Allt í fokki.

Haldiði ekki að allt sé komið í eitthvað andskotans fokk. Eins og gærdagurinn var nú góður.
Dagurinn byrjaði reyndar vel með morgunmat og morgunsöng. Þið ykkar sem hafið búið í Danmörku kannist kannski við þessa sterku hefð Dananna að hefja daginn með söng? Þetta fer þannig fram að allar stofnanir með sjálfsvirðinguna í lagi, eiga mörg eintök af Højskolesangbogen eða Lýðháskólasöngbókinni sem var fyrst gefin út árið 1870 sem sameiginleg söngbók fyrir alla lýðháskólana, en fyrsti lýðháskólinn var stofnaður 1844 og þá var byrjað syngja á morgnana í Danmörku. Söngbókin inniheldur tæplega 600 lög og það stórmerkilega er að það er alveg sama hvað lag valið er, alltaf kunna allir lagið.
Í morgun var mjög fallegt lag valið sem heitir Livstræet. Textin er svona:

Der er så meget, der kan trykke
gøre dagen trist og grå
Se de folk der uden lykke
bare går og går i ståLad dem lege i livstræets krone
Lad dem føle, at livet er stort
lad dem skue de blå horisonter
og himmelhvælvingens port.Der er så meget uden varme
uden ånd og uden liv
folk bliver fattige or arme
tænker kun på tidsfordriv.Lad os lege…Der er så mange uden venner
uden kærlighed og kys
folk som ingen andre kender
hvor mon de skal finde lys?Lad os lege…Der er så hård en kamp om magten
alle kæmper for sig selv
Er der ingen der har sagt dem
at de slår sig selv ihjel?Lad os lege…

Der er så mange, der er slaver
af sit job og af sin tid.
Hvorfor bruges vores gaver
uden tanke, uden vid?

Lad os lege…

Alveg hreint óskaplega fallegur texti og hressandi hefð hjá þessari söngelsku þjóð en þið þurftuð alls ekki að lesa hann …

Eftir þetta fórum við til sálfræðings.
Hvaða bull er þetta í mér? Ég er að gleyma einu aðalatriðinu. Ég byrjaði daginn kl. 06:15 og gekk niður á strönd ásamt tveimur öðrum og hoppaði í sjóinn því að ég stóðst ekki freistinguna. Sjóbaðið var frábært.

Svo fórum við til sálfræðingsins. Hún sagði að lífshættulegur sjúkdómur breiddi úr sér eins og hringir í vatni. Greiningin er steinninn sem kastað er í vatnið. Hún sagði líka að grunntilfinningarnar; reiðin, hræðslan, hryggðin og gleðin, gætu magnast hjá fólki sem hefði lent í álíka. Hmmm gæti það mögulega verið í mínu tilfelli þegar ég kemst í gríðarlega vímu við það að vita að ég er ekki með kviðslit og með þol á við sveittan franskan hjólakappa? (Sjá færsluna á undan.) Hún sagði líka margt fleira sem var mjög gáfulegt og nýtilegt. Hún lét okkur líka segja margt gáfulegt.

Eftir hádegið var leikfimi, það var alveg sallafínt en kannski ekki mikið fútt í henni miðað við formið sem ég er í, þannig að hún var ekki alveg nóg og þáði ég því boð um að fara í hjólatúr með einum krabbabróðurnum. Hann er prófessjónal línudansari og hraðahjólreiðarmaður. Hann klæddi sig í allan búninginn (hjólabúninginn) og setti á sig appelsínugul hjólagleraugu sem mér finnst ekkert mjög töff svona innanbæjar. En ég var sem betur fer ekki ein með honum, krabba-alsystir mín kom líka (í krabbaheiminum erum við alsystkini ef um sömu greiningu er að ræða, ég gæti því aldrei eignast krabbaalbróður.) Nema hvað systirin beygði til vinstri niður á höfn en ég var búin að segja já við bróðir minn um að fara út á Knudshoved sem samkvæmt honum voru bara um sex kílómetrar fram og tilbaka. Það var þarna sem allt fór í anskotans fokk því að sætið á hjólinu var harðara en stál og mjórra en stöngin sjálf! Og við fórum á MALARSTÍG!

Ég kom ekki upp orði alla leiðina vegna kvala, sem að gerði svo sem ekki mikið til því að hann er ekki ræðinn maður.
En ég lét mig hafa það að hossast þarna á eftir honum því ekki datt mér í hug að fara að væla eða kvarta því að öll höfum við upplifað hluti sem eru mikið verri en þetta.
Í kvöldmatnum kom hann og kvíslaði að mér að við hefðum hjólað 14 kílómetra og vildi fá fimmu (high five) frá mér. 14 kílómetra!?  Áttu þetta ekki bara að vera 6? Þá var ekki nema von að neðri hluti kynfæranna á mér væru eitt helblæðandi og flakandi sár, og vitiði, ég hélt í augnablik að ég væri byrjuð á túr en mundi svo að það þarf stórt og kröftugt kraftaverk til þess að það gerist. Djöfull var fokkað í mér þarna og það fauk í mig en við þessu var svo sem að búast því að maðurinn er heilaskaðaður eftir sína krabbategund og því í takmörkuðu standi til að rata og skipuleggja.

Talandi um kvöldmatinn, hann var ekki tíðindalaus með öllu. Það varð næstum því slagur, ég get svo svarið það. Og getiði einu sinni á milli hverra – jú á milli kaupmannahafnarbúanna og jótanna. fjónarbúarnir eru alltaf hlutlausir í svona erjum. Kaupmannahafnarbúarnir báru afgerandi sigur úr bítum þegar jótunum var tilkynnt að það væri svo mikil fjósalykt af þeim að það væri ekki hægt að stíga fæti sínum af Litlu beltisbrúnni Jótlandsmeginn. Kaupmannahafnarbúarnir gáfu sér í verðlaun að mega velja sér borðtennisspilafélaga og getiði nú einu sinni hverja þau völdu … Nú mig og Spánverjann. Hurðinni inn í borðtennisherbergið var læst því að jótarnir með sína fjósalykt máttu ekki koma inn og mér leið eins og gísl.

Á morgun ætla ég að skila hjólinu og láta vita að sætið getur klofið fólk upp í herðar.

Góða nótt og sofið rótt.

 

 

 

One Response to “Allt í fokki.

  • Margret Guðmundsdottir
    5 ár ago

    Mikið áttu gott að vera þarna með öllum Dönunum .Þeir hafa svo notalegt skopskyn. Og svo hlýtur það að koma manni í góðan gír að byrja saman á morgunsöng. Það verður gaman hjá ykkur Fúsa þegar þið takið morgun sönginn þegar þú kemur heim. Kær kveðja héðan frá Reykjavík .

Skildu eftir svar við Margret Guðmundsdottir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *