Komið með mér í flug…

Já, þið lásuð rétt… ég ætla að bjóða ykkur í flugferð! Eða flugferðIR! Hvorki meira né minna en þrjár!

Byrjum í Sönderborg.

Vélarnar þar eru mattsvartar. Svalari vélar finnast ekki í norður Evrópu.

alsie-express-sønderborg-lufthavn

Svartur er alltaf einn af uppáhaldslitunum mínum. Hann er e-ð svo traustur. Eins og svört Nokia gúmmístígvél.

Á mánudagsmorguninn steig ég um borð með þeim síðustu og það var frjálst sætaval. Ég var ósofin eftir næturvaktina og það eina sem ég þráði var að sofa á fallegan hátt eins og hérna.

Fólk settist bara um leið og það sá laust sæti og því pakkaðist vélin frekar aftarlega. Á eftir mér voru 2 gáfaðir hitaveitugaurar á leið til framandi lands að veita einhvern hita þar. Þeir töluðu stanslaust… bæði inn í flugstöðinni, út í vél, í tröppunum og í ganginum. Ég setti mér markmið. Að fara eins framarlega og langt frá þeim og hægt var. Ég gekk og gekk, langt framfyrir fremsta fólk… og svo settist ég! Og þeir líka… fyrir aftan mig!!! Það voru 6 tómar sætaraðir á milli þeirra og annars fremsta fólksins. Ég hefði getað grátið. Kenndi að sjálfsögðu uppáhaldsilmvatninu mínu um, það var allavega eina skýringin sem ég gat fundið fyrir að þeir vildu vera svona nálægt mér. Þeir töluðu allaleiðina, annar var Dani, hinn meiri útlendingur. Daninn var yfirmaðurinn, hinn bara e-ð. Þeir töluðu gáfulega um gárurnar á sjónum, túnin í DK, yfirvofandi giftingu annars, uppáhalds smjörtegundina og vinnuna osfrv. Óþolið magnaðist upp í mér og varð að líkamlegu ástandi. Svona týpur meika ég ílla. Ég þakkaði góðum vættum fyrir mikið leggjapláss.

2014-04-14 10.10.23

Ég hef reyndar aldrei haft svona gífurlegt leggjapláss á almennu farrými. Ég vissi hreinlega ekkert hvað ég átti að gera af mínum ca. meðallöngu leggjum??? Ég bara spriklaði!

Í Kaupmannahöfn gekk allt svo hratt fyrir sig, WOW flugfélagið tékkar inn á gamla mátann og í látunum gleymdi ég að biðja um gluggasæti sem er það mikilvægasta í heimi fyrir mig.

Þegar ég uppgötvaði það, hefði ég getað grátið! Aftur…

Reyndi að drekkja sorgum mínum í snöggum hádegismat og fór svo að hliðinu í von um mjúka stóla til að sofa. Þar stóð þessi heiti starfsmannasvíi og var e-ð að chilla í tölvukerfinu. Ég ákvað að freista gæfunnar og biðja hann um að færa mig um sæti. Kreysti fram nokkur tár, vatt mér að honum og útskýrði óðamála mikilvægi þess að ég fengi gluggasæti. Hann sagði: „hmmm“. Ég ákvað að krydda og sagði honum að ég hefði staðið alla nóttina með konu á aldur við mömmu hans og barist við að halda í henni lífinu… það hefði allteins getað verið mamma hans! Hann sagði: „okay, sæti 24C„. Ég sagði: „okay, þú átt inni hjá mér greiða ;)“

Yfirmig hamingjusöm tölti ég útí vél og hlammaði mér í sætið…

2014-04-14 12.57.34

Með allt þetta pláss!!! Eru leggjapláss ekki líka bara ofmetin???

Síðan kom 24B og hlammaði sér við hliðina á mér. Stærðin var fín, en hárið var skítugt og lyktaði af gömlu hári. Og auk þess byrjaði hann fljótlega að prumpa. Jeiii… elska prumpulykt í flugvélum. Ég bylti mér til hægri, á alla mögulega vegu en ekkert gekk að sofna. Gaurinn gassaði mig meira og meira og ég var farin að kenna til svima. Konan fyrir framan mig nöldraði í börnunum sínum og það var ekki hægt að fá vatn nema borga fyrir það. Okay, gangi mér vel að finna kortið mitt í veskinu mínu undir leggjunum mínum! En ég varð að fá vatn… sem mótefni fyrir prumpugasinu. Svo að ég myndi ekki falla í eilíft dá!

Ég fann kortið, fékk vatnið, gaurinn hélt áfram að gassa og konan nöldraði hærra og hærra í grey krökkunum. (Vil bara benda fólki á að hætta almennt að nöldra í krökkunum sínum því skyndilega flytja þau að heiman). Ég sofnaði ekki og allt í þessari vél fór að fara í taugarnar mér og allir þeirra útpældu brandarar virkuðu glataðir.

Daginn eftir fór ég í þriðju vélina eða gamla góða fokkerinn. Dagurinn hafði verið erfiður og enn og aftur þráði ég heitast að sofa um borð. En viti menn, ég gleymdi að biðja um gluggasæti! Og þorði ekki fyrir mitt litla líf að biðja gluggamanninn um að skipta við mig. Hann var e-ð svo skeggjaður og með vinnulúnar hendur.

Ég beit í það súra og ákvað að una honum útsýnisins. En hvað haldiði að hafi gerst…? Það versta gerðist! Og það versta er þegar maður er að fljúga um og yfir Íslandi, fær ekki gluggasæti og gluggamanneskjan lítur ekki útum gluggann. ÞAÐ er slæmt. MJÖG slæmt! Veðrið var svo fallegt yfir Austurlandinu… Allt snæviþakið og hann skoðaði Formúlublað! Og ég náði ekki fullum svefni því ég setti í brýrnar og gerði gribbuhrukkuna tilbúna ef hann skyldi líta á mig. Ég er nefnilega með ansi djúpa gribbuhrukku á milli augnana og nota hana við vissar aðstæður. En hann leit ekki á mig… skoðaði bara þetta ömurlega og mjög svo óáhugaverða Formúlublað… hring eftir hring eftir hring eftir hring!

En leggjaplássið var ok, svona í meðallagi.

2014-04-15 18.53.27

Til að bæta fyrir annars mislukkaða flugferð, var innkoman inn í flugstöðina á Egilsstöðum með besta móti. Í hvert skipti sem ég lendi í Keflavík skima ég í kringum mig…; „þekki ég einhvern?“. Veit þetta er sveitó, en mig langar bara svo að þekkja einhvern. Eins þegar ég kem til Egilsstaða. Oft þekki ég ekki sálu í vélinni þangað og ekki heldur á flugstöðinni. Þá verð ég alltaf svoldið spæld. Í gær þekkti ég 75% af fullri vél og 80% af nánast fullri flugstöð. Juuu hvað það var gaman. 75% af Eiðaþinghánni var þarna, ásamt einu gömlu bekkjarsystkini, skólafélögum, sveitungum, frændum, frænkum, vinum og kunningjum og öðrum Egilsstaðabúum. Aldrei hef ég kysst né verið kysst svona mikið í flugstöð áður. Ég var síðust til að taka töskuna mína… þetta tók tíma 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *