…og við fórum í skóginn.

Þetta er hann Vaskur. Hann fæddist á Ólafsvöllum á Suðurlandinu, innan um beljur, þann 31. desember 2012, rétt um kvöldmatarleytið. Mette hrærði í sósunni á meðan Georg bóndi nuddaði lífi í nýfædda hvolpinn undir volgri bununni yfir eldhúsvasknum.

Nokkrum mánuðum seinna flutti Vaskur erlendis.

Vaskur lifir í þeirri trú að það gerist eitthvað hræðilegt ef hann fer ekki út í göngutúr. Hann heldur líka að hann sé sterkasti hundur í heimi og myndi reyna að draga kanadíska risafuru á land ef hann sæi svoleiðis liggja í sjónum.

(Alltaf bætast nýjir lesendur við og því þykir mér við hæfi að kynna gripinn endrum og eins).

Ég kann vel við þennan einbeitta vilja Vasks því það þarf einhver að fara með honum, sem veldur því að ég fæ alveg ágætis skammt af útiveru sem ég líklega fengi annars ekki.

Um daginn var rok í Danmörku. Stormurinn Ingólfur blés á 27.8 metra á sekúndu svona að öllu jöfnu, en þegar hann blés „upp“ mældist rokið 38,6 metrar á sekúndu. Það hefur nú mælst verra á þessum slóðum en samt sem áður olli veðrið usla. Tveir dóu í Þýskalandi og sjórinn í Danmörku vissi ekkert hvert hann ætti að fara. Við Fúsi fórum í göngutúr rétt áður en Ingólfur kom til landsins. Þá var svona svakaleg fjara að við höfðum bara ekki séð annað eins. Vaskur gat elt mávana langt útí Sönderborgarflóa og reyndar langleiðina út í Flensborgarfjörð, nánast á þurrum loppunum.

Síðan kom Ingólfur. Aðfaranótt sunnudags. Sunnudagsins sem við breyttum útliti borðstofunnar með því að setja upp kort af alheiminum á einn vegginn, þremur árum of seint að sögn Aldísar sem er svo slæm í landafræði að hún veit varla hvort vinstri höndin sé hægra eða vinstra megin (að eigin sögn). (Það eru að verða liðin þrjú ár síðan Aldís flutti að heiman og dregur því lítinn lærdóm af þessu fína korti).

Svona var borðstofan fyrir breytingar… 

Eftir breytingar… svona ca. Það á að sjálfsögðu eftir að fiffa hitt og þetta. 

Á mánudeginum fórum við Vaskur í göngutúr og sömu leið og á laugardeginum þegar fjaran var. En á mánudeginum blasti við okkur það mesta flóð sem við höfum augum litið á þessum slóðum. Hvergi var hægt að labba á ströndinni, né í fjörunni. En það skiptir ekki öllu, skógarstígurinn er við hliðina á.

Ég finn það á hverju ári, hversu frábær tími haustið er. Skógurinn er aldrei fallegri og margbreytilegri. Um daginn sáum við litla eðlu í skóginum. Það var eina dýrið fyrir utan fuglana. Birtan er líka fallegri á haustinn en á sumrin vegna þess að sólin skín í gegnum skóginn, ekki ofan á hann.

Í myndinni Nymphomaniac segir Joe að pabbi hennar hafi sagt að tré opinberi sálu sína á veturnar. Þetta er alveg rétt. Á sumrin er skógurinn grænn og ekkert að sjá nema grænt. Grænt, grænt, grænt og aftur grænt. En þegar laufin falla af, sjást trén. Þau leyna engu. Sum fléttast saman og sýna ástina í sínu mikla veldi. Önnur sýna meinin sín. Eitt og eitt er brotið að eilífu og ekkert er hægt að gera.

(Gömul mynd síðan 2014)

(Verk Ingólfs)

Eitt og eitt tré stendur, þrjóskari en andskotinn og hunsar alla storma, alla rigningar, allt.

 

Og hin Beykin standa þarna öll og hvetja það til að standast mótlætið og halda fast í jörðina.

Ef vel er skoðað má sjá tvo veiðimenn sitja á löngu föllnu tré og borða nestið sitt. Því þótt trén falli, verða þau síður en svo einskins nýt.

Við fórum líka í skóginn síðasta fimmtudag. Veðrið var fullkomið, grátt og talsverður vindur. Þegar ég tek myndir í skóginum finnst mér þær sýna ca. 10% af því sem ég upplifi þar. Kannski minna, allavega ekki meira.

(Síðustu tvær myndir eru símamyndir)

Þar sem við óðum í gegnum laufin, sáldruðust þau svoleiðis niður á okkur, að ég hef sjaldan upplifað annað eins laufaregn. Ég hafði asnast til að fá mér tyggjó sem var orðið of gamalt á fyrstu metrunum en alveg vita vonlaust að losa mig við það þar sem engar rusalfötur eru á skógarstígunum. Til að halda lífi í tyggjóinu, blés ég hverja kúluna á fætur annarri til að oxýgenera það. Laufin sem féllu af trjánum þennan dag, höfðu lent á höfðinu á mér, andlitinu, öxlunum og í nágrenni við mig, nema hvað, skyndilega lendir eitt stórt beykilauf á munninum sem var opinn með íturútblásna tyggjókúlu allt í kringum sig. Mín ósjálfráðu viðbrögð voru að sjúga tyggjókúluna beinustu leið inn og tyggja og laufið fylgdi með. Þetta var í byrjun eins og hálfstíma langs göngutúrs.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *