Kjúklingabaunasalat – skemmtileg tilbreyting frá því hefðbundna.

Á SuðurJóska sjúkrahúsinu er hefð fyrir því að bjóða starfsmönnum upp á hefðbundinn julefrokost fyrir jól. Í ár var þetta gert 8. desember. Vegna Covid var ekkert hlaðborð heldur voru útbúnir matarpakkar sem hver og einn fékk. Í hefðbundnum julefrokost er síld og rúgbrauð, rækjur og rúgbrauð, kjötkæfa og rúgbrauð, kjötbollur og rúgbrauð og allt saman toppað með sultuðum rauðbeðum – einskonar tapas að hætti Dana. Ég fékk veganska útgáfu af julefrokost; meðal annars baunakæfu, linsubollur og kjúklingabaunasalat. Þetta bragðaðist mjög vel, sérstaklega kjúklingabaunasalatið.

Ég hef oft heyrt um slíkt salat og það hefur lengi verið á listanum yfir rétti sem mig langar til að prófa að gera. Sá listi er reyndar ansi langur og gengur sama og ekkert að stytta hann því endalaust bætist við. Mataralheimurinn er svo óendanlega víðáttumikill og möguleikarnir endalausir. Ég á það til, eins og svo margir aðrir, að festast í því sama og þekkja bara til míkróstærðar af heildarmyndinni. Ef hún er þá til. 

Nú á dögunum dreif ég mig í að búa til kjúklingabaunasalat. Minnug hversu vel það bragðaðist 8. desember á kvöldvakt á Gjörinu. Ég leitaði að uppskrift á netinu og þar sem engin þeirra passaði við innihaldið í eldhússkápunum mínum, bjó ég til mína eigin. Sem að ég mun að öllum líkindum aldrei aftur nota því að þegar kemur að majónessalötum hef ég aldrei notað uppskrift. Alltaf bara slumpað hinu og þessu saman og kryddað með því sem til er og alltaf komist upp með það.

5 msk majónes (mér finnst veganska majónesið frá Hellmanns langbest).
2 tsk madras curry powder eða slatti af karrý eða bara því sem þér finnst gott. 
1 dós kjúklingabaunir – það er betra að merja þær aðeins því annars rúlla þær út úr salatinu … 
Hálfur rauðlaukur – smátt saxaður.
Lítill gúrkubiti – smátt saxaður.
Einn blaðsellerístöngull – smátt saxaður.
3 stk. cornichoner (litlar sultaðar gúrkur) – smátt saxaðar.
Smá stykki af chili – smátt saxað.
Steinselja.

Uppskriftirnar sem ég fann á netinu innihéldu allar epli. Það er örugglega líka mjög gott.

Mér finnst majónessalöt svo góð ofan á ristað rúgbrauð, nýbakað brauð, hrökkbrauð og rifið gróft baguette eins og á myndinni. Ég segi rifið vegna þess að ef baguette er rifið eða slitið í sundur, kemur betra bragð. Meiri stemming. Eins og vera stödd í Frakklandi. Hafiði annars einhverntímann upplifað Frakka skera baguette eða crossiant? Nei, þeir rífa. Fúsi er ósammála og vill skera það. Það einkennir hann – þolir illa óreglu. Enda er baguetteið á myndinni rifið í annan endann og skorið í hinn. Hér á heimilinu er millivegurinn alltaf farinn þegar það er hægt. Sem er eðlilega ekki alltaf. Í einni af eldhússkúffunum okkar eru dagsdaglegu glösin og bollarnir geymdir. Þar eru um fjórar tegundir af vatnsglösum, tvö rauðvínsglös, þrjár tegundir af kaffibollum, tebollar og termókönnur. Svona sittlítið af hverju til dagslegs brúks og bara sett niður þar sem er pláss hverju sinni. Oftar en ekki heyrist þungt andvarp djúpt neðan úr maganum á Fúsa þegar hann opnar skúffuna og síðan: „ég bara get þetta ekki“. Þá geng ég til hans, tek utan um hann með annarri hendinni og sting hinni ofan í skúffuna og hræri í öllu saman. Ég get ekki sagt að það hjálpi honum en mér hef gaman af.

Góða bóndadagshelgi.

-ykkar 

One Response to “Kjúklingabaunasalat – skemmtileg tilbreyting frá því hefðbundna.

  • Asdis frænka
    3 ár ago

    Sammála með að rífa brauðið, sammála Fúsa með að raða í skúffuna ?

Skildu eftir svar við Asdis frænka Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *