Pínu pirruð…

Ég var stödd með Vask á H.C. Andersen gade kl. 10:30 í morgun, fimmtudagsmorgun, þann 13. desember þar sem við gengum í hægðum okkar og Vaskur þefaði af annarra hunda hægðum. Allt var með kyrrum kjörum enda klukkan bara hálf ellefu fyrir hádegi og flest fólk upptekið við sitt.
Skyndilega, eins og þruma úr heiðskýru lofti, er skotið upp flugeldum í bænum. Vaskur tók strikið heim og þótt hann sé aðeins um 16 kíló og ég um 60, þá líður mér eins og hundurinn sé 160 kíló og ég bara 16 þegar hann verður svona ofboðslega hræddur og ætlar sér bara heim, sama hvað tautar og raular. Hann setur undir sig hausinn og beitir öllum sínum lífisins sálarkröftum til að stytta leiðina frá H.C. Andersens gade sem venjulega tekur um sjö mínútur, niður í eina og hálfa mínútu í mesta lagi.
Og mig langar allra mest til að fara að gráta. Ég finn svo til með honum. Og svo er frekar erfitt að láta draga sig svona í hálfan kílómeter en það er aukaatriði.

6. desember síðastliðinn þurfti að aflífa hryssu sem fældist vegna flugelda og stórslasaðist á afturparti. Eiginlega reif hún hann næstum af. Afhverju var einhver að skjóta upp flugeldum 6. desember?

Ég hef ekki farið leynt með það undanfarin ár að ég sé ekki hrifin af flugeldum. Það eru margar ástæður fyrir því:

  • Slæmt fyrir umhverfið og þar með loftmengun.
  • Sumir flugeldar innihalda efni sem að menga drykkjarvatnið.
  • Mikil slysahætta.
  • Mikil eldhætta.
  • Drasl út um ALLT.
  • Slæmt fyrir dýrin og fólk sem er hrætt við sprengingar.
  • Og margt fleira.

Ef ég væri sú gamla í Kaupmannahöfn myndi ég banna flugelda í Danmörku.
Ef ég væri foresti Íslands, myndi ég skrifa björgunarsveitunum bréf og biðja þær um að fara að hugsa fjáröflunina upp á nýtt. Kannski eru þær að því, ég veit það bara ekki. Já, þetta er mikil hefð og margir halda upp á hana. En þessi hefð kostar helling á svo margan hátt. Er hún ekki bara að verða barn síns tíma? Eins og mörg lönd hafa verið að ræða um undanfarin ár og eru alltaf að herða reglurnar meira og meira.
Alveg eins og hefðin þar sem lifandi köttur var settur í tunnu sem var síðan barin í spað á Öskudaginn. Stundum voru tveir kettir settir í tunnuna og þeir bundnir saman á skottunum. Engin saknar þeirrar hefðar er ég viss um.

Eins kaldranalegt og það er nú, á Vaskur afmæli á gamlárskvöld. Dagurinn hans og hann bara skelfur og skelfur og heldur í sér upp undir 14 klukkutíma. Það er að segja, ef hann pissar ekki á sig af skelfingu. Við höfum alltaf farið með hann í skóginn rétt fyrir myrkur og síðan reynt að gera aðstæður sem skástar. En þetta er líka kvöld allra hinna, kvöldið þar sem við í sameiningu kveðjum gamla árið og fögnum því nýja.
Þess vegna gerum við eins miklar ráðstafanir fyrir Vask og mögulegt er því við vitum hvað er í vændum.

Aðrir dýraeigendur og fólk sem er ofboðslega hrætt við flugelda, getur gert og gerir ráðstafanir þetta kvöld vegna þess að allir vitar hvað er í vændum. Nú hugsa kannski einstaka lesendur hvort ég sé ekki eitthvað að bulla þegar ég tala um að fólk sé hrætt við flugelda. En nei, það er mjög stór hópur fólks sem líður ílla á gamlárskvöld. Flugeldar hljóma nefnilega eins og skothríðar, sprengjur og fallbyssuskot svo fátt eitt sé nefnt. Fjöldi fólks hefur upplifað að þessi fyrirbæri hafi drepið nágranna, ástvini og jafnvel börnin þeirra. Fólkið hefur flúið frá heimalandinu sínu til okkar landa til að bjarga lífi sínu. Ef ég reyni að setja mig í skelfingarspor hundsins, gæti þetta verið svipað og að ég væri skyndilega sett niður á torgi í Aleppo í Sýrlandi þar sem stríðið væri í hámarki þann daginn akkúrat á þessu torgi. Ég get samt ekki ímyndað mér hvernig það væri, slíkur hryllingur er of fjarlægur mínu örugga og þægilega lífi.

Það er ekki nóg með að flugeldauppskotin hefjist í byrjun desember heldur standa þau fram í miðjan janúar. Dýrum og fólki til mikilli óþæginda og jafnvel dauða eins og gerist með hesta sem fælast, slasast og þarf að aflífa.
Hvað er málið? Er þetta hugsunarleysi? Leiðist fólki? Eru einhverjir einstæðir foreldrar kannski að halda áramót á öðrum tímum en á gamlárskvöld? Ef svo er, afhverju? Ég hef reyndar ekki verið einstætt foreldri og því ekki verið í þeim sporunum, en fyrir mér er það rökrétt að ef pabbinn fagnar áramótunum með börnunum í ár, gerir mamman það um næstu áramót. Eða á þrettándanum á Íslandi þar sem einnig er leyfilegt að skjóta upp. Fyrir mér er rökrétt að það foreldri sem „missir“ af, spyrji börnin út í áramótin hjá hinu foreldrinu af einlægum áhuga, skoði myndir, hringi í þau og upplifi áramótin á þann hátt í gegnum börnin. Auk þess er ekki hundrað í hættunni að missa af einhverju endrum og eins. Það er ekki hægt að vera með í öllu eða að ná öllu.
En þetta átti ekki að vera árás á einstæða foreldra, síður en svo. Að miklum hluta eru þetta skotglaðir og stálpaðir krakkaormar sem ráða hreinlega ekki við sig og eru bara að hafa gaman. Og ekki við þá að sakast. Eins og í dag; eflaust hefur einhver melurinn skemmt sér vel við að skjóta upp klukkan hálf ellefu fyrir hádegi, þótt mér væri ekki skemmt. Málið er bara að stálpaðir krakkaormar hafa ekki þroska til að hugsa út í afleiðingarnar, enda engir hestar á beit sem fælast inn í miðri Sönderborg. Afleiðingarnar eru því ekki sýnilegar.
Svo kæru foreldrar og forráðamenn, viljiði vera svo væn að útskýra fyrir börnunum ykkar, hvers vegna það sé langbest að fagna áramótunum bara upp öll í einu á miðnætti þann 31. desember.

Því mér finnst helvíti hart að geta ekki farið í göngutúr með hundinum um hábjartan dag í hátt í tvo mánuði.

 

3 Responses to “Pínu pirruð…

  • Ásdís
    5 ár ago

    Hjartanlega sammála þer, hef alltaf leiðst þessi skotgleði landans

  • Aldís
    5 ár ago

    Ohhh já svo sammála. Reyndar bý í sveit núna og það skjóta engir upp hér en ég bjó í Mosfellsbæ og var með hesta þar auk þess að vinna á hestaleigu í Hafnarfirði. Maður var alltaf drullustressaður að fara í reiðtúr á þessu tímabili. Svo ekki sé minnst á ruslið og mengunina. Mér finnst reyndar alveg að það megi setja 1000kr skatt á alla komufarþega til landsins. 500kr fara í uppbyggingum á vegum og aðstöðu fyrir ferðafólk og svoleiðis og hinn helmingurinn fer til hjálparsveitanna

Skildu eftir svar við Ásdís Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *