Íslendingur á sextugsaldri var handtekinn á sjöunda tímanum…

Frystiskápurinn okkar er að fyllast af sperðlum, ég veit hreinlega ekki hvað er í gangi. Svei mér þá ef það eru ekki 18 sperðlar sem fylla eina skúffuna svo að henni er varla lokað. Ástæðan fyrir þessari uppsöfnun er sú að ég hef ekki farið að heiman síðan í byrjun oktober og Fúsi má ekki elda slíkan óskapnað inni í húsinu okkar þegar ég er heima. Hann er að verða pínu pirraður á heimaveru minni vegna þessa.

Um helgina var hann í Kaupmannahöfn og gisti á hóteli. Hann dauðsá eftir að hafa ekki pantað sér gistingu þar sem hann væri með aðgang að eldunaraðstæðu, þá hefði hann getað tekið sperðlana með sér og eldað þá. Mér hefði fundist það góð hugmynd, því að mig vantar pláss í frystirnum. En við nánari umhugsun hefði þetta ekki verið neitt sérlega góð hugmynd. Fúsi hefði líklega komist í dönsku fréttirnar ef hann hefði farið að kokka sperðlana í Kaupmannahöfn.

Íslendingur á sextugsaldri var handtekinn í Kaupmannahöfn á sjöunda tímanum í dag fyrir að sjóða taðreykta og íllalyktandi hrossasperðla á gistiheimili á Íslandsbryggju, öðrum gestum til mikils ama. Líðan fangans er ágæt eftir atvikum en þó er hann svangur því að sperðlarnir voru urðaðir áður en hann náði að stinga þeim upp í sig. 

Fúsi væri þó ekki eini Íslendingurinn sem kæmist í fréttirnar fyrir að vera á þvers í danska þjóðfélaginu. Einu sinni komst Íslendingur í fréttirnar fyrir að vilja hjóla á hraðbrautinni, en það má ekki hjóla á hraðbraut. Og annar Íslendingur fyrir að vilja setja batterídrifna ljósaseríu á leiði ástvins síns, en það má ekki vera með „rafmagnsljós“ í dönskum kirkjugörðum. (Þetta var samt svolítið sorglegt mál.)
Já og einu sinni komst íslenskur mósóttur hestur í fréttirnar fyrir að finna týndan rauðhærðan skátadreng en ég skrifaði um það hér fyrir sjö árum síðan. Reyndar var hrossið ekki á þvers í þjóðfélaginu en sérstök var fréttin samt.

Ég hefði nú haft lúmst gaman af ef Fúsi hefði komist í fréttirnar vegna sperðlaeldamennsku en því miður var of seint að breyta gistingunni. Já því miður því að frystirinn er enn fullur af þessum sperðlum og þeir verða víst ekki eldaðir í bráð því að ég hef hugsað mér að sitja sem fastast heima við langt fram í komandi ár.
Ég benti Fúsa eða bjúgnakræki eins og ég kalla hann stundum ef vel liggur á mér, reyndar á að hann gæti soðið sperðlana á grillinu út undir húsvegg en honum fannst það afleit hugmynd þar sem kælingin er mínus sjö gráður þessa dagana.
Ef hann setur það fyrir sig, getur hann ekki verið mjög svangur.

*Sperðill (bjúga eða ítroðningur) er sver pylsa úr hræódýru kjötdeigi, saltaður og reyktur.

 

5 Responses to “Íslendingur á sextugsaldri var handtekinn á sjöunda tímanum…

  • Ásdís
    5 ár ago

    þú ert brilllllljón,,,, en aumingja Fúsi, getur þú ekki vikið þér smá af bæ, hvernig væri að taka eina nótt á hóteli í næstu götu.

  • Gott ráð væri að bjóða einhverjum í mat, sem sagt í sperðla, og elda þá heima hjá gestinum.

    Annars lenti ég í því þegar við bjuggum í Sønderborg að ég fékk bjúgu frá Íslandi, ég man nú ekkert hver kom með þau en líklega var það tengdamamma því þetta voru heimagerð bjúgu. Ég mundu nú alls ekki hversu lengi ætti að sjóða þau og greip því Matreiðslubók Helgu Sigurðar, matarbíblían. Fór í B í yfirlitið og varð steinhissa yfir að það stóð ekki orð um bjúgu þar! Ekki neitt! Ég las B yfir aftur og það breyttist ekkert. Svo allt í einu mundi ég að það var til annað orð yfir bjúgu og þegar ég mundi það loksins þá fann ég allar leiðbeiningarnar sem mig vantaði undir Sperðlar! 😀

Trackbacks & Pings

  • 2018 – Alrúnarblogg :

    […] Íslendingur á sextugsaldri var handtekinn á sjöunda tímanum… […]

    3 ár ago

Skildu eftir svar við Helga Guðrún Hinriksdóttir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *