Nuddið í Sönderborg

Ég hef verið ötul við að fara í nudd í vetur. Ötulli en áður því ég virðist hafa aukið heimsóknir á nuddstofu um 97% síðastliðna mánuði. Ég fer alltaf til Antó. Mér finnst hann bestur. Antó átti ekki tíma í síðustu viku og fór svo í páskafrí… Melurinn sáarna.

Á laugardaginn taldi ég mér vera blæða út – innvortis. Axlirnar voru eitt flakandi sár – innvortis og einnig svæðið í kringum herðablöðin. Flakandi sárið breiddi úr sér niður handleggina og niður brjóstvöðvana. Ég taldi mig sjá skugga af innvortisblæðingurinn í réttri birtu. Ég er að segja ykkur þetta til að vera nákvæm og hleypa ykkur enn lengra að mér. Inn í mig. Alla leið. Leyfa ykkur að finna hvernig mér líður.

Á laugardaginn hringdi ég út um allan bæ til að finna nuddara sem ekki var á leiðinni í páskafrí. Ég fékk tíma hjá einum í dag. Klukkan eitt.

Klukkan korter í eitt settist ég upp á hjólið mitt og hjólaði á hraða eldingar niður Möllegadebrekkuna. Ekki vegna þess að ég var of sein, heldur vegna þess að mér þykir svo skemmtilegt að hjóla. Ég hjóla sjaldan núorðið eftir að ég fór að fljúga í vinnuna. Ég var sönglandi Queen lagið…:

Bicycle bicycle bicycle
I want to ride my bicycle bicycle bicycle
I want to ride my bicycle
I want to ride my bike
I want to ride my bicycle
I want to ride my

Bicycle races are coming your way
So forget all your duties oh yeah!
Fat bottomed girls they’ll be riding today
So look out for those beauties oh yeah

…og það var rosa gaman hjá mér þangað til ég fattaði að ég hafði gleymt að fjarlægja vetrarfeldinn af fótleggjunum. Ég var um það bil hálfnuð til nuddarans. Þetta var bara ekki að fara að gerast. Hjá Antó þarf ég ekki að fjarlægja hárin því Anto sér ekkert. Hann er blindur. Hann er ekkert að spá í hvernig ég lít út.

Ég hafði ekki tíma til að snúa við og fara heim og raka á mér lappirnar. Ég hugsaði með mér að þessi nuddari hlyti að vefja þau svæði sem ekki væri verið að nudda, inn í teppi, alveg eins og Antó gerir. Síðan væri örugglega ekki mikið ljós á stofunni svo að svona smámunir sæust líklega ekki. Það er aldrei mikið ljós inni á stofunni hjá Antó. Hann þarf ekkert ljós, það myndi ekki breyta neinu. Eða, mig minnir að það sé ekki mikið ljós hjá honum. Ég loka alltaf augunum um leið og ég fer inn til hans af einskærum samhug. Finnst það betra. Stundum er ég svoldið lengi að fara í fötin aftur með augun lokuð, en það hefst. Hann er sjálfur örugglega líka lengi að klæða sig.

En ég fór sem sagt til nýja nuddarans í dag. Ég var svo tímanlega að það var önnur inni hjá honum þegar ég kom. Ég heyrði það. Síðan kom hún út. Mjög falleg og ég veit að hún er með fullkomna hárlausa leggi. Ég þekki hana persónulega. Við erum á „knússtiginu.“ Hún býr með og er barnsmóðir heimsfrægs fótboltamanns. Þið þekkið manngerðina; sólbrún og sæt með stór svört sólgleraugu, ljósa síða saltvatnsliði í hárinu og hárlausa leggi að horfa á manninn spila merkilegan fótboltaleik. Þessi mynd kemur alltaf í fjölsmiðlum.Þurfti þessi fegurðardís nú endilega að vera á undan mér?

Allavega, ég fer inn og nuddarinn segir: „Má ég sjá fæturnar á þér… Já, þeir eru í lagi, ekki þeim að kenna… en mjaðmirnar… hmm… nei, líka í lagi en farðu samt úr buxunum… Jú, farðu bara úr öllu nema naríunum…“

Stundum lætur Anto mig fara úr öllu nema naríunum þegar hann ætlar að nudda mig frá toppi til táar.

Fínt, ég fór úr öllu og varð litið niður á leggina. Ég hefði í það minnsta getað burstað þá. Lagðist síðan á bekkinn. Nuddarinn fór að þvo sér um hendurnar og var lengi að því. Á meðan lá ég á naríunum einum saman og varð mjög meðvituð um birtuna inni á stofunni. Hún var skjannahvít. Loksins, eftir langan tíma, lagði hann lítið handklæði yfir rassinn á mér. Takk.

Hann var sjálfur klæddur í níðþröngan teyjanlegan bol og hvítar 3/4 buxur. Sólbrúnn. Þið þekkið líka þessa manngerð. Hann kveikti á kínverskri panpíputónlist með tilheyrandi smáfuglasöng og byrjaði að nudda. Og tala.

Hann sagði:  „Nafnið þitt minnir mig á Suður Þýskaland. Er þetta gott? Mega hjúkrunarfræðingar í Noregi vera með naglalakk? Það var Florence Nightengail sem bannaði naglalökk innan heilbrigðisgeirans, vissirðu það? Ertu aum þarna? Hefur dóttir þín tíma fyrir mömmu sína? Flottur fæðingarbletturinn á bakinu á þér…“ Jesús minn, ég svaraði öllu snubbótt sem á að gefa til kynna að ég vilji ekki tala. Lengsta svarið var um fæðingarblettinn en hann er endurspeglun í hægra nýranu í mér. Það er mjög spes en dagsatt – eins og allt annað í þessu bloggi.

Antó spilar aldrei tónlist á meðan hann nuddar. Hann talar ekki nema ég tali við hann. Hann passar alltaf að hafa teppi yfir mér, þó hann sé staurblindur og sjái ekki baun. Þögnin og myrkrið er rýkjandi.

Nuddarinn í dag nuddaði og nuddaði allan hringinn. Á tímapunkti stóð hann á ská við höfuðið á mér og hamaðist á annarri öxlinni. Ég lá ennþá á bakinu með andlitið ofan í einhversskonar hring og allt í einu fann ég eitthvað við gagnaugað á mér. Ég var og er eiginlega alveg viss um að þetta var bungan á buxunum hans. Mig hafði langað í bingóstöng frá Góu áður en ég fór að heiman, en fannst það of snemmt. Þarna sagði ég við sjálfa mig – í hljóði – „Dagný, einbeittu þér að bingóstönginni sem bíður þín heima.“ Og það tókst. Ég hugsaði bara um bingóstöngina.

Antó kemur aldrei svona nálægt. Hann kemur bara passlega nálægt. Hann er heldur ekki í þröngum teyjanlegum bol og 3/4 buxum.

Þegar nuddarinn var búinn að nudda mig að aftan, átti ég að snúa mér við. Í þessum skærbjarta herbergi. Ég er ekki feimin þannig séð en þigg samt að það heilagsta sé hulið fyrir ókunnugum þegar við á. Hann lagði litla handklæðið yfir búbbísana. Ekkert yfir naríurnar né leggina sem voru þarna að verða bláir af kulda þrátt fyrir þykkan og mjúkan vetrarfeldinn. Frábært. Og nuddarinn hafði ekki nuddað neitt fyrir neðan þjóhnappana. Ég hefði ekkert þurft að fara úr buxunum. Ef Antó vill nudda þjóhnappana, græjar hann það bara án þess að vera með eitthvað vesen.

Antó hefði aldrei farið svona með mig. Ég er nálægt því að elska Antó. Hjá Antó þarf ég aldrei að spá í neitt. Hjá honum er ég örugg. Hann lætur mig ekki fara úr buxunum nema hann ætli alla leið niður að tám. Hjá honum loka ég bara augunum og þá erum við saman í myrkrinu. Fúsi segir að ég geti verið svo svakalega meðvirk stundum að það sé vandræðalegt. Einu sinni var ég með verulega heyrnaskertri manneskju part úr degi og hélt fyrir eyrun allan tímann. Alveg ósjálfrátt.

Þið hafið líklega fyrir löngu reiknað út að þetta er auglýsing. Fyrir Antó. Fyrir samfélagið í Sönderborg. Antó er á Kongevej. Síminn er 74429299.

 

 

2 Responses to “Nuddið í Sönderborg

  • Margrét
    6 ár ago

    Frábært! Ég sá að hundurinn er líka loðinn ? Kveðja frá einni sem langar líka í nudd ? Takk fyrir pistilinn?

  • Já og hundurinn var ekki mjög hrifinn af að ég væri að nota burstann hans…. 😉
    Þú verður bara að koma til Sönderborgar í frí og fara í nudd.
    Verði þér að góðu með pistilinn og takk sjálf fyrir skilaboðin 🙂

Skildu eftir svar við Dagný Sylvía Sævarsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *