Þegar Fúsi fer til sjúkra.

Húsbóndinn fór til sjúkraþjálfa (sjúkra) í fyrsta sinn á ævinni um daginn. Já, við erum bæði að eldast, hrörna og bilast. Hann pantaði tíma og sagði: „þessi sjúkraþjálfi sagði að ég ætti að taka handklæði og lak með mér …???“ Ég sagði að það væri hárrétt, alltaf handklæði og lak. Og afhverju þarf ég handklæði og lak? spurði hann. Ég sagði honum að lakið væri til að liggja á (eðlilega) og til að verja bekkinn þeirra fyrir mismunandi líkamsvessum og að handklæðið væri til að breiða ofan á þá líkamshluta sem væri ekki verið að meðhöndla í augnablikinu, svo að manni verði ekki kalt.

Kalt? kváði Sigfús, ég fer nú ekki að fara úr fötunum! Þetta eru hásinarnar!

Jú jú væni minn, úr öllu nema narínunum. Alltaf. Sama hvað er að hrjá þig. Þetta veit ég af eigin reynslu. Og það eru engar undartekningar, aðeins naríur leyfðar hjá sjúkra.

Þessu átti Fúsi minn bágt með að trúa! Að hann þyrfti að afklæðast fyrir hásinarnar.

Hann fór nú samt af stað með stærsta handklæðið á heimilinu og lak í hvítum ruslapoka. Já þið lásuð rétt. Í alhvítum ruslapoka sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan kom. Ég hélt ég yrði ekki eldri. Það var hrikalegt að vita af eiginmanninum gangandi í vinnuna í morgunumferðinni og síðan gangandi þaðan til sjúkraþjálfa í seinnipartsumferðinni. Ég fékk nánast hroll.

Ég hef svo margoft sagt bæði við vini og fjölskyldu að það eiga bara að vera innkaupavörur og rusl í plastpokum. Ekkert annað. Annað á að vera í töskum eða renndum pokum. Eða jafnvel kössum.

Hann sagði að það skipti engu máli og að það væri engin að spá í hvort hann væri með troðfullan hvítan plastpoka á göngu út á götu eða ekki. Ég vildi meina að það myndu alltof margir spá í þessum plastpoka. T.d. gæti fólk haldið að hann væri að fara e-ð annað með þvottinn sinn. Eða væri með rusl í pokanum. Halló, passa mannorðið maður!

Hann kom síðan heim eftir heimsóknina til sjúkra og viðurkenndi að hafa háttað sig. En vildi ekki ræða það frekar. Búin að fara aftur og aftur var fjárans plastpokinn með! Ég þarf að taka hann alvarlegu tali um helgina áður en hann fer enn einu sinni á mánudaginn. Ætla reyna að höfða til tilfinninga hans þegar ég rökstyð pokamálið. Bæti kannski nokkrum tárum við rökstuðninginn. Held ég nái bestum árangri þannig 😉

Góða nótt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *