Lonnýs kyllinge/bananret – mínus karrý plús kanill

Fyrir mörgum árum, í matarklúbbnum okkar í Sönderborg var kjúklingaréttur Lonnýar borin fram og þótti mér hann alveg sallagóður (amma sagði alltaf salla.) Ég fékk uppskriftina og skrifaði hana niður í uppskriftarbókina mína sem ég kom mér upp árið 1993.

Uppskriftin var svohljóðandi:

  • 600g kylling
  • 2 grøn paprika
  • Hellings champignon
  • 1/2 l fløde
  • 2 dl mango chutney
  • 2 tsk karry
  • 2 tsk sambal olek
  • salt og peber
  • Bananar

Skera allt þetta harða í stykki, seikja kjúllann. Hræra öllu hinu saman í potti og hella yfir allt þetta harða, setja svo banana ofan á og inn í ofn í ca. 15-20 mínítur.

Meðlæti: Brauð, grjón og gras.

Ég eldaði þennan rétt á föstudaginn og gat ekki annað en brosað yfir hvernig ég hef skrifað aðferðina niður. Svo miðað við hvernig matarbloggarar nútímans lýsa sínum uppskriftum og aðferðum.

Ég stóð við pottinn með fallega svuntu um mig miðja og allt virtist leika í höndunum á mér. 500ml af þessu, tveir desilítrar af hinu og svo þrjár teskeiðar af kanil því mér finnst karrý svo gott. Kanil?!? Ég setti kanil í staðinn fyrir karrý. Alveg dæmigert fyrir mig þessa dagana. Fjölskyldan segir að ég þjáist af kemó heila -kemo hjerne, chemo brain… Ég veit ekki hvað það kallast á íslensku. Þetta lýsir sér þannig að ef mér er sagt að líta til vinstri því þar er Svíi, er Svíinn löngu farinn þegar ég loksins lít til vinstri. Þessvegna er eðlilegt að setja kanil í staðinn fyrir karrý í matinn þó það eigi engan veginn við.

En nú voru góð ráð dýr. Af virðingu við kúnna sem hafði mjólkað rjómanum, fólkið sem hafði tínt mangóið og auðvitað náttúruna, vildi ég ekki bara henda því sem var í pottinum. Því reyndi ég að veiða kanilinn upp úr. Sem tókst svona la la.

Heimilið ilmaði af kanil í tvo daga.

Daginn eftir að ég gerði kjúklingaréttinn var afgangur og tengdasonurinn var í mat. Hann spurði hvað væri í matinn og Svala svaraði að það væri kjúklingaréttur Lonnýar. Hver er Lonný? spurði tengdasonurinn. Fyrrverandi hans Fúsa, svaraði ég. Þetta fannst okkur rosalega fyndið og því var þetta skemmtilegasta máltíð vikunnar.

One Response to “Lonnýs kyllinge/bananret – mínus karrý plús kanill

  • Ég hló líka upphátt!
    Ég saknaði þín á snappinu, en skrifin þín bæta það margfalt upp. Ég passa mig á að kíkja ekki of oft hingað inn, í von um að eiga nokkrar færslur inni þegar ég gef mér tíma til að koma mér sérstaklega vel fyrir í lesstellingar.
    Takk.
    ?

Skildu eftir svar við Birna Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *