Heilögu frídagar!

Síðustu 2 dagar hafa verið þokkalega góðir. Bara tjillað fram og tilbaka með morgunhár, kaffi í lítratali, þögn og útiveru. Á miðvikudaginn fór ég með Vask á ströndina. Það var lágskýjað, vindur, örugglega 100% raki og því ískalt. Samt eyddum við rúmlega 2 tímum á ströndinni og í fjörunni með myndavélina og einn bolta. Þegar heim var komið, bjó ég til heitt kakó og lagðist skjálfandi undir teppi. Jesús! Og ég sem var vel klædd.

Í gær fórum við líka út, en völdum skóginn. Það var rigning, vindur og lágskýjað… myndavélin varð eftir heima, líklega í verkfalli… vildi ekki meiri bleytu, sand, salt og önnur óhreinindi. En síminn er alltaf klár í tuskið…

2014-01-16 12.21.55

Við fórum útaf stígnum eins og venjulega og lentum í ófærum. Það er einmitt það sem er svo skemmtilegt við skóginn… þessar ófærur, ógöngur og margt óvænt. Sérstaklega eftir stormana tvo í haust. Þarna sáum við t.d. hreindýratré sem ég hef ekki séð áður.

2014-01-16 12.22.12Á stóru svæði liggur grenið í einni stórri hrúgu sem sýnir svo vel hvaðan vindurinn hefur blásið.
2014-01-16 12.37.13

Eftir brölt og klifur í gegnum ófæran skóginn vildum við viðra okkur á litlu einkaströndinni okkar þar sem aldrei er nokkur maður.
2014-01-16 12.40.34

Ekki var plássið mikið því það var flóð, eða háflóð eða hvað sem þetta heitir nú. Þetta eru afleiðingarnar af að alast upp, inní landi, upp við fjall. Engin fræðsla um flóð og fjöru, klukkuna né áhrif tunglins á þessi fyrirbæri.
2014-01-16 12.43.42

Ég gæti þessvegna drukknað við að njóta útsýnisins yfir til sumarparadísinnar Kegnæs og vindmyllanna. Ef ég t.d. félli í stafi og myndi bara skolast á haf út??? Munið, landkrabbar að fræða börnin ykkar um háttalag hafsins því annars getur ílla farið.

2014-01-16 13.04.56

Vaskur er eins og manneskja, því skítugri, því skemmtilegra!

Ég mæli eindregið með skóginum á þessum árstíma, velklædd, velskóuð og helst á virkum degi, því færra fólk, því betra!

Á leiðinni heim kom ég við í bakarínu… jafn skítug og Vaskur. Held að starfsfólki bakarísins finnist ég undarleg! Annað hvort kem ég algjörlega nývöknuð eða grútskítug þarna inn, aldrei venjuleg. En mig langaði bara svo í rúgbrauð. Og afganginn af heimalöguðu kakóinu frá því daginn áður.

IMG_2612

Vissuði að það er í tísku að baka sitt rúgbrauð sjálfur? Of oft er talað um rúgbrauðsbakstur heilu og hálfu matar og kaffitímana í vinnunni minni. Ég fer bara að lesa dagblaðið eða e-ð. Þetta með súrdeigið skil ég ekki og treysti mér ekki í. Að eiga „lifandi“ deig í ísskápnum sem þarf að passa og sýna umhyggju…?!? Vinnufélagarnir hafa 100 sinnum boðist til að gefa mér smá klessu sem ég á svo að rækta!!! Þótt ég sé klár í að baka „hollustu“ muffins, þá er ég engin Einstein og nýti mér bara bakaríin í komandi framtíð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *