Langanalistinn

Í byrjun sumars, þegar ljóst lá fyrir að ég væri að fara í lyfjameðferð, hugsaði ég mér gott til glóðarinnar. Ég leit á þetta sem einskonar frí og ætlaði að gera svo margt. Ég ætlaði að gera allt sem mér finnst skemmtilegt að gera þegar ég er heima sem er að lesa, blogga, dunda, ásamt því að byrja að púsla, klára að hekla teppið og jafnvel að fara á námskeið í heimasíðugerð. Þriggja og hálfsmánaðar sumarfrí – þvílíkur lúxus maður lifandi.

Það eina sem ég náði að gera af mínum lista sem þó aðeins bjó í hugarfylgsni mínu, var að lesa um það bil tólf bækur og blogga endrum og eins. Ekki getur það talist mikið afrek en samt hef ég aldrei á ævinni verið eins örmagna og í lok þessa sumars.

Þegar ég hugsa til baka og rifja upp þessar hálfspaugilegu væntingar mínar, get ég ekki annað en brosað. Námskeið í heimasíðugerð – ha ha ha. Stundum er ég nefnilega pirruð út í WordPress því ræðarinn á það til að kenna árinni um það sem ekki alltaf gengur upp.

Svoleiðis er það nú.

Fyrir nokkrum vikum síðan var ég á gangi eftir aðalgangi sjúkrahússins í Sönderborg og mætti þá einum kennaranum mínum úr hjúkrunarfræðiskólanum, henni Kristu Rós. Ég á mér tvo uppáhaldskennara síðan þá og Krista Rós er önnur þeirra. Ég er rekst reglulega á hana á förnum vegi og við spjöllum alltaf saman.

Kristu Rós brá vitanlega við það að sjá mig með höfuðfat sem er skýrt tákn um lyfjameðferð og krafðist frétta. Síðan krafðist ég frétta af henni. Jú, hún hafði heilmikið að segja. Hún er að fara á eftirlaun innan skamms og réði sér ekki fyrir kæti og spenningi. Það sem hún ætlar að gera þegar hún hættir að vinna, er eftirfarandi:

  • Gefa út sögulega bók.
  • Stunda pílates.
  • Læra ítölsku. Ég spurði afhverju ítölsku, hvort hún kynni eitthvað í málinu? Nei, ég kann varla stakt orð, svaraði hún. Ástæðan fyrir ítölskunáminu kemur undir næsta punkti.
  • Koma sér upp híbýlí í Róm á Ítalíu. Annað hvort að kaupa eða leigja litla íbúð og eyða miklum tíma þar því hún elskar Róm.

Síðan kvöddumst við og ég hélt leið minni áfram. Ég dáist að Kristu Rós sem er heilsuhraust og þrælhress og mér finnst þetta stórkostlegt plan hjá henni. Hún er búin að skipuleggja loka hluta lífs síns gróflega og þar með tryggja að henni leiðist ekki. Krista Rós hefur kannski gert „bucket“ lista eða lista yfir það sem hana virkilega langar til að gera á meðan hún lifir.

Ég sjálf hef aldrei velt því fyrir mér að gera svona lista af alvöru fyrr en um daginn þegar ég var að hlusta á þáttinn Þarf alltaf að vera grín – Bucketlistinn, sem er á Hlaðvarpinu. Þar er talað fram og til baka um þesskonar lista og hver tilgangurinn með þeim sé og á sama tíma er tekið fram hversu mikilvægt sé að gera svona lista beint frá hjartanu. Ég hef oft sagts langa til að gera eitthvað ákveðið eða hugsað það en ekki spáð í hvort mig raunverulega langi til þess. T.d. að taka ákveðna mastersgráðu. Langar mig virkilega til þess eða væri það bara til þess að hækka launin um nokkra þúsundkalla? Eða að fara til Mauritius. Langar mig virkilega til Mauritius, þarf það akkúrat að vera sú eyja? Eða er málið að fara bara á einhverja framandi eyju í rétta félagsskapnum?

Eftir að hafa hlustað á áðurnefndan þátt, ákvað ég að prófa að gera lista yfir það sem mig raunverulega langar til að gera á meðan ég lifi. Það er að segja, skrifa niður, skjalfesta. Minn listi kallast Langanalisti. Fullu nafni heitir hann Listi yfir það sem mig langar til að gera á meðan ég lifi. Þeir (gárungarnir) segja að svona listi megi ekki vera lengri en 101 atriði, það finnst mér rosalega mikið en hvað um það, slíkur listi er einstaklingsbundinn. Ég var um tíu mínútur að koma tólf atriðum niður á blaðið. Síðan bætti ég þremur við í morgun svo núna eru 15 atriði á listanum mínum. Ef þetta er ekki bara einhver bóla eða augnabliksdella í mér, þá reikna ég með að opna hann reglulega, stroka út, bæta við, breyta og jafnvel búa til sérstakan dálk fyrir efri árin. Svo að ég verði eins svöl og Krista Rós. Sumt á listanum kostar nokkra lítra af eldsneyti og nesti á meðan annað kostar meira. Allt er samt raunhæft og yfirstíganlegt fyrir meðal manneskju eins og mig. Eitthvað sem mig raunverulega langar til að gera á meðan ég lifi.

 

7 Responses to “Langanalistinn

  • Drífa Þöll
    5 ár ago

    Þetta eru góðar pælingar fyrir alla. Hversdagsleikinn á það til að gleypa fólk, það gleymir hvað það raunverulega langar að gera og svo allt í einu er tíminn runninn út og þú varst bara í candy crush allan tímann…ég er að spá í að gera svona lista. Takk fyrir góða hugmynd!

  • Margrét
    5 ár ago

    Langanalisti ? Humm! Dóttir min og hennar fj?kskylda eiga stóra glerkrukku (bara gamla sultukrkku) Eftir hvern dag fara miðar þar sem er skráð helsta Hamingjustund dagsins. Allir gera þetta og svo er innihaldið skoðað um áramót .Jákvætt ?

  • Margrét
    5 ár ago

    Langanalisti ? Humm! Dóttir min og hennar fj?kskylda eiga stóra glerkrukku (bara gamla sultukrkku) Eftir hvern dag fara miðar þar sem er skráð helsta Hamingjustund dagsins. Allir gera þetta og svo er innihaldið skoðað um áramót .Jákvætt ?

Skildu eftir svar við Dagný Sylvía Sævarsdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *