Opinberu skrifin

Hvaða Sönderborgari man ekki eftir Huginn? Bráðskemmtilega fréttablaðinu okkar sem var alltaf seinast með fréttirnar! Því hvernig er annað hægt í litlu samfélagi…?

Þar var dálkur sem hét „Út í vindinn“ þar sem meðlimir íslendingafélagsins skrifuðu og skoruðu á hvort annað blað frá blaði.
IMG_5075

Ég man ekki hver skoraði á mig og hélt ekki upp á blaðið á undan. Aftur á móti hef ég geymt þetta eins og gull…  5. tbl. 2002! Þetta var í fyrsta skipti svo ég viti þar sem ég skrifaði e-ð opinberlega og notaði ég tækifærið og rifjaði upp jólin á undan. Enda tilvalið þar sem þetta var jólablað.

IMG_5076

Ég geymdi samt nokkur blöð og rakst ég á Evu, Eddu, Brynju B, og einhverja fleiri sem einnig skrifuðu útí vindinn. Ég skoraði á Hódda kerfisfræðing því hann var trausti nágranninn minn fyrsta tímann í Sönderborg.

Fyrstu jólunum í Dk eyddum við á Frederiksberg í faðmi fjölskyldunnar hans Fúsa. Við fórum m.a. í ZOO.

IMG_5080

Í ZOO fórum við í gegnum e-rn skordýragarð þar sem voru m.a. risavaxin svört fiðrildi. Ég panikaði víst örlítið og fannst ég vera stödd í Hitchcock mynd og þetta endaði með því hraðasta hlaupi sem ég hef afrekað. Í pistlinum snéri ég þessu öllu upp á Fúsa og gerði ómælt grín að honum. Öðrum íslendingum í íslendingasamfélaginu fannst ég vond við hann. Mér fannst það ekki. Eftir þetta höfum við varla farið í Zoo og erum ekkert á leiðinni. Erum nefnilega almennt á móti dýragörðum og hænum í búrum.

Í dag nýtur Sigfús þess alveg niður í tær að fá svona mikla athygli í netheiminum mínum. Það var reyndar einhver mótþrói í honum á tímabili en eftir að hann fékk yfir 130 likes á mynd af honum og mér á facebook, sjatnaði í honum og er hann bara sáttur við sitt hlutskipti í dag. Hann er meira að segja búin að samþykkja að ég snappi hann undir öllum kringumstæðum í heilan dag á næstunni… því má ekki missa af… svo fylgist með komandi heildagssnappi!

Síðasta fimmtudag kom í annað skiftið e-ð út opinberlega eftir mig… fyrir utan 10 ára gamalt hálfopinbert blogg.

IMG_5074

Og þvílíkur heiður… sjálfur AUSTURGLUGGINN… svalasta fréttablað Íslands! Alltaf fyrst með fréttirnar og með hitamálin á hreinu. Nú eru Fjarðarheiðargöng það allra heitasta enda ástæða til. Vil þessvegna mælast til að allir sem eru læsir á íslensku gerist áskrifendur strax í kvöld. Allir sem hafa rætur til Austurlandsins eru að missa af öllu ef þeir missa af Austurglugganum. Einhverntímann í apríl ca, verð ég aftur á baksíðunni… því má heldur ekki missa af, ekki frekar en heilsdagsnappinu af Fúsa brúsa.

Næsta stærra skriflega verkefnið mitt (sem mér finnst stórt) er líka spennandi, en ég hef látið það sitja á hakanum af einskæru hugleysi…

IMG_4521

Ég þarf að telja í mig kjark því þetta er svo óþekktur geiri… þ.e.a.s ljóðlistin.

Ég sagði reyndar við Svölu um daginn… „hvað veit ég um ljóð, mitt mesta listaverk er Hómer…?“

Svala: „en hvað með mig?“

Ég: „ert þú listaverk?“

Svala: „já, er það ekki bara?“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *