þar sem flugvélar sprauta skordýra og sveppaeitri yfir plantekruna. Sem smígur inn í sjálfan bananann sem ég svo borða. Auk þess er eitrinu sprautað yfir á meðan fólkið er að tína bananana. Og það sem verra er, fólkið er ekki varið fyrir þessu eitri, það er hvorki í stígvélum, með hanska né hatta. Á mörgum stöðum, í mörgum löndum verður bananatínslufólkið ekki eldri en 40 ára.

Okei, ég fæ mér þá bara appelsínu. En nei, það er líka rangt. Appelsínur vaxa í Ísrael, Norður Afríku, Tyrklandi… og að flytja þær alla þessa leið til Danmerkur er afar slæmt fyrir umhverfið vegna losun CO2 út í andrúmsloftið.

Ég get svo svarið það, þetta er eins og að vera rammvilt í völundarhúsi. Allsstaðar rekst maður á veggi. Eða hvað, er möguleiki á að gera eitthvað rétt til að vernda umhverfið? Já reyndar. Það allra besta er að kaupa frá nærumhverfinu og allra helst lífrænt. Þetta var nú ekki flókið. Bíðum samt aðeins; það stendur: tómata skal þó kaupa frá suður Evrópu þrátt fyrir langan flutning. Afhverju í ósköpunum, vorum við ekki að tala um að versla sem mest af nærumhverfinu til að minnka flutninga sem auka CO2 í andrúmsloftinu? Jú, en tómatar ræktaðir í gróðurhúsum losa um fleiri gróðurhúsalofttegundir en flutningur frá Spáni, þegar jarðefnaeldsneyti eru notuð til að lýsa og hita upp gróðurhúsin. En hvað þá með atvinnusköpun í nærumhverfinu? Er það ekki líka mikilvægt? Jú.

Ég fæ höfuðverk, þetta er svo flókið. Og ég uppgötva næstum á hverjum einasta degi hversu lítið ég veit um þessi mál. Því meira sem ég goggla, því meðvitaðri  verð ég um hversu langt ég á í land. En í staðinn fyrir að taka panódíl við hausverknum, versla ég mestmegnis danska lífræna ávexti og grænmeti. Ekki alltaf þó því ég elska appelsínur og mangó og þar ræður mín löngun í þessa ávexti ríkjum. Ég er mannleg.

Nú þegar er ég búin að skrifa 573 orð og ég hef ekki enn minnst einu orði á kjöt. Þessi færsla átti að snúast um kjöt. Þá heilögu matvöru sem má helst ekki hallmæla. Reglulega heyrist að fólk elski kjöt og geti ekki án þess verið. Sama hvað. Fólk sem borðar ekki kjöt verður nefnilega kinnfiskasogið og gráleitt. Og grænmetisætur eru oftar en ekki frekar skrítnar. Skál fyrir því. (Síðustu setningar voru skrifaðar í kaldhæðni).

Mér finnst kjöt gott. Lambakjöt er best. Grillað lambalæri, Jesús Pétur og allir lærisveinarnir! Höfum líka grillaðan maís með og böðum maísinn upp úr almennilegu smjöri sem lekur niður hökuna. Og salt. Nóg af salti. (Þetta er ekki skrifað í kaldhæði heldur af hreinni ást). Hvað varðar dýravelferð get ég lifað með því að borða íslenskt lambakjöt. Lömb hafa það stórfínt stærstan hluta ævi sinnar og kindur almennt. Eitthvað annað en svín sem hafa það sjaldnast gott. En ég ætlaði ekki að koma inn á dýravelferð í þessari færslu. Það er efni í aðra seinna.

Ég borða afar sjaldan svínakjöt. Í fyrsta lagi vegna dýravelferðar og í öðru lagi vegna bragðsins. Þau fáu skipti sem það gerist og ég kaupi sjálf, þá kaupi ég lífrænt kjöt, þar sem því verður komið við.

Mér finnst nautakjöt líka gott, svona passlega rautt og meyrt með hasselback kartöfflu. Eða bara klassískri bakaðri kartöflu fljótandi í almennilegu smjöri og salti.

Við þurfum jú prótín. Á því er ekki nokkur vafi en þarf próteinið að koma frá kjöti?

En hvað með umhverfið?

Staðreyndin er sú að kjöt og mjólkurvörur eru það alversta fyrir umhverfið af öllu vondu.

Og það kjöt sem er verst fyrir umhverfið er kjöt af jórturdýrum vegna alls metangasins. Það er spælandi fyrir okkur sem finnst kjöt gott. Þetta er samt staðreynd sem þarf að horfast í augu við.

Nautakjöt er alverst af öllu kjöti og meira að segja það alversta af öllu slæmu þegar farið er að tala um losun CO2 og gróðurhúsaáhrif. Verra en bílar, verra en allt.

Dæmi:

  • Fæðuneysla dönsku þjóðarinnar losar meira en 15milljón tonn af CO2árlega út í andrúmsloftið (þetta eru mest kjöt og mjólkurafurðir). Til samanburðar losar notkun á einkabílum 7,4 miljón tonn CO2 árlega.
  • Styttri útgáfan: Framleiðsla á 200g nautasteik, veldur jafnmikilli umhverfismengun og 20km akstur í bíl.

Þessi teikning sýnir ágætlega nautakjöts- og mjólkurvöruferlið.

Vísindamenn gera hverja uppgötvunina á fætur annarri sem sýnir að alvarleiki málsins er alvarlegri en sá fyrri. Margir taka þessar upplýsingar til sín enda varla hjá öðru komist eins mikið og er fjallað um þetta í fjölmiðlum nú til dags. Litla skrefið og það algenga er að hafa einn kjöt og mjólkurvörulausan dag í viku. En afhverju bara einn? Afhverju ekki fimm? Eins og áður sagði, finnst mér kjöt gott. Ég er ekki tilbúin til að sleppa því en það er akkúrat engin ástæða til að hafa það á borðum dagsdaglega… svona upp á framtíðina að gera. Það er svo margt sem getur komið í staðinn sem inniheldur sömu efni og við þurfum á að halda. Um páskana tók ég þá ákvörðun að hafa 5 kjötlausa daga í viku og minnka neyslu á mjólkurvörum enn meira.

Við fjölskyldan fórum út að borða í kvöld. Ég fékk mér hamborgara án þess að spyrja hvort maturinn væri lífrænn og borðaði með bestu lyst. Þá á ég einn kjötdag eftir í þessari viku, strangt til tekið. Við vorum líka að fá okkur nýrri bíl, bensín bíl. Við hefðum getað fengið okkur rafmagnsbíl sem mengar minna en gerðum það ekki. En á móti kemur, hjóla ég sem mest innanbæjar, eins og ég hef alltaf gert. Bót í máli er að nýi bíllinn slekkur á sér þegar hann er kyrrstæður. Það er nefnilega alls ekki í lagi að láta bíla ganga í kyrrstöðu í lengri tíma. Ekki heldur þótt það sé kalt úti. Þeir menga. Ég er farin að nota minna af líkamsskrúbbi þegar ég er í sturtu því kornin úr skrúbbunum hafa verið að finnast í maganum á fiskum úti í sjó. Í veskinu mínu er stór innkaupapoki úr nylon með blettatígursmynstri sem ég nota þegar ég versla. Ég afþakka líka poka í verslunum ef ég get sett það sem ég kaupi í veskið mitt. Ég er hætt að nota mjólk í kaffið. Í skápunum okkar er að finna sojapasta og linsur. Dagsdaglega nota ég smjör sem búið er til úr rapsolíu, kókosolíu, sheaolíu og möndlusmjöri. Til spari, á bökuðu lífrænu kartöfluna nota ég hefðbundið lífrænt smjör. Það er hægt að fá næstum alla matvöru lífræna og góðu fréttirnar eru þær að verð á lífrænu hefur lækkað vegna aukinnar eftirspurnar. Það er líka hægt að fá lífrænar snyrtivörur. Lífrænar hárgreiðslustofur eru til (í bænum okkar eru þrjár). Ég er nýfarin að nota álfabikarinn, ekki af sparnaðarástæðum heldur vegna umhverfisins. Mér varð verulega flökurt þegar ég sá dömubindanotkun mína svart á hvítu. 

Undanfarin ár hefur margt breyst í okkar daglegu neyslu. Við reynum að vera meðvituð og ekki síst gagnrýnin á það sem gert er inn á okkar heimili. Það er t.d. ekki í lagi að láta banana ofþroskast á borðinu og henda honum svo í ruslið því hann er orðinn óætur og enginn nennir að baka bananaköku. Það var mögulega berfætt og hanskalaus manneskja úti í heimi sem stóð undir skordýraeiturúða sem hafði fyrir því að tína bananann fyrir okkur. Við nýtum betur það sem keypt er.

Mér finnst óskaplega vandlifað í dag. Í hvert skipti sem ég tel mig vera að gera rétt, er eitthvað annað sem ég geri rangt, eitthvað sem ég vissi ekki að væri rangt. Ég loka líka oft augunum fyrir því ranga, vegna þess að löngunin er stundum skynseminni sterkari og tek því meðvitað „rangar“ ákvarðanir og kæfi samviskubitið í fæðingu því samviskubit er eins og sýra. Það étur allt upp. Við erum öll mannleg og enginn er fullkomin. En á meðan gagnrýnin hugsun er við lýði við daglegar athafnir, gerir margt smátt eitt stórt. Það elskar enginn nautakjöt svo heitt að ekki sé hægt að hugsa lengra en að kartöflunni á disknum. Verum meira meðvituð um skóginn í Suður-Ameríku sem var ruddur til að fóðra kúna sem liggur grilluð á disknum og afleiðingarnar í stærra samhengi.

Grísir gjalda, gömul svín valda og það erum við sem erum gömlu svínin.

 

 

4 Responses to “Grísir gjalda, gömul svín valda.

  • Flott hjá þér en er ekki kókos olían eitthvað sem við eigum ekki að nota

    • Takk. Kókosolía… er hún ekki fín í hárið og á húðina? 😉 Það virðast vera margar og skiptar skoðanir um kókosolíu sem fæðu. Hún inniheldur eins og smjör, mettaða fitu. Það sem er gott við kókosolíuna er að hún eykur HDL kólesterólið en á sama tíma eykur hún líka LDL kólesterólið, sem er sagt vera slæmt. Og þar sem við á Norðurlöndunum borðum frekar mikið af kjöti og mjólkurvörum og fáum yfirdrifið nóg af mettaðri fitu, er þá ekki spurning hvort bæta eigi við þá fitu með kókosolíu? Annars er ég ekki næringarfræðingur og veit alls ekki mikið um þetta. Ætli það sé bara best að gæta hófs í öllu 🙂

    • Lilja Scheel Birgisdóttir
      7 ár ago

      Það er pálmolían sem við skulum forðast 🙂

Skildu eftir svar við Dagný Sylvía Sævarsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *