Dýra konan og tvö bjúgu.

Á leið úr vinnunni í dag kom ég við í danska kaupfélaginu og keypti kaffi því ég vissi að það var kaffilaust heima. Þegar ég kom heim, sagði Gamli Gaur: „ég keypti handa þér kaffi…“. Ég: „ó, ég líka“ og týndi 4 kaffipoka uppúr veskinu mínu.

Gamli Gaur stundi: „þú ert svo DÝR…!“

Þetta fannst mér ósanngjarnt! Ég lét hann strax vita að ég væri með þeim ódýrustu í rekstri af öllum konum á milli þrítugs og fimmtugs sem ég vissi um! Að hann ætti bara að prísa sig sælan yfir að ég skuli hafa gengið í hræbilligt hjónaband með honum eftir einskæra skyndiákvörðun. Að hann væri bara lukkunarpamfíll yfir að eiga mig að ennþá því skilnaður kostar sitt! Að ég væri einstaklega auðveld í sambúð vegna nokkuð góðs geðslags og lítils sóðaskapar og getum við því sparað hreingerningarkonuna. Að önnur eins ódýr kona væri hreinlega sjaldfundin!

Hann reyndi e-ð að bakka með þetta og sagði að kaffið sem ég hefði keypt væri svo gott… að það væri góður eiginleiki að vera meðvitaður um gæðin!

Síðan hringdi flugvöllurinn. Taskan mín var komin til Sönderborgar eftir að hafa dvalið í Kastrup í 2 sólarhringa og hvort ég nennti að sækja hana, þau voru orðin svo fámenn svona seinnipartinn. Hvort ég nennti!

Ég opnaði hana með það sama þegar ég kom heim og á móti mér gaus þessi dásamlega sundlaugarlykt. Bikiníð fór rakt oní tösku á þriðjudaginn eftir að við Sigrún heimsóttum sundlaug Grafarvogs til þess eins að uppgötva hvursu hratt andskotans aldurinn læðist að okkur. Í Grafarvogslauginni eru sterkar bunur í heitu pottunum, vatnið er tært og ef maður stillir sér skáhallt fyrir framan og lætur bununa skella á maganum á sér, þá fer magaskinnið heldur betur á flakk. Mitt lenti með látum á Afríkana sem lá flatmagandi fjólublár í framan. Hann brást íllur við…: „Watch out woman!“ Ég alveg: „sorry“ og flissaði þessi ósköp. Við héldum áfram að láta buna á okkur og flissið minnkaði ekki þegar lærið á Sigrúnu minnti á fæðingu geimverubarnsins í Alien myndinni. Síðan vildu litlu 7 ára stelpurnar sem voru með okkur prófa líka en það var ekkert fyndið. Maður þarf að hafa náð vissum aldri og vissum slappleika til að skemmta sér yfir svona atriðum.

Aftur að töskunni, ég týndi upp úr eins og ég ætti lífið að leysa enda farin að sakna hlutanna minna meira og meira með hverri mínútunni. Fúsi sagði að það leyndi sér ekki að ég væri komin heim…

IMG_6605

… að nú væri ekki lengur pláss fyrir hvorki rakvélina né tannburstans hans.

Ég ákvað að gefa honum gjöfina hans svo hann hætti að tuða í mér og rétt honum 2 íllalyktandi kindabjúgu.

Hann: „bara TVÖ?“

Ég: „já…?“

Hann: „afhverju bara TVÖ?“

Ég: „afhverju ættu þau að vera fleiri?“

Hann: „ég verð bara tíu mínútur með þessi… afhverju keyptirðu ekki meira…?“

Ég: „afþví að ég var að spara!!!“

Hann: „SPARA!?! andskotinn, þú ert alltaf sparandi!“

Okay, er bara föstudagur eða sér einhver annar en ég þessi öfugmæli hjá honum??? Að ég sé dýr og alltaf sparandi?

Við Tom Waits bjóðum að minnsta kosti góða helgi með tónunum frá þessu lagi;

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *