Til Stokkhólms

Hversu langan tíma tekur að keyra frá Sønderborg til Stokkhólms? Svarið er: 10 tíma landleiðina og 12 tíma og korter sjóleiðina yfir Kattagatið.

Haustfríið í viku 42 er danskt skólafrí, áður kallað Kartöflufríið því að börnin þurftu frí úr skólanum til að fara heim og taka upp kartöflur. Þetta er eina fríið á haustönninni á meðan vorönnin er sprengfull af fríum og frídögum.

Við nýttum haustfríið í ferðalag til að neminn í fjölskyldunni gæti verið með og þar með sameinast í fimmta skipti á þessu ári sem er að okkar mati nokkuð vel af sér vikið miðað við að við erum búsett í tveimur löndum, á þremur mismunandi stöðum. Við erum búin að hittast tvisvar á Íslandi, einu sinni í Sönderborg og tvisvar í Svíþjóð á síðastliðnum 7 mánuðum. Mér finnst það æðislegt. Fyrir nokkrum mánuðum spurði ég Aldísi afhverju hún og kærastinn ferðuðust ekki meira og svarið kom promte: „Afþví að öll mín frí fara í að hitta þig ...“ Mikið rétt kæra dóttir. Ég veit upp á mig sökina. Ég hef víst örlítið spilað út ónefndu spili, spili sem minnir á tromp. Ég veit að ég hef verið svolítið frek á fjölskylduna undanfarið en málið er bara að mín eigin forgangsröðun hefur breyst og ég hef komist upp með það.

 

Við Fúsi lögðum af stað keyrandi í blíðviðri þann 10. oktober og stefndum á ferjuna í Frederikshavn til að sigla yfir til Gautaborgar. Við vorum svo tímanlega í Frederikshavn að við höfðum tíma til að kíkja í bæinn og skoða okkur um. Hafiði komið á göngugötuna í Frederikshavn? Hún er mjög hugguleg og alveg þess virði að heimsækja ef að leið liggur hjá.

Ferðin sjóleiðina frá Frederikshavn til Gautaborgar tekur þrjá og hálfan tíma. Um borð í ferjunni eru veitingarstaðir, spilasalir og fríhöfn. En ég hafði tekið koddann minn með og eftir að hafa borðað upp úr nestisboxunum, lagðist ég niður og vonaðist eftir veltingi, sem enginn varð. Við elskum að taka með okkur nesti því að það er án undantekninga betri matur en fæst við vegasjoppur og um borð í ferjum. Svo er líka svo skynsamlegt að tæma ísskápinn áður en farið er í frí, því það versta sem ég veit er að koma heim til sprelllifandi ísskáps.

Í Gautaborg eigum við samfélagsmiðlavini en Ellen (og fjölskyldu) kynntist ég í gegnum Snapchat þegar við báðar vorum virkar á Íslendingar úti snappinu. Þá bjuggu þau í Shanghai. Síðan þá höfum við fylgjst hvor með annarri, fyrst á snappinu, síðan á Instagram. Eins og alltaf þegar við hittum samfélagsvini í fyrsta skipti í lifandi lífi, vorum við spennt og pínu stressuð sem var  svo alveg ástæðulaust því að reglan virðist vera sú að ef fólk er skemmtilegt og indælt á samfélagsmiðlun, er það bara skemmtilegra og indælla í alvörunni. Við gistum hjá Ellen, Styrmi og hundinum Barney Stinson og ég viðurkenni (Ellen veit það líka) að ég var búin að bíða eftir að fá að borða hjá þeim hjónum síðan við ákváðum að heimsækja þau. Instagrammið hennar einkennist nefnilega af girnilegum mat sem að lætur garnirnar í mér gaula. Og ég var ekki svikin, hvorki af mat né góðum félagsskap.

Daginn eftir, eftir morgunmat eins og á flottu hóteli, héldum við áfram til Stokkhólms. Svíþjóð er skógi vaxið og liggur hraðbrautin eiginlega allan tímann í gegnum skóg, sem að mér finnst ekkert gaman á sumrin þegar allt er grænt eða á veturna þegar allt er grátt. En á haustin er ég til í að keyra í gegnum skóg klukkustundum saman. Litadýrðin að hausti til í Svíþjóð er engri lík. Við völdum að keyra á milli vatnanna; Vänern og Vättern, sem var svo sem óþarfi því að þau sáust aldrei.
Leiðin tók á milli fimm og sex tíma í keyrslu. Seinnipart föstudags renndum við upp að lestarstöðinni í Älvsjö og hittum Aldísi sem var að komin í helgarfrí.

Framhald síðar …

 

One Response to “Til Stokkhólms

  • Mín kæra! Takk fyrir komuna, mikið var gaman að eyða kvöldi með ykkur hjónunum!

Skildu eftir svar við Ellen Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *