ÍVAR ÍVar ívar.

Kannist þið við þegar eitthvað situr á hakanum í mörg ár, eitthvað sem liggur ekki á en er samt alltaf að trufla. Eitthvað sem þarf að gera en getur verið snúið og lausnin er bara ekki alveg handan við hornið. Kannist þið líka við þegar það er eitthvað í híbýlinu ykkar sem er vel sýnilegt, ekki fallegt og væri betra að fela? Eins og varmapumpa uppi á vegg, miður fallegur ofn eða rafmagstafla? Við erum einmitt með rafmagstöflu sem blasir við þegar gengið er inn í húsið inn um aðalinnganginn. Hún er síður en svo falleg. Ljósgrábrún og óregluleg. Við Fúsi höfum velt fyrir okkur oft í mörg ár (13 ár) hvað hægt væri að setja upp til að fela ferlíkið og ekki komist að niðurstöðu og því hummað þetta fram af okkur í einhvern tíma. Síðan höfum við farið að velta vandamálinu fyrir okkur aftur, og komist að sömu niðurstöðu, sem sagt engri og svona hefur þetta gengið, ár eftir ár. 

Þangað til ég einn daginn var vafrandi um á Instagram og sá lausn sem var einföld, ódýr og mér líkaði við. Þetta var að sjálfsögðu ekkert annað en einfalt IKEA HACK sem hefur tröllriðið öllu síðastliðin nokkur ár. Hack þýðir einfaldlega í þessu tilfelli að breyta eða bæta hlut/húsgagn eða búa til nýjan hlut/húsgagn úr hlutum úr öðrum hlutum. Þetta hefur verið geysivinsælt að gera með IKEA vörurnar. Ekki síst skápinn IVAR. Þannig að við keyptum tvo Ívara og sáum að með því að saga þá svolítið til og mála, myndi þeir smellpassa utan um rafmagnstöfluna.

Húsið okkar er á þremur hæðum (fjórum ef háaloftið er talið með) og við erum strangt tiltekið með fjögur svefnherbergi. Á meðan  Aldís og Svala bjuggu heima notuðum við gestaherbergið niður í kjallara fyrir gesti en eftir að þær fluttu að heiman höfum við notað það fyrir allt mögulegt annað en gesti. Það fer betur um þá uppi í björtum herbergjum stelpnanna. 
Í haust létum við síðan loks verða af því að gera upp eldhúsið og fá okkur nýja innréttingu – það ferli tók ekki nema fimm mánuði. Og þar sem við þurfum ekki lengur á gestaherberginu í kjallaranum að halda fyrir gesti, fluttum við hluta af gömlu innréttingunni þangað niður og draumurinn er að hafa þar lítið verkstæði. Þá get ég bara spáð, spegulerað og pantað það sem mig langar í hjá Fúsa húsgagnsmið hf. Ef hann þá kemst þar fyrir, því þetta er líka geymsla, þvottaherbergi, róðrabrettageymsluherbergi og tækjageymsluherbergi. Þarna eru líka útifataárstíðarskápurinn og herbergið er alls ekki stórt skal ég segja ykkur. En okkur mun takast að hafa þarna smíðaverkstæði. Svona þegar ég kem mér í að taka almennilega til. Allavega tók Ívar stakkaskiptum á smíðaverkstæðinu og þrátt fyrir aðstæður. Í Danmörku hafa flest allar verslanir verið lokaðar síðan á síðasta ári – hugsið ykkur að það sé hægt að segja svona. Síðan á síðasta ári! Einungis matvörubúðir og apotek hafa verið opin. Því varð ég að kaupa málningu á netinu og þegar kom að því að velja litinn, vandaðist málið. Eftir að hafa rýnt í litina á tölvuskjánum, pantaði ég Jotun LADY Interiør Finish 40 í litnum Bare uppá von og óvon. Við söguðum síðan úr hurðunum, settum lista og franskan reyr eða rattan. Eitthvað eru nú skiptar skoðanir á Íslandi hvað svona stöff kallast. 

Volla! Komin skápur! Mjög svo langþráð lausn. Við tókum sem sagt tvo Ívar skápa í sundur því við þurftum á hliðunum að halda, settum skápana ofan á hvorn annan og slepptum bakinu útaf rafmagnstöflunni. 

Og þarna er hún, rafmagnstaflan sem engin má sjá en allir hafa séð í öll þessi ár. Nú nýtist umfram plássið undir sólgleraugun, innkaupapokana, kúkapoka, lykla, grímur, vettlinga og húfur (á veturna) og sittlítið fleira þegar neðri skápurinn er talin með. Ég hefði kannski átt að raða betur áður en ég tók myndina, til að sýna ykkur hvað býr í mér, en þið vitið flest hvernig ég er, ég smelli bara af. 

Hnúðana keyptum við hjá Nillas sem er með ótrúlega mikið úrval af fallegum og skemmtilegum hnúðum á góðu verði.

Gjöf frá Ellen, gjöf frá Sessu, eftirprentun af upprunalegu teikningunum af húsinu okkar síðan 1947, strá af ströndinni, eucalyptus frá Ástralíu (?) og ónotað perustæði úr kjallaranum með nýrri peru í. Glöggir taka mögulega eftir að það eru ekki sömu teikningar af húsinu á myndunum – við eigum tvær mismunandi sem ég svissa um leið og ég þurrka af. 

Kær kveðja 

Dagný (og Vaskur – sérlegur skrautmunur). 

4 Responses to “ÍVAR ÍVar ívar.

  • Ellen Björnsdottir
    3 ár ago

    Þetta er frábært hjá ykkur!

  • Asdis frænka
    3 ár ago

    Meiriháttar

  • Vigdis Ingolfsdottir
    3 ár ago

    Vá hvað þetta er flott! Þetta er allt svo smekklegt hjá ykkur. Eldhúsið, litavalið og stíllinn allur. Þetta klæðir fallega húsið ykkar vel. Það er oft þess virði að bíða með að gera hlutina þar til að maður er viss um hvað maður vill 🙂 Annað en, ég sem bara rumpa hlutunum af. 🙂

  • Stella
    3 ár ago

    frábært … þið eruð nú meiri snillingarnir … en hvar fékkstu rattan?

Skildu eftir svar við Vigdis Ingolfsdottir Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *