Austurglugginn 1. hluti

 

IMG_5074

Með hverju árinu sem líður… 

Með hverju árinu sem líður á erlendri grundu, magnast íslendingurinn í mér. Þessi mögnun byrjaði samt ekki strax því þegar ég lít til baka, held ég að fyrstu árin mín í Danmörku hafi ég lifað í eins konar tilvistarkreppu. Hver var ég, hvaðan kom ég og hvar var ég? Eftir á að hyggja hefur þetta 12 ára tímabil skipst í 3 kafla, enda ekki hægt að gera ráð fyrir beinum og breiðum vegi þar sem útlendingur reynir að fóta sig í nýjum heimkynnum.

1. kaflinn einkenndist af gagnrýni á varnarlausa Danina. Umferðin silaðist í mínum augum, bankinn var aftur í fornöld og bæjarskrifstofan skildi mig ekki eða miskildi mig. Ég gerðist meira að segja svo kræf að panta staðlaða McDonalds hamborgara “uden løg”! Og kvartaði hástöfum þegar hamborgarinn kom með lauk því ég skildi ekki afhverju það var ekki farið eftir mínum óskum eins og heima í Söluskála KHB! Þessi fyrsti kafli stóð reyndar stutt yfir. Ég fór að sjá að umferðin var örlítið þyngri en á Eiðaveginum, að bankinn virkaði ósköp svipað og hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum og bæjarskrifstofurnar skildu mig fullkomnlega og vildu allt fyrir mig gera. Það var bara ég sem hafði ekki skilið bæjarskrifstofuna.

Í 2. kafla tímabilsins fór ég að dýrka Danmörku. Kallaði Danmörk “heim” og sá kostina fram yfir Ísland vaxa á trjánum. Ég dáði hjólastígana og súkkulaðiáleggið, danskan varð spennandi og hvorki veðrið né verðið var af verri endanum. Ísland fór svolítið í pirrurnar á mér.

Eftir á að hyggja var þetta líklega bara hluti af ferlinu að aðlagast því umhverfi sem ég hafði valið mér og sætta mig við aðskilnað frá fjölskyldu og vinum.

Þegar kom að 3. kaflanum fann ég að ég hafði aðlagast, því ég byrjaði að sjá Ísland í nýju ljósi og fór aftur að kalla það “heim”. Í dag á ég 2 “heim” og finnst það mikil forréttindi því bæði heimilin eru búin öllum þeim kostum, tækifærum og fegurð sem ég þarf á að halda. Ég hef tileinkað mér margt frá Dönunum en verð samt aldrei dönsk, aldrei, heldur held ég traustataki í uppruna minn og þá er ég ekki bara að tala um Íslendinginn í mér, ég rækta einnig gamla sveitalubbann og Austlendinginn til hins ýtrasta. Ég drekk t.d. kaffið oft úr glösum, því það minnir mig á sveitina og bragðið er réttara. Ég kalla dætur mínar stundum gæskur og þótt við búum steinsnar frá miðbænum, fengum við okkur alíslenskan geltandi fjárhund og njótum gaggsins frá hænunum níu í nágrannagarðinum. Ég gekk meira að segja svo langt eitt vorið í að rækta garðinn minn, að ég sótti 3 fötur af ferskum hrossaskít útí sveit. Eiginmaðurinn varð síður ánægður þegar ég sýndi honum ofan í skottið á bílnum og hann sá þessar skínandi hvítu fötur þar sem gufuna og ilminn lagði sterkt upp úr. En ég fann fljótlega að ilmurinn var ekki sá sami og í gömlu sveitinni minni. Það er ekki sama hvort hrossaskíturinn kemur úr Sörla eða Crazy Daisy…

Ætli 4. kaflinn sé hafin og ég byrjuð að afaðlagast?

IMG_4863

                                                                                    Ljósmynd: Svala

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *