Kæru vísindamenn, stöðvið tímann -dóttir mín er of gömul fyrir mig!

Í ætla ég að tala um tilfinningar… ekki djúpt en þó! Ég ætla að segja ykkur frá hvernig mér líður. „Sálfræðingurinn minn segir að ég eigi að opna mig meira…“.

Allavega, var að koma heim frá að skutla Aldísi í flug í Hamburg … enn einu sinni. Þetta er faktisk 7. utanlandsferðin hennar á 7 mánuðum. Og buddan eftir því!

Í þetta sinn liggur leiðin langt út fyrir vesturheiminn, alla leið til Chennai í Indlandi.

2014-02-06 12.34.57

Afhverju ekki ég???

Aldís er svo heppin að æskuvinkonan býr í Chennai og þær ætla að verja vetrarfríinu saman. Emma skrifaði til Aldísar á laugardaginn: „Það eru um 30-35 gráður -bara svo að þú vitir það þegar þú ferð að pakka niður…“ Það bylgjaðist um mig hiti frá tám og upp í hársrætur. Ég væri alveg til í sól og hita, eða snjó og kulda… ekki þetta meðalveður í marga mánuði.

En að tilfinningunum… mér leið ofboðslega undarlega þegar ég horfði á eftir henni ganga að Gate-innganginum. Mér fannst rosalega skrítið að hugsa til þess að kl. 4 (á dönskum tíma) næstu nótt, eftir 23 tíma ferðalag, verðum hún komin á stað sem er mér svo framandi og óþekktur. Eitthvað svo allt öðruvísi. Þetta er miklu skrítnara en þegar hún fór til New York í haust. En það sem mér fannst kannski mest undarlegt var, að ég var ekki baun hrædd um hana. Litla frumburðinn minn, sem ég harðbanna að flytja að heiman… á maður ekki alltaf að vera hræddur? Eða með áhyggjur? Á ég að fá smá samviskubit? En það leyndist bara ekki ein einasta baunaáhyggja -þrátt fyrir 3 flug, ljósa háralitinn og allar fréttirnar frá Indlandi. Mig langaði bara með… langaði í sólbað. Sparkaði meira að segja í bílastæðasjálfsalann á leiðinni að bílnum! Ég vildi fara meeeeð!!! En þótt Aldís sé orðin „fullorðin“ þá vill hún ekki djamma með mér… og þær eru að fara að djamma! Og hanga saman… þær nenna ekki að hanga of lengi með mér :-/  Samt er hún orðin það fullorðin að hún spyr alltaf þegar við komum að flugvallarbyggingunni: „ætlarðu með mér inn?“ Ef ég væri ekki búin að keyra hátt í 2 tíma og væri ekki búin að drekka ½ l af kaffi á leiðinni sem svo væri orðin að 3 lítrum í þvagblöðrunni, þyrfti ég ekki einu sinni fylgja henni inn. Einu ástæðurnar fyrir að við fylgjum hvort öðru inn á flugvellina hérna, eru klósettferðirnar… skutlarinn þarf að komast heim aftur. Ég hef á tilfinngunni minni að börnin mín séu að verða einum of gömul! Þurfa oft ekki á mér að halda. Og það er sú einkennilegasta tilfinning sem ég hef fundið fyrir (allavega í dag).

2014-02-05 19.25.05

Ég hef aldrei átt VISA… og hvað þá með indversku letri… og svo er hún auglýst „SINGLE“ (einhleyp). Ég bið nágranna mína um að biðja til Guðs um að hún komi heim með sama stimpil… SINGLE! Mér fannst nóg um ævintýrið sem innihélt prinsinn af Wales… sem nú er ekki lengur með í ævintýrinu.

Eftir að hafa smellt kossi (reyndar kossum) á litla barnið mitt sem tók sólarvörn og sólgleraugu með sér til Chennai, fann ég að serum-coffein (innihald kaffis í blóði) var orðin of lágt. Fór og fyllti á og melti aðstæður.

2014-02-06 08.33.36

Ég er enn að melta… Ég er bara ekki að fatta þetta… hún er akkúrat núna á leiðinni til Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna (eða hvað þetta nú heitir). Og ég er bara heima?!!?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *