Víst er guli bílaleikurinn skemmtilegur.

Litadýrð haustsins ætlar engan endi að taka.
Í dag var þungskýjað og rakt.
Í dag voru trjástofnarnir í skóginum kolsvartir og umluktir laufum í skærustu gulum, appelsínugulum og rauðum litum. Það var alveg sama hvert litið var eða hvar í skóginum við vorum stödd, allsstaðar var fegurðin slík að það var synd að blikka augunum.

Í dag var ég í krabbameinsleikfiminni fyrir hádegi. Í kærnemælkspásunni en svo heitir pásan vegna þess að sjúkrahúsið býður upp á kærnemælk sem er einhverskonar þunn súrmjólk. Já, það er best að ég segi ykkur betur frá hvað kærnemælk er (kjarnamjólk á íslensku) og hvað mér fannst um hana einu sinni. Ég smakkaði hana fyrst vorið 2002 þegar ég var stödd í leikskóla og kúgaðist um leið og hún skall á bragðlaukunum mínum. Síðan hvarflaði ekki að mér að láta hana inn fyrir mínar varir og fannst Danir frekar ruglaðir að geta drukkið þetta sull. En síðan um daginn þegar ég byrjaði í Krabbameinsleikfiminni, þá ákvað ég að gefa henni séns vegna mikils magns próteins í henni og vegna hópþrýstings. Hún rann léttilega niður. Kærnemælk er rauninni afgangsafurð þegar rjóma er breytt í smjör og var mikið notuð sem svínafóður á árum áður. Nú er hún nýtt í örvæntingafulla sjúklinga á dönsku sjúkrahúsunum og í óvita í dönskum leikskólum.

Já í kærnemælkspásunni sátum við og spjölluðum eða þögðum og horfðum út um gluggann á umferðina fyrir utan.
Við eggjastokkakonurnar sátum hlið við hlið, við erum bara tvær í því liði. Síðan er ein lungnakona, einn blöðruhálskirtilsmaður, einn ristilsmaður og sex eru brjóstakonur.
Fyrir utan gluggann keyrði gul bjalla af nýjustu gerð framhjá og það var eins og við manninn mælt, ég kýldi – alveg ósjálfrátt – liðskonu mína í öxlina og hrópaði: GULUR BÍLL. Hún leit á mig og sagði: Mér finnst þetta ekkert fyndið. Ég fæddist kímnigáfulaus og það er dagsatt.
Neiii, ég trúði ekki mínum eigin eyrum. Er virkilega til manneskja á þessari plánetu sem finnst Gulur Bíll leikurinn ekki skemmtilegur? Hún hlýtur að vera úr annarri vídd þessi kona.

 

P.s. Auðvitað kýldi ég hana ekki, ég rétt snerti hana með hnefanum. Ég vil ekki hugsa út í afleiðingarnar hefði ég kýlt hana.

p.p.s. Hér má sjá reglurnar í Gula bílsleiknum.

P.p.p.s. Á morgun er síðasta lyfjagjöfin. Eftir morgundaginn hefst næsti kafli.

 

2 Responses to “Víst er guli bílaleikurinn skemmtilegur.

  • Elska gulur bíll leikinn ? en þessa mjólk líst mér minna á!

  • María Huld
    5 ár ago

    Gulur bíll er frábær leikur! Það er reyndar að fækka svo gulu bílunum að maður man ekki oft eftir honum lengur. Takk fyrir að minna mig á. Nú ætla ég að kenna þriggja ára dóttur minni hann næst þegar við keyrum austur 🙂

Skildu eftir svar við María Huld Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *