Hárið

Ég fór í sturtu í morgun og eftir að ég var búin að þurrka mér, var ég úfin. Ég greip rakvélina hans Fúsa og rakaði mig. Eftir rakstur var ég eiginlega ekkert úfin því að ég rakaði of stutt. Andskotinn, svona rétt fyrir jólin.

Þegar Lone skurðlæknir sagði mér þann 13. júní að ég væri að fara í lyfjameðferð, var það fyrsta sem ég spurði um, var hvort ég myndi missa hárið. Svarið var já. Allsstaðar? Aftur var svarið já.

Í alvöru, var ég að fara að missa ljónsmakkann minn? Já ég kallaði hárið á mér stundum ljónsmakkann sem var algjörlega á skjön við raunveruleikann. Við ljónin höfum oft tröllatrú á öllu sem okkur við kemur.

Þessi mynd er tekin örfáum dögum eftir fyrstu lyfjagjöf og einni og hálfri viku eftir útskrift á sjúkrahúsinu. 

Fyrsta lyfjagjöfin var 28. júni og ég hafði heyrt að hárið myndi byrja að losna eftir um það bil tvær vikur. Í mínum huga hafði ég því ljónsmakka til 12. júlí.
Sunnudaginn 8. júlí var ég að greiða mér eftir sturtuna og sá þá og fann að það var að losna. Ég segi ykkur það satt, ég fékk sjokk! Ég kallaði á Fúsa eins og eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir og hann kom hlaupandi niður á bað. Ég stóð bara og stundi upp úr mér grátandi að ég væri að missa hárið. Ég varð svo hrikalega leið og fannst ég ekki vera tilbúin. Mér fannst allt gerast svo hratt og ég var bara ekki tilbúin í neitt. Ég var ekki tilbúin í lyfjameðferð eftir allar þessar aðgerðir en varð að byrja, samkvæmt lögum, innan fjögurra vikna frá aðalskurðaðgerðinni. Ég var ekki tilbúin til að díla við aukaverkanirnar og ekki tilbúin til að missa hárið. Mér fannst vera svo mikið að gera hjá mér – í þessari sömu viku voru sex atriði skrifuð í dagatalið mitt, gestagangurinn var gífurlegur og ég þurfti að velja mér hárkollu…
Daginn eftir var ég að skrifast á við kunningjakonu með reynslu á þessu sviði. Hún sagði mér hvernig hún hefði upplifað hármissinn og ég skrifaði meðal annars: „Já mér finnst þetta ömurlegt. Þori ekki að fikta í því né greiða það eða neitt. Svo að ég losi ekki að óþörfu.“ Það getur stundum verið svo gott að tala við fólk með reynslu.

Í fyrstu lyfjagjöfinni spurði hjúkrunarfræðingurinn hvort ég vildi að hárkollukonan kæmi upp á deild og sýndi mér hárkollur? Ég þáði það og hún tók myndir af mér til að senda hárkollukonunni. Konan kom, vakti mig (ég svaf eins og steinn í lyfjagjöfunum) og byrjaði að máta kollurnar á mig. Ekki veit ég hvernig myndirnar voru sem hjúkrunarfræðingurinn tók af mér, en hárkollurnar voru allar Marilyn Monroe ljósar og með topp. Svo hún fór aftur og ég hélt áfram að sofa.
Þennan dag voru Aldís og Svala með mér og ákváðum við að kíkja við á hárkollustofunni á leiðinni heim. Ég var sett í stól, snjóhvít og utan við mig – líktist meira undinni bekkjartusku en manneskju – og átti að taka þátt í hárkolluvali…
Ég sagði já við einhverri, bara til að segja já og komast heim sem fyrst og konan ætlaði að panta hana fyrir mig.

Daginn eftir rifjaðist upp fyrir mér að það er líka hárkollustofa í Sönderborg, þannig að ég hringdi til Odense og afpantaði hárkolluna þar. Síðan hófust ótal heimsóknir til Lene á Men´s Cut því að svona ferli tekur tíma. Allavega fyrir mig.

Föstudaginn 13. júlí var hárið orðið það þunnt að ég þorði ekki öðru en að láta raka það af. Lene var líka að fara í burtu yfir helgina og ég vildi ekki enda með tjásur. Mér fannst tilhugsunin um að ljúka þessu af, best.
Heil hersing arkaði því niður í bæ; Svala, Fúsi, Sigrún vinkona sem var komin í heimsókn og ég. Þetta var stór stund. Men´s Cut er hárgreiðslustofa þar sem þau eru með hárkolluaðstöðuna á efri hæðinni. Rakstur af þessu tagi fer fram í lokuðum bás.
Mig kveið svolítið fyrir og Lene lagði til að við yrðum bara tvær í rakstrinum, hin biðu frammi á meðan. En svo kom Svala og hélt í hendina á mér. Þannig að eitthvað sem að ég hélt að yrði hræðilegt, var svo alls ekki hræðilegt. Ég held líka að ég hafi tekið sjokkið út þegar hárið byrjaði að losna nokkrum dögum áður. Síðan losnaði það meira og meira og varð dautt á að líta, þannig að það var ekki eins og það væri verið að raka fallegan ljónsmakka af. Frekar ljónslýjur.

Lene var um það bil sjö sekúndur að raka mig, ég snéri baki í spegilinn og þegar hún var búin, setti hún á mig hárkolluna og snéri mér við. Á þessum tímapúnkti var ég mjög heit fyrir tveimur kollum og Lene var því á ferðinni inn og út úr básnum. Í eitt skiptið var hún lengi frammi og ég stóðst ekki mátið að taka af mér kolluna og kíkja… Þetta var ekki eins slæmt og ég bjóst við. Alls ekki. Enda var ég bara krúnurökuð þarna. Og alveg er ég viss um að Lene var viljandi lengi frammi. Hún vildi leyfa mér að vera einni með sjálfri mér, vitandi að ég myndi kíkja.

Í fyrsta skipti með hárkolluna 13. júlí. 

Eftir rakstur fórum á kaffihús og röltum um höfnina, en þegar heim var komið, tók ég kolluna af mér. Ég setti hana síðan aftur á mig þegar ég fór í dulargervi á AA fund með Sigrúnu en það er hægt að lesa um þann fund hérna.
Í þriðja skiptið setti ég hana á mig 3. ágúst þegar við fórum út á borða á Dyvig badehotel. Í fjórða skiptið sem ég notaði hana var í fertugsafmæli um daginn vegna þess að um það bil helmingur gestanna þekkti mig ekki og ég vildi ekki vera lyfjameðferðargellan í afmælinu. Í fimmta skipti sem ég setti hana á mig, var þegar ég fór í jólatrésleiðandur út í sveit um síðustu helgi og vildi ekki að jólatrésbóndinn, sem að ég þekki, sæi að ég hefði verið í lyfjameðferð.
Ég hef sem sagt notað hana fimm sinnum á rúmlega fimm mánuðum.
Ef að ég hefði farið út á vinnumarkaðinn núna í janúar, eins og við bjuggumst við í upphafi, hefði ég notað kolluna í vinnunni. Mér hefði ekki fundist rétt að standa á Gjörinu með kemóhúfu.

Á leið á AA fund 17. júlí í dulargervi með Sigrúnu. 

3. ágúst í Dyvig

Um leið og ég keypti hárkolluna (eða sýslan splæsti,) keypti ég nokkrar kemóhúfur eins og við köllum þær hérna og þar af eina leikfimishúfu sem er úr betra efni. Mér fannst þetta brilljant lausn því ég hafði hvorki orku né tíma til að spá í klútabindingum og þess háttar. Því notaði ég húfurnar óspart fyrstu þrjá mánuðina eða þangað til að ég fór að ná andanum. Í dag nota ég eingöngu hálsklúta, bæði þá sem ég átti fyrir og þá sem ég hef keypt og er enn að þróa vafningsaðferðir. Ég er ódugleg við að taka myndir af mér í hversdagsleikanum og því á ég bara þessa þar sem ég er með hálsklút á höfðinu.

Þessa tók ég á sjúkrahúsinu í Sönderborg í gær 21. desember, þar sem ég var að bíða eftir að vera kölluð niður á skurðstofu til að fjarlægja nýrnarþvagleggina… Já báða! Ég þurfti niður á skurðstofu, því að þetta voru malecot leggir og það þarf röntgen tæki til að fjarlægja þá. Og þá spyrja sérfræðingarnir: Hvers vegna ekki röntgendeildin? Og þá svara ég: Það er of langt að útskýra það hérna. 

Mér hefur alltaf þótt auðvelt að fara út og að vera úti á meðal fólks með kemóhúfu eða klút um höfuðið. En ég hef ekki verið mikið fyrir að sýna mig sköllótta. Það hafa bara nánusta fjölskylda og vinir ásamt starfsfólki sjúkrahúsanna séð mig þannig. Það er líka tvennt ólíkt að vera krúnurökuð og að vera sköllótt. Höfuðlagið breytist sem og útlitið. Mér finnst ég vera nakin og langar ekki til að sýna mig þannig, enda löngu hætt að spila fatapóker.


Þessi er tekin nokkrum dögum áður en Svala og Jacob lögðu af stað í ferðalagið til Latín Ameríku. 

Ég man eftir einu atviki en þá sat ég í sófanum hérna heima og það var bankað. Fúsi fór til dyra og ég heyrði að þarna væri kominn gestur. Ég spratt upp, hljóp út í gegnum garðdyrnar, niður tröppurnar og inn þvottahúsmeginn, þaðan inn í svefnherbergi þar sem húfurnar lágu, setti eina á mig og kom svo labbandi upp tröppurnar í forstofunni eins og ekkert væri, þar sem gesturinn sem er góður vinur okkar, var að fara úr skónum. Þarna þakkaði ég fyrir þrjá innganga á húsinu okkar.
Reyndar voru mörg atvik þar sem var bankað og ég bað Fúsa um að opna ekki fyrr en ég væri búin að setja á mig húfu. En ég hljóp bara einu sinni hringinn í kringum húsið til þess.

Þarna er ég með leikfimishúfuna um miðjan júlí. Ég mæli með svoleiðis því að rannsóknir sýna víst að það sé gott að stunda leikfimi í lyfjameðferð ef mögulega hægt er. 

Við Svala nýkomnar af Kislings, báðar doppóttar og saddar. Þessi er tekin um mánaðarmótin júlí ágúst. 

Þessi er tekin í lok júlí í bullandi aukaverkunum, kvefi og rosalegu annríki.

Allar þrjár með kemóhúfur. (Takið eftir bolnum sem Aldís er í – einhverjir þekkja hann) 

Ég missti allt hár af líkamanum og sakna sumra alveg heilan helling. Augnhárana sakna ég mest, því ég er alltaf að fá eitthvað drasl í augun. Það er líka mjög óþægilegt að vera ekki með hár í nefinu. Ég sakna háranna á fótleggjunum ekki mjög mikið og alls ekki háranna sem eiga það til að koma á efri vörina. Bara alls ekki. Og viti menn, þau koma til baka fyrst allra hára!
Já, nú er hárið byrjað að vaxa aftur en það er eitthvað í að það líkist ljónsmakka…

Ég óttaðist líka mjög að verða andlitslaus og þar sem ég var ekki að fara eyða peningum í t.d. ferðalög, þá fékk ég mér augabrúnahúðflúr. Ég treysti mér hreinlega ekki til að teikna á mig augabrúnir á hverjum einasta degi. Því var þetta góð fjárfesting.

Hármissirinn á höfðinu hefur verið ærið tilefni til að segja brandara. Þó urðu þeir kannski aðeins of margir á tímabili því að  tengdasonurinn var farinn að hlæja af einskærri kurteisi og Svala sem ætíð er hrein og bein, farin að segja mér að nú væri komið nóg. En svo fóru þau til Mexíkó og þá gat ég tekið upp þráðinn að nýju.
„Fyrirgefiði hvað ég er sein, en það var eitthvað sambandsleysi í sléttujárninu…“
„Hey Svala, þetta er þitt hár, ég er alveg 120% viss…“ ef ég fann eitt langt hár liggjandi einhversstaðar.
„Svala, má ég fá hárburstann þinn lánaðann? Ég finn ekki minn.“
„Fúsi, viltu kaupa fyrir mig hárfroðu þegar þú ferð niður í bæ?“ 

Annars sá fyrrum samstarfsfólk mitt á Gjörinu björtu hliðarnar á þessu og bentu mér á að ég yrði ekki vandræðum með hárleysið þar ég ætti svo margar flottar hárkollur. Út frá því datt mér í hug að sprella aðeins á Instagram.

Vaskur heldur oft að hann sé ljón, ég er ljón. Myndin af Vaski er nokkurra ára gömul og ég stóðst ekki mátið að gera eins.  

Elva Rakel, Svala og Vaskur sýna stuðning í verki.

Þessi er tekin á afmælinu mínu 2. ágúst. 

Já, það kom sér aldeilis vel að eiga nokkrar hárkollur í þessum aðstæðum og að geta nýtt þær.


Ég tek að sjálfsögðu að mér að leiðbeina við vafninga ef einhver er í vandræðum. Bæði skriflega og í gegnum myndbönd.

Ég mæli með að prófa sig áfram með þá klúta sem til eru á heimilinu (ég klippti nokkra til) og síðan er hægt að kaupa allskonar í allskonar verslunum. Ef keypt er af t.d. litlum vinnustofum, er oft hægt að fá sérsaumað. Eins og t.d. hjá Sif hannar á Akureyri. Facebook linkur hér.

Ég mæli með litum í lyfjameðferð eða bara í lífinu yfirleitt. Svart er oft of dimmt.

Hér er linkur á síðuna sem selur kemóhúfurnar.  

4 Responses to “Hárið

  • Katrín Sif
    5 ár ago

    Þú ert svo mikil stjarna, klarlega bjartasta stjarnan i danmörku knus á þig yndisleg
    Kv. Katrin Sif aka. Sif hannar

  • Heiða
    5 ár ago

    Þetta er mest fræðandi pistill sem ég hef lesið um þetta umrædda efni…ótrúlega góð innsýn inn í hluti sem maður hefur ekki reynt en þarf stundum að fræða um án mikillar þekkingar. Takk. Og gleðileg jól

  • Takk fyrir að segja okkur frá þessu! ??
    Og mér fannst brandararnir þínir mjög góðir ?

  • Ásdís frænka
    5 ár ago

    Ooo Dagný, bara orðlaus þú er dasemd

Skildu eftir svar við Heiða Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *