7. og 8. júní 2018

OUH. Stofugangur þann 7. Júní 2018, klukkan um það bil 09.30.

Ég veit að það er eitthvað að, sagði ég við Guðrúnu lækni. Hún játti því vegna þess að sýkingartölurnar mínar voru að hækka og ég komin með smá hita. Þarna var ég búin að liggja í 8 daga á Háskólasjúkrahúsinu í Óðinsvéum eða OUH eins og það er kallað í daglegu tali. Við fórum inn í skoðunarherbergi og hún skoðaði mig í 30 sekúndur að mér fannst og sagði svo: „Mér þykir leitt að segja þér það en þú ert að fara í aðgerð í dag.“ Mér brá ekkert. Ekki heldur þegar hún bætti við að það yrði kraftaverk ef ég vaknaði ekki upp með stóma því það væri ekki hægt að sauma götin á ristlinum saman aftur. Eða kannski brá mér, ég veit það ekki. Held samt að ég hafi vitað það innst inni.

Ég var búin að borða morgunmat og því átti ég að vera orðin klár í aðgerð um tvö leytið. Guðrún fór að undirbúa lækna hliðina, hjúkrunarfræðingurinn sem heitir Camilla fór að græja sitt og ég fór inn á stofuna mína, andaði djúpt nokkrum sinnum og hringdi svo í Fúsa. Það var pínu erfitt því ég vissi að hann myndi ekki beinlínis fagna.

Ókei, só langt, só godt.

Camilla kom stuttu seinna og spurði hvort við ættum að undirbúa mig. Ég labbaði með henni fram á stóra baðherbergi þar sem hún hafði tekið til skurðaðgerðarföt handa mér, ásamt tússpenna og einhverju fleiru. Afhverju tússpenna? Ég man ég horfði á hann og velti því fyrir mér. Þangað til hún sagði að ég þyrfti að ákveða hvar stóminn ætti að vera…

Ha, ég? Afhverju ég?

Í hvernig nærbuxum gengurðu? Það var Camilla sem spurði einhversstaðar úr fjarskanum. Eru þær lágar eða háar? Og hvað með buxurnar þínar. Eru þær háar eða lágar, skinny eða oversize?

Ég man ég hugsaði að ég hefði ekki hugmynd um það enda leið mér eins og það væri óralangur tími síðan ég hefði klæðst mínum eigin nærbuxum, hvað þá gallabuxum. En ég man líka að ég hugsaði að það þýddi ekkert að ekki að muna það, ég yrði að „vakna“ og vera skýr. Hversu hátt upp ná nærbuxurnar þínar Dagný Sylvía? Hugsaðu. Rifjaðu upp! Þetta er fokking mikilvægt. Rifjaðu upp buxnahilluna í skápnum þínum. Núna! Þar sem þú stendur.

Og svo setti Camilla bláan feitan kross á magann á mér. Mig grunar að ég eigi aldrei eftir að gleyma tilfinningunni þegar hún gerði það. Síðan klæddi ég mig í einnota skurðaðgerðarbrók, fór upp í rúm og beið í þeirri trú um að aðgerðin yrði gerð um miðjan dag. Plús mínus.

Tíminn leið. Og leið. Síðan kom magaskurðlæknirinn til að sjá mig og tala við mig. Mér krossbrá því hann var með öllu hrukkulaus. Og þar með reynslulaus. Martin segðu mér, er ég fyrsti eða annar sjúklingurinn sem þú skerð upp? Hann brosti og hélt því fram að ég væri númer óteljandi. Ég trúði honum ekki. Hann vildi sneiðmyndatöku fyrir uppskurð og tíminn leið áfram. Það var kominn seinnipartur og mér var sagt að það væru tvær bráðaaðgerðir á undan mér. Martin kom til mín eftir sneiðmyndatökuna til að staðfesta aðgerðina, segja mér að ég myndi vakna upp með stóma og jafnvel opinn kvið og þyrfti að vera opinn í nokkra daga, samt ekki alveg víst. Ég áræddi að spyrja hann hver yrði með honum í aðgerðinni. Bara svona af einskærri forvitni, því ekki þekki ég magaskurðlæknana á OUH og því litlu nær þó ég heyri einhver nöfn. En Martin svaraði að það yrði Muhammed Bassim sem myndi aðstoða hann. Blóðið fraus í æðum mér. Martin sagði að við myndum sjást seinna og kvaddi. Muhammed! Múslimi… og það var ramadam. Akkúrat það sem Fúsi hafði verið að hræða mig á og ég greindi frá í færslu þann 25. maí.

Þarna lá ég, ónýt að innan, bíðandi eftir aðgerð og neydd til að leggja líf mitt og traust í hendurnar á einum hrukkulausum og einum svöngum með alltof lágan blóðsykur.

Það leið að kvöldi og ég beið og beið, vitandi að Martin og Muhammed unnu hörðum höndum ofan í maganum á einhverjum öðrum. Ég lá dofin allt kvöldið. Nema þegar hjúkrunarfræðingarnir lögðu í mig magasonduna, þá var ég ekki dofin, síður en svo. Það var alveg jafn viðurstyggilegt og síðast sem var þann 1. júní og ég greindi frá í færslunni hér.

Kvensjúkdómalæknirinn sem var á vakt kíkti við hjá mér, fullur af hlýju og manngæsku. Hann settist á rúmið hjá mér og spurði hvernig ég hefði það. Ég svaraði með spurningu: „hvernig hefðir þú það ef þú vissir að það ætti að skera þig upp um miðja nótt af einum reynslulausum og einum svöngum? Og báðir þreyttir því þeir væru búnir að vera að vinna hörðum höndum alla vaktina…“ Kvensjúkdómalæknirinn lagði höndina á lærið á mér og sagðist skilja mig en að ég yrði að treysta á læknana. Auk þess væri ekkert víst að Muhammed væri múslimi og myndi þá ekki halda uppá ramadam. Og ef hann gerði, þá mætti hann borða upp úr ellefu því þá væri sólin sest. Ég setti upp hvolpaaugun, fyllti þau af tárum og bað hann um að koma með mér í aðgerðina til að sjá til þess að allir væru vel vakandi og saddir. Hann taldi enga þörf á því.

Ég held aldrei að ég hafi verið svona varnalaus og á valdi annarra áður. Ég fann að ég hafði nákvæmlega enga stjórn á aðstæðum og það á versta tíma sólarhringsins. Biðin var því ekki auðveld og ég varð virkilega að bíta á jaxlinn til að láta ekki móðursýkislegar hugsanir ná tökum á mér. Ég reyndi að hugsa ekki um hvenær og undir hverskonar aðstæðum flest miðstök eiga sér stað á sjúkrahúsum, það myndi nefnilega ekki hjálpa mér neitt, síður en svo. Ég hafði heldur ekkert val, ég varð að fara í þessa aðgerð sem fyrst. Ég varð að treysta hjúkrunarfræðingunum og læknunum.

Klukkan tvö um nóttina þann 8. júní var ég sótt.

Niðri á skurðstofunni hafði ég nógan tíma til að „spjalla“ þar sem þurfti að leggja verkjadreypi í mænuna og notaði ég því tækifærið og lagði þeim öllum saman línurnar  sem nenntu að hlusta á mig. Eruði örugglega búin að borða? Er Muhammed líka búinn að borða? Hafiði hvílt ykkur eitthvað? Þið verðið að hvíla ykkur í aðgerðinni ef þörf er á… ég get beðið. Ég bað svæfinguna um að fylgjast með ástandi skurðlæknanna og skurðhjúkrunarfræðingana um að fylgjast með ástandi svæfingahjúkrunarfræðinganna. Ég reyndi örvæntingarfull að tryggja líf mitt og heilsu eins vel og ég mögulega gat. Veit ekki hvort það hafði eitthvað að segja en ég vildi bara vera viss.

Klukkan þrjú var mér sprett upp endilangri í þriðja skipti á tíu dögum.

Klukkan fimm hættu magaskurðlæknarnir og þvagfæraskurðlæknarnir tóku við til að sauma blöðruna saman sem hafði heldur ekki gróið eftir síðustu aðgerð.

(Götin á ristli og blöðru orsökuðust af meinvörpum.)

Klukkan sex var mér lokað og stuttu seinna vakin.

Aftur man ég eftir mér örstutt á skurðstofunni eins og eftir síðustu aðgerð. Ég spurði svæfinguna hvort ég væri opin eða lokuð. Þeir lokuðu þér, svaraði hún og aftur þurfti hún að hjálpa mér að færa hendina niður á maga svo að ég fyndi sjálf. Ég strauk eftir maganum og fann fyrir plástrinum yfir skurðinum. Ég varð svo fegin. En ég strauk líka yfir stómann og hugsaði ekki meira um hann þarna. Ég hef bara dottið út aftur.

Ég man ekkert eftir deginum, hvorki á vöknun né þegar Fúsi kom. Um kvöldið var ég látin standa aðeins upp, ekki að ég muni eftir því, ég las það bara í skýrslunni minni.

Eftir fyrri bráðaaðgerðina, aðra aðgerðina á OUH eða þriðju aðgerðina í allt, hvernig sem best er að telja, var ég látin vera ein á stofu, svo lengi sem möguleiki var á. Svo kom Jytte.

Hún kom örfáum dögum áður en ég fór í ofangreinda aðgerð, sem var seinni bráðaaðgerð, aðgerð númer þrjú á OUH eða fjögur í heildina.

Jytte virtist við fyrstu sýn vera alveg eldgömul en svo held ég að hún hafi ekki verið svo gömul. Meira illa farin. Hún átti vegna aðgerðar að fasta frá miðnætti daginn sem hún lagðist inn en ég heyrði hana borða alla nóttina. Mér var alveg sama, hennar líf, hennar vandamál. Hún var samt indæl, talaði afar lágt og veiklulega. Það hentaði mér mjög vel. Það eina neikvæða við hana var að hún lá á Gjörinu í tvo eða þrjá daga eftir aðgerð og hafði ekki sett símann sinn á hljóðlausa stillingu. Svo hann titraði og hringdi reglulega í læstri skúffunni. Gott að vita að hún ætti einhverja að en algjörlega óþolandi þegar maður þarf að hlusta á þetta oft á dag og auk þess að vera með alvarlegt andlegt ofnæmi fyrir símum sem titra. Jytte var ósköp hæg og þegar hún sat, sat hún í vinkil þannig að sítt, grátt og rennislétt hárið hékk langt niður fyrir hné og hún notaði breiða hárspöng. Hún var besti herbergisfélaginn á meðan ég lá inni vegna þess hversu lágvær hún var og einu sinni tókst henni að bræða mig gjörsamlega og ég fyrirgaf henni símamistökin á svipstundu. Það var daginn eftir aðgerðina eða rétt rúmum sólarhring eftir að ég var saumuð saman. Hinn mjög svo ákveðni og eldklári dagvaktarhjúkrunarfræðingur Yvonne var mætt á svæðið og vildi gefa mér morgunmat. Ég sagðist vilja fara í sturtu. Yvonne horfði á mig og spurði hvort ég væri í einhverju ástandi til þess? Hvort hún ætti ekki að hjálpa mér í staðin að þvo mér í rúminu. Ég nánast stafaði fyrir hana að ég væri að M Y G L A í sjálfri mér. Ég ætlaði í sturtu. Yvonne samþykkti það og hjálpaði mér að standa upp en ég var víst ekki burðug og hnén virtust vera gerð úr mjúku gúmmíi. Yvonne spurði hvort ég gæti staðið á meðan hún greiddi leiðina fram á baðherbergi og sækti baðstól á hjólum. Ég játti því. Þá heyrðist veikt í Jytte: „Ef þú ert að detta, þá skaltu kalla á mig, ég skal hjálpa þér…“

Ég gat ekki annað en brosað, því ég hefði getað dottið tuttugu sinnum áður en hún  stæði upp úr rúminu með hjálp göngugrindarinnar sinnar. Þetta var samt svo sætt.

Mér var keyrt fram á baðherbergi, í fyrsta skipti og vonandi það síðasta! Það sem ég þurfti að kyngja stoltinu og öllu mögulegu. En sturtan var góð, Yvonne margspurði hvort ég ætlaði ekki að fara að skrúfa fyrir. „NEI,“ svaraði ég eins og þrjóskur krakki. Ég gat vel hugsað mér að vera undir þessari sturtu tímunum saman því þetta var besta sturta lífs míns.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

5 Responses to “7. og 8. júní 2018

Skildu eftir svar við Margrét Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *