Ritgerðirnar frá því í denn…

Svört mappa hefur fylgt mér í gegnum tíðina án þess að ég hafi neitt spáð í hvað væri í henni… hún hefur bara verið með hinum möppunum á milli húsa og á milli landa. Um daginn vorum við e-ð að taka til í gestaherberginu því við vorum að fá gesti og rakst ég á þessa möppu og veitti henni athygli.

2013-12-03 20.59.52

Þá kom í ljós að hún er frá ´89 og í þá daga fannst mér ég líka vera cool!

Í þessari möppu leyndust gersemar skal ég segja ykkur! Ritgerðirnar mínar úr grunnskólanum! Mér hefur alltaf þótt gaman að gera ritgerðir og þykir það enn.

Fyrsta ritgerðin mín sem er frá ´88, fjallaði um Bandaríkin, var 39 bls löng og að sjálfsögðu handskrifuð með svarthvítum límdum myndum á stangli.

2013-12-03 21.11.48

Í innganginn hef ég skrifað: „…. þegar við fréttum að ritgerðin ætti að vera minnst 10 bls. varð ég veik eða þannig…“

Í lokaorðin hef ég skrifað: „… Ég vona að þetta sé ekki erfitt lestrar vegna tímakreppu minnar við að skrifa þessa ritgerð. Fyrst áttum við að fá 3 vikur, svo eina viku í viðbót en þá þurfti ég að fara til tannlæknis í Rvík. Við fórum svo hina frægðarför til Hallormsstaðar í Húsó og hafði ég ekki tíma þá því ég varð svo ástfangin. FYRIR ÁSTINA GERIR MAÐUR ALLT.“ 

Ég hef ekki verið gömul þegar ég byrjaði að forgangsraða svipað og ég geri í dag… það skemmtilega fyrst!

Einkunin var 9,75 og kennarinn endar á að skrifa: „….en athugaðu að ástin er ekki alltaf eins og hún sýnist“  Hann skrifaði ekki nafnið sitt en grunar að þetta hafi verið Óttar sem gaf mér þessa flottu einkunn.

2013-12-03 21.01.41

Í menntaskóla hef ég greinilega farið í vettfangsferð niður á Seyðis með félagsfræðihópnum og Jóni Inga. Man ekkert eftir ferðinni en það er alveg á hreinu að JI hefur sullað kaffi á skýrsluna mína áður en hann skilaði henni til baka.

Þegar ég var í 8. bekk gerði ég ritgerð um Hreindýr. Þvílíkur teiknari sem ég hef verið!!!

2013-12-03 21.04.12

Í innganginn hef ég m.a. skrifað: „… mér hefur alltaf þótt vænt um hreindýr og hef komist í ágætis kynni við þau…“ 

Kannski rétt að taka það fram að pabbi var hreindýraeftirlitsmaður nánast alla mína barnæsku.

2013-12-03 21.07.05Þessi ritgerð var tölvuunnin… örugglega í sömu tölvunni og ég spilaði gulan tetris. Á myndinni má sjá: (Munnl. heimild, 1990, Á.E. og A.M.)… Þarna skörtuðu foreldrar mínir sínu skærasta.

2013-12-03 21.07.51

Sneglu-Halli var væntanlega íslenskuverkefni og Siddi var kennarinn. Sé það á skriftinni hans sem sést í gegnum þessa rosalegu forsíðu! Og sé það reyndar á skriftinni minni líka því Siddi var líklega sá strangasti skriftarkennari sem ég hef haft, og hef ég aldeilis vandað mig í þessu verkefni. En hvað sem ég hefði vandað mig mikið og lengi, hefði ég aldrei komist með tærnar þar sem Siddi var með hælanna varðandi rithönd.

En þessi forsíða… ég er orðlaus… þvílíkir hæfileikar!

Rigerðin um þræla skartaði líka forsíðu sem bar vitni um teiknara með hæfileka á við heimsfrægan löngu dáin listamann… ég get svo svarið það!

2013-12-03 21.08.16

Innganginn byrjaði ég með eftirfarandi setningu: „Góðann daginn, glaðann haginn og gakktu í bæinn….“

Ég hef ekkert verið að spara n-in þarna í 8. bekk!

Í inngangnum stendur líka: „… eftir Bengt A. H. Ég þekki ekki þennan Bengt en bókin er ágæt…. Ég hlakka til að gera þessa ritgerð því mér finnst það miklu skemmtilegra en að vinna verkefni í bókinni“

Það vantaði ekki hreinskilnina á bernskuárununum… og þarna er staðfesting á ritgerðarskemmtun minni.

Jóhanna kennari hefur bara gefið mér 8 fyrir þessa ritgerð… skil ekki hvað klikkaði… forsíðan hefur varla dregið mig niður?!?

Síðan hef ég gert ritgerð um fjöldamorð og enn einu sinni hef ég misst mig með trélitina.

2013-12-03 21.09.47

Þessi ritgerð var handskrifuð… talvan hefur líklega verið upptekin.

2013-12-03 21.10.43

Að klippa og líma var ekki mitt uppáhald sem krakki og er ekki enn. Allt var og verður skakkt og límið fer útum allt. Það er ástæða fyrir því að það hvarflaði ekki að mér að læra leikskólakennarann. Í dag dettur sárafáum í hug að rétta mér skæri og lím…

Í lokaorðinum stendur m.a.: „… þessi ritgerð búin (jibbi jei)…. allsekkert leiðinlegt að skrifa hana, en maður er rosalega fegin að vera búin með þetta……………………………………………. jæja, maður veit náttúrulega ekkert um einkunnina en vonar bara sitt besta…….. bless bless og takk fyrir matinn (joke).“ 

Þessi lokaorð innihéldu meira en þessar djúpu hugleiðingar og greinilega hafa kennararnir horft fram hjá þessu bulli og slettum því einkunin var mjög ásættanleg.

Síðasta ritgerðin sem ég ætla að sýna ykkur er ritgerðin um bólusótt. Forsíðan snarbreytist þarna og minnir skemmtilega á forsíðurnar sem prýða nútíma ritgerðirnar mínar. Svarthvítt, einfalt og án mynda. Þarna hef ég komist í tölvuna því Eygló, Drífa, Jói og Oddsteinn hafa líklega verið búin með sínar ritgerðir…

2013-12-03 21.04.54

Í lokaorðin hef ég skrifað: „…bráðsmitandi sjúkdómur en við þurfum samt engar áhyggjur að hafa…. 

Ég hef væntanlega verið álíka kærulaus þarna í denn og nú til dags…

Ritgerðirnar í dag eru e-ð annað! Ég gengi frá ykkur ef ég birti svosem eina setningu úr þeim… þar eru engar skakkar myndir, joke né annað bull… bara þurrleikinn einn og sér.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *