Heimferðardagurinn

Í byrjun Íslandsdvalarinnar bauð ég ykkur í flugblogg þar sem ég kvartaði hástöfum yfir hreinustu smámunum! Ætti í rauninni að skammast mín. Sérstaklega í ljósi þess hversu oft ég hef lent í veseni í flugi, hversu oft ég hef verið kölluð upp, hversu oft það hefur verið hliðrað til eftir langar umræður, hversu oft mér hefur verið hjálpað og farið með mig stystu leið til að ná tengiflugi og hversu oft mér hefur verið vísað of drukkinni útúr vélinni. Hey, þetta síðasta var djók!

Í rauninni ætti ég bara að taka ferjuna hvert á land sem er. Dagurinn í gær gekk ekki smurður fyrir sig. Á sjálfum verkfallsdeginum (sem ég mundi allsekkert eftir þegar ég pantaði farið heim nokkrum dögum fyrir heimferð), mætti ég útá völl rétt fyrir kl. 6, hamingjusöm yfir engu verkfalli. Og þrátt fyrir að hafa sofið yfir mig og vitandi að ég hafði afskaplegan lítin tíma í morgunmat ásamt ilmvatna og maskaraverslun, þá hélt ég hamingjunni yfir að allt væri á áætlun. Nei, þá var búið að fresta fluginu án nokkurrar haldbærar ástæðu. „Fékkstu ekki mail? Allir fengu mail!“ Já nei, ég fékk ekkert mail og heldur ekki þessi hópur í röðinni fyrir aftan mig… Ég fékk sárabætur upp á 1500kr til að kaupa mér e-ð gott að borða og átti brottför kl. 15.30. Tók leigubíl aftur heim til Magga og fór aftur að sofa, algjörlega sú fúlasta yfir að missa af innanlandsfluginu og öllum leigubílakostnaðinum.

Í fýlunni svaf ég fram að hádegi… og það er frekar merkilegt því ég hef ekki sofið fram að hádegi í mörg ár! Ég gaf semsagt nettan skít í að spá í hvernig ég kæmist heim frá Kastrup til Sönderborgar.

Vaknaði frekar úldin og bólgin og dreif mig í sturtu eftir að hafa drukkið 750ml af kaffi. Varð svo hress af sturtunni að ég var alveg í syngjandi skapi þar til ég áttaði mig á að einhleypi bróðir minn á ekki hárblásara! Er það ekki bara almenn kurteisi og gestrisni að eiga standard stelpudót? Mamma heimsækir hann nú endrum og eins!

Ég dó ekki ráðalaus, heldur fór út á svalir og snéri mér reglulega… en 4m/sek í Keflavík gefa enga lyftingu, manni verður bara kalt. Ég gerði dauðaleit að ryksugu en fann enga. Kveikti því á brauðristinni og passaði mig á að vera ekki of nálægt. Hætti samt brauðristaraðferðinni fljótlega því ég heyrði eiginlega strax snarkhljóð… og skrítna lykt…

Síðan fór ég útá flugvöll og beint í ilmvatnsdeildina. Þetta er löngu orðin hefð hjá mér… að redda mér svona á seinustu stundu. Enda eru öll ilmvötn fjölskyldunnar keypt þarna. Ég er svo óskaplega léleg að shoppa á ferðalögum. Held ég verði að fara að taka mig á til að styrkja íslenska ríkiskassann. Á Egilsstöðum fór ég í Bónus, Kaupfélagið og 66n túristabúðina. Á Akureyri í enga búð og í Reykjavík í Krónuna og í vinnuna hjá systur minni. Miðað við að ég var 17 daga á Íslandi þá var þetta ekki mikil verslun. Ég sá til þess að ilmvötnin yrðu innsygluð ef ég skyldi nú verða svo heppin að ná seinasta flugi heim til Sönderborgar.

Þegar allt sýndist verða á áætlun ákvað ég að taka sénsinn og bað Fúsa að græja nýjan miða í innanlandsflugið. Var samt svo tæp að ég varð að skilja töskuna mína eftir á færibandinu í Kastrup og drífa mig yfir í terminal 1. Tékkaði mig inn og fór svo í öryggishliðið. Þar stóðu 5 karlmenn til að hleypa mér einni í gegn og komin einhver kvöldgalsi í þá. Sá sem skoðaði dótið tók upp ilmvatnspokann með öllum mínum ilmvötnum og möskurum og sagði: „hey, þetta verð ég að taka upp, þetta er vökvi“.

Ég fann hvernig ég missti allt blóð úr efri hluta líkamans og sagði: „hvað sagðirðu?“ Eða réttara sagt: „HVAD SIGER DU?“ Hann leit glottandi á mig og sagði: „den tager jeg“… (ég tek þetta). Ég hvæsti á hann á norsku (það virkar oftast betur) „FOR FANDEN I HELVETTE MAN… þetta er innsiglað!!!“ Hann glotti bara meira og sagði að það skipti engu… Ég veit ekki hvernig ég leit út en alltíeinu kom annar og lagði hendina á öxlina á mér og sagði: „hey, hann er bara að djóka í þér…“ Ég: „djóka!?!“ Hann: „já og þetta var mjög slæmur djókur…!“ Síðan afsakaði hann sig í bak yfir því að vera neyddur til að leita á mér (það er alltaf leitað á mér útaf skóm eða brjóstahaldara). Ég sagði að það væri minnsta mál og stóð þarna upp á palli með tárin í augunum yfir þessum asnalega brandara og með 4 karla horfandi brosandi á mig. Ég endurtók að djókurinn hefði verið ömurlegur því dagurinn hefði verið ömurlegur. Fann bara að ég var eins og sprungin blaðra eftir eitt það undarlegasta og erfiðasta tímabil í lífi mínu og hafði ekkert auka fyrir kvöldgalsa flugvallarstarfsmannanna. Sá sem leitaði að dópi eða vopnum á mér, sagði mér að slaka á og sagði að vinnufélagi sinn væri svoddan asni. Brandaragaurinn skipti um gír og fór að spyrja afhverju dagurinn hefði verið svona ömurlegur. Ég stundi upp veseninu með WOW og öllum kostnaðinum og heyrði um leið að þetta voru bara smáunir… íhugaði að biðja þá um að sækja kaffi og e-ð sterkara og segja þeim frá allri Íslandsferðinni minni þar sem skiptust aldeilis á skin og skúrir. Hætti við það, nennti ekki að tala dönsku, fór og fann mér sæti og slökkti hugarlega á mér….

…..þá var ég kölluð upp! Svavearsdóttííía… vinsamlegast beðin um að koma NÚNA út að hliði A27. Þvílíkt sem ég hafði slökkt! Og þeir sem þekkja term 1 þá er ekkert stutt yfir í A27! Hvernig gat þetta gerst??? Eins og ég segi, þá ætti ég að taka ferjurnar. Flugfreyjan spurði mig hvort ég hefði sofnað…? Ég sagði bara já.

Heim komst ég, án töskunnar.

Hún átti bara að koma í dag. Kl. 11 hringdi ég til að athuga. Konan sagði að hún væri ekki ennþá fundin… ég spurði hvort það þýddi nokkuð slæmt, hvort það væri ekki bara mikið að gera? Tja, nema hún sé enn á Íslandi, svaraði konan.

Konan var að hringja; er regnhlíf í þinni tösku? Nei, svararaði ég… bara talva, myndavél og allskonar annað sem er mér kært. Það örlar fyrir stressi hjá mér… þrátt fyrir að ég hafi tekið kortið úr myndavélinni og harða diskinn með mér í veskið mitt. Og þrátt fyrir að hafa skilið allt útivistardót eftir á Íslandi.

2014-05-01 11.46.46

Annars er engin ástæða til að vera með e-ð stress, við erum vel tryggð og Fúsi á ágætis tölvu… þarf bara alltaf að byrja á að slökkva á öllum þessu 32 síðum sem eru opnar hjá honum… pínu pirrandi!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *