Þriðjudagur til þrautar

Dagurinn í dag! Jesús Kristur … Ég hef stundum fengið að heyra að út frá blogginu fái fólk mynd af mér sem hressu gellunni sem er sítalandi, síbullandi og alltaf í stuði. Nei það er ég ekki. Síður en svo. Ég þarf svo oft þögn. Stundum kveiki ég ekki á útvarpi þegar ég er ein heima. Það þarf ALLTAF að lækka í auglýsingunum í sjónvarpinu. Ég fæ gæsahúð þegar einhver rótar í pottaskápnum og þakka yfirnáttúruöflunum á hverjum degi fyrir uppþvottavélina, því ég þoldi ílla diskaglamrið þegar aðrir vöskuðu upp. Man það ennþá. Fúsi segir oft: „Herre Gud, það er eins og maður búi á elliheimili“. Ég væri alveg til í að búa á elliheimili, í rólegheitum og tala bara við fólk um helgar.

Í dag var ég föst í aðstöðu þar sem talað var við mig stanslaust í næstum 9 klukkutíma. Alveg sama hvað ég reyndi -halda fyrir eyrun, loka augunum, grúfa mig ofan í símann, prumpa vondri lykt, halla mér hættulega langt út um gluggann -alveg sama hvað ég reyndi, þá var talað við mig.

Ég brosti að mestu en inn í mér leið mér cirka svona:

Insane_Uriel_by_UrielStock

Allt í lagi, smá ýkt, en samt. Óþolið hefði mælst svimandi hátt í blóðprufu. Ég má ekki við miklu áreiti.

52081592_InsaneCrazyWoman_answer_3_xlarge

Kannski  var ég meira svona. Nokkuð eðlileg og bara að missa mig.

Allavega, ég var orðin of sein til tannlæknis og svolítill æsingur á mér. Þá var kallað í mig innan úr einni skrifstofunni. Sú sem kallaði sagði að hún hefði ekki þurft að líta við því hún þekkir fótatakið mitt svo vel. Ég: „já, er það? Mamma þekkir það líka“ og brosti.

Hún: „já þú ert svo ótrúlega þungstíg og hraðskrefa. Manni dytti aldrei í hug að það ætti eftir að birtast fínleg og kvennleg (hrós) stelpa því þú hljómar eins og tröll (EKKI hrós)“.

Ef mér þætti ekki svona vænt um þessa yndislegu konu þá hefði ég ekki fyrirgefið henni á staðnum, þegjandi og hljóðalaust. En TRÖLL! Ok, maður á víst að reyna að vera sáttur í eigin skinni.

Ég gæti kannski mögulega nýtt mér reynslu og kunnáttu vinkvenna minna og frænkna sem hafa í stórum stíl tekið þátt í fegurðarsamkeppnum út um allt Ísland og sýndu væntanlega ekki tröllslegt göngulag þar? Já ég spyr þær. Læt þær búa til handa mér námskeið.

Þegar ég kom til tannlæknisins settist ég beint í stólinn, naut þess að láta hann síga niður og ætlaði aldeilis að slappa af. Helst að sofna. Vonaði samt að ég fengi aðra klínku en síðast en sú fræddi mig aldeilis um ónæmiskerfið í munninum og sagði „leukokytter“ 797 sinnum. Maður segir „leukocytter“ á dönsku þar sem c-ið er borið fram sem s. Ég gat ekki fengið mig til að leiðrétta hana. Í dag slapp ég, en fékk í staðin ofuhressa klínku sem sagði: „haha en fyndið föðurnafn, hvernig berðu það fram á dönsku?“

dentist

Ég: „Sevasdottía“

Hún: „ha? segðu þetta aftur“

Ég: „Sevasdottía“

Hún: vá en skrítið, hvað sagðirðu, Sev …?“

Ég: „Sevasdottía“

Hún: „Sevasdooo???“

Ég: „Sevasdottía“

Hún: „vá hvað þetta er erfitt… var það Sevadot???“

Ég: „Sevasdottía“

Hún: „þið á Íslandi hafið svo undarleg og erfið föðurnöfn, það er ekki hægt að bera þau fram!“

Ég: „mér finnst nú föðurnöfnin hjá Tamílunum í Sri Lanka mikið erfiðaðri …“

Hún: „ha já er það? Hvað er týpískt föðurnafn þar?“

Uuuu lít ég út fyrir að kunna nöfn frá Sri Lanka utan að? Nei það geri ég ekki.

Þau eru sko að meðaltali 23 bókstafir, já eitt nafn! E-ð sem fyrir mér er algjörlega ómögulegt að reyna að bera fram. En ef ég þarf, segi ég bara fyrstu 4 bókstafinu og kemst upp með það.

Ég blundaði ekki einu sinni í stólnum því ég átti í fullu fangi með að svara hinum og þessum spurningum með munninn fullan af röntgen plötum, sogi, vatnslöngum, slípara, töng, bursta, krók, slefi, sónartæki, tannkremi, fingrum og fleiru sem ég kann ekki skil á. Og klinkan var ekki með munnbindi. teeth-smile-small

Hún talaði og talaði og ég lá varnarlaus og starði á varirnar á henni og mjallahvítar tennurnar á yfirsnúningi. Ég hélt hún ætlaði að kyssa mig, hún var svo nálægt. Munnbindi gerir gæfumuninn! Allavega ef maður vill EKKi koss.

Já þvílíkt mas í dag! Stundum eru sumir dagar bara meira slítandi en aðrir.

Annars verður dagurinn á morgun góður, veit það því Aldís kemur heim eftir útlegðina á Aglastöðum. Það tókst ekki að koma henni út eins og ég reyndi hér, en samt sem áður er hún ánægð með dvölina. Hún og Gistihúsið á Egilsstöðum fóru hvort öðru bara þrælvel held ég.  

Stal þessum myndum sem teknar voru í laumi, á netinu. 10641237_859471917420858_7730330104175964866_n 10616091_859471997420850_8515585642462503463_n

Sú fær ekki að anda í einhvern tíma á morgun, því ég ætla að kreista hana svo fast!

Ohh hvað ég hlakka til!!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *