Fullorðinsstelpupartý á móti unglingastelpupartý …

Þegar við vinkonurnar, um og yfir fertugt, höldum partý, sitjum við mest og spjöllum settlega. tea_time_by_taijavigilia-d4txd05Börnin eru aldrei með enda er myndin ekki beint af okkur (allar myndir í þessari færslu er fengnar að láni á netinu), þótt hún líktist mikið ef krakkarnir væru ekki á henni. Við blöndum okkur í glas, hlægjum aðeins, blöndum aftur í glösin, spjöllum meira, bætum á varalitinn, hlægjum meira, smyrjum glossi yfir varalitinn, hellum aftur í glösin, meira hársprey, sjáum til þess að ekkert glas sé tómt, tölum hver ofan í aðra, bætum í meikið, botnum glösin, fáum hláturskast, bætum duglega á ilmvatnið og hringjum eftir leigubíl. Allt undir kontrol.

Þegar börnin halda partý, er önnur saga og settlegheitin sem einkenna partýin okkar vinkvennanna lýta ekki dagsins ljós. Við gömlu drögum okkur í hlé eins og ætlast er til af góðum og umburðarlyndum foreldrum. Leggjumst upp í rúm með tölvurnar og bækurnar og ætlum bara að hafa það kósý í þessa ca. 3 kl.t. sem gleðskapurinn stendur yfir.

(Örstutt útskýringarinnskot; Hér í Sönderborg er engin Söluskáli né rúntur svo börnin hittast heima hjá hvort öðru, bæði hversdagslega og til að halda fyrirpartý fyrir bekkinn (oftast bara stelpurnar) ef e-ð er um að vera í skólanum eða í bænum).

Já við vorum semsagt lögst upp í rúm á föstudagskvöldið og fyrstu þrjár voru mættar af fimmtán. En það var nóg. Það þótti engin ástæða til að bíða með að blasta græjunum og öll flóran af tónlist spýttist út úr hátölurunum með slíku afli að Mylluhæðin nötraði og það slokknaði á öðrum hverjum ljósastaur. Það er einmitt í þessum aðstæðum sem ég kemst að hversu góða hátalara við eigum. Og verð hissa í hvert sinn að þeir skulu hafa þolað álagið.girls-dancing-106780

Það er heldur engin ástæða til að tefja dansinn neitt. Það er nóg að vera þrjár til að hefja trylltan dans við gömul barnaEurovisionlög, David Bowie, Artic Monkeys og alls konar fleiri tónlist sem ég kann bara ekki að gera skil á. Hinar bættust við smátt og smátt og fljótlega var talan 15. Fimmtán unglingsstúlkur hoppandi á stofugólfinu … ímyndið ykkur!

Girls-dancing-in-the-club-2-7652Við hjónakornið litum hvort á annað, lögðum frá okkur bækur og tölvur og störðum upp í loftið. Svefnherbergið okkar er svo óheppilega staðsett að það er beint undir stofunni.

remote

Okkur fannst við vera orðin háöldruð, þarna sem búið var að koma okkur fyrir til þess að við værum ekki fyrir. Og ekki veit ég hversu lengi ég bað til Guðs um að loftið/gólfið, með sófum, bókahillum og 600 bókum, sjónvarpi og sjónvarpsskáp og 15 meðalþungum unglingsstelpum kæmi EKKI ofan í rúm til okkar. Mér stóð alls ekki á sama. Og þegar þenjandi mótorhjólin með tilheyrandi strákaröddum voru komin upp að útidyrunum, sagði ég við hann Fúsa minn: „hvurslags gauragangur er þetta eiginlega“. Tja, hann vissi það nú ekki. En dansandi stúlkunum tókst að bægja hestöflunum frá og halda dansinum áfram. Guði sé lof. Síðan kom að því að ég þurfti að fara að hafa mig til fyrir næturvakt. Og það var síður en svo heiglum hent að fá að hafa baðherbergið í friði. Ég taldi áttatíu og sjö bönk og þegar ég kom fram voru níu stelpur í röð sem síðan tróðust allar inn í einu. Við erum með tvö baðherbergi en það er betra hársprey á mínu. Ég flýtti mér eins og ég gat í vinnuna og fagnaði rólegheitunum þar.

Já svona er lífið sem unglingaforeldri … endalaus glens og gaman!?! Djömmuðu þið annars um helgina?

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *