Pælið í … svo mörgu.

Sjúkrahúsið í Nyborg. 

Hvað skyldi nú hafa gerst á degi tvö á Heilsuhælinu í Nyborg? Jú, eftir morgunmat brunaði ég til Odense þar sem ég átti tíma hjá skurðlækninum sem að skar mig upp í júní. Þetta var bara þessa dæmigerða skoðun þremur mánuðum eftir aðgerð en fyrir mér var hún engin hversdagsmatur, heldur var ég spennt eins og bogi. Ég hef örugglega áður imprað á hræðslu minni hérna inni gagnvart magavöðvunum, að þeir gróa kannski ekki eins og vonast er til. Og þar sem maginn er svona í hreinskilni sagt og ykkur að segja, alls ekki sléttur, þó að næstum allir haldi að ég sé með sléttan þvottabrettismaga, þá óttaðist ég mjög kviðslit á byrjunarstigi. Sérstaklega vegna þess að hann búlar aðeins út hægra megin. En læknirinn minn, já ég á hann, mér þykir svo undur vænt um hann, sem heitir Uffe, sagði að þetta væri ekki kviðslit. Ég spurði hann hvort þetta væri þá bara spik? Ha, nei alls ekki, þú ert svo fín og maginn þinn er súper dúper flottur, svaraði hann pínu í keng. Ég sagði að það væri í lagi að þetta væri spik, því ég vil frekar hafa það á maganum heldur en kviðslit.
Ég brunaði síðan aftur til Nyborgar, bókstaflega í skýjunum og með tónlistina í botni. Pælið íessu! Pælið í hvað allt snérist mér í hag þann 14. júní. Er það ekki kreisí? Ég er heppnust í heimi.
Ok, ég veit að kviðslit drepur engan og er mjööög óalvarlegt, ég nennti bara ekki að vera með svoleiðis og þess vegna varð ég svona glöð þegar Uffe taldi nokkuð víst að það væri ekki. Hann bað mig samt um að hringja í sig næst þegar ég fer í CT skanna, hann ætlar að fylgjast með í gegnum myndirnar.

Ég náði síðasta hálftímanum á fyrirlestri hjá hjúkrunarfræðing um síþreytu (fatigue) og svefn þegar ég kom til baka. Til allrar hamingju eru það ekki vandamál sem plaga mig að ráði. Eins og ég segi, ég er svo heppin með svo margt.

Eftir hádegi var gert þoltest á okkur. Ég hef nú ekki farið í svoleiðis í hundrað ár og kveið fyrir að opinbera mátt- og þolleysi mitt. Ég meina, hæðin okkar hérna á sjúkrahúsinu er uppi á fjórðu hæð og bið ég guð um að taka mig til sín þegar ég næ efsta pallinum, svo móð er ég og ég tala nú ekki um ef ég þarf að halda uppi samræðum á leiðinni upp. Vá hvað það er sjúklega erfitt. Allavega, ég var með hjartslátt alveg niður í brók af stressi yfir þessu þoltesti og var tilbúin til að skrifa heimilislækninum mínum og biðja hana um að gefa mér resept á þunglyndislyf því að ég var viss um að ég yrði þunglynd af niðurstöðunum. En viti menn, ástandið á mér er hvorki meira né minna en meiriháttar því að ég lenti mjúklega í dálkinum lengst til hægri sem er besti dálkurinn. Hvernig sem það nú í ósköpunum er hægt. Það er að segja, vera bara eins og franskur hjólakappi í snarbröttum Ölpunum eftir allt sem á undan er gengið?

Þið megið alveg pæla líka í þessu.
Reyndar gerði ég mitt allra allra besta því að við vorum þrjú í einu á þrekhjólunum og ég var á milli tveggja karlmanna og ætlaði að endast lengur á hjólinu en þeir og það tókst.

Þegar þessum látum var lokið fór ég ein í göngutúr og komst að því að Nyborg á sér merkilega sögu, bæði landfræðilega í Danmörku og stríðslega en Svíar og Danir börðust í Nyborg upp úr miðri 17. öld. Danir unnu afgerandi sigur og Svíar misstu um 7000 manns á meðan Danir misstu aðeins um 500. Ég keypti mér líka bikiní í Kirkens korshær (svipað og Rauði krossinn) því að tvær ætla í morgunsund í sjónum á morgun og ég bara get ekki staðist freistinguna.

Eftir kvöldmat mætti presturinn á svæðið og ætlaði að segja okkur hvað það þýddi  Að vera mannseskja. En það fór alveg út um þúfur hjá henni, því miður því að hún byrjaði á tala um Adam og Evu og trén þeirra og bíblíuna og það getur verið ögrandi í tuttugu manna ókunnugum hóp sem hefur ekki sjálfur valið að hlusta á prest. Hún kastaði líka dauðasprengunni á mitt gólfið. Nú skulum við ræða dauðann krakkar mínir. Þó svo að aðeins séu liðnir tveir dagar, held ég að fólkið hérna sé orðið ofboðslega þreytt. Það tekur á að kynnast nítján nýjum á tæpum tveimur dögum sem allir eiga sér tragíska sögu í töskunni og segja hana gjarnan alla saman niður í minnstu smáatriði hvenær sem færi gefst. Þannig að þetta var sá allra versti prestafyrirlestur sem ég hef farið á og ég hef þó farið á nokkra slíka í þessu ferli mínu og alltaf fundist þeir svo klárir á lífið og hafa margt gott og nytsamlegt að segja. Þessi þarf kannski bara aðeins að æfa sig.

En endilega pælið enn meira í hvað dagurinn var samt frábær þrátt fyrir prestinn … Og veðrið, það var svo fallegt haustveður að það væri efni í aðra færslu.

Góða nótt.

2 Responses to “Pælið í … svo mörgu.

  • María Huld
    4 ár ago

    Haha dásamleg lýsing ?

  • María Huld
    4 ár ago

    Hvaðan kom þetta spurningamerki í svarinu hér á undan? Þetta átti sem sagt ekki að vera spurning heldur staðhæfing. Ferlega fyndin færsla, sérstaklega lýsingin á prestinum.

Skildu eftir svar við María Huld Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *