Aðfangadagskvöldið í gær

Ohh þessi jól. Það er varla að maður dragi andann.

Í gær fórum við samt í jólagöngutúr, það er ekki hægt að fylla sig af jólamat nema vera með hreint samviskuloft í lungunum.

IMG_9704 IMG_9698 IMG_9695Þegar við komum heim man ég ekki alveg hvað ég gerði, hékk örugglega bara á facebook eða greiddi mér. Seinna lagði ég á borð. Nei, hvaða vitleysa, stelpurnar dekkuðu borðið, enda meira í þjónastörfunum en ég þessa dagana. Allt var eftir mínu höfði, ég þurfti ekkert að laga né rétta til.

Síðan klippti ég blóm af jólatrénu og setti í lyfjaglösin.

IMG_9714

Og stillti kertastjökunum mínum upp fyrir myndatöku. Hérna, afhverju hefur engin minnst á þessa kertastjaka fyrr? Ég sem lauma þeim aftur og aftur inn á myndirnar mínar fyrir bloggið! Best að kynna ykkur fyrir þeim. Veit að ykkur langar í þá þótt þeir séu hvorki finnskir né danskir. Þessi lengst til vinstri er frá suður Chile og heitir Carámbanos því hann minnir á uppásnúið grýlukerti. Hann kostaði 5 danskar krónur (104.29 ISK). Sá í miðjunni heitir Clessidra Quartetto og er frá Róm. Hann kostaði 5 danskar krónur (104.29 ISK). Sá til hægri er alltaf kallaður Chibusa og kemur frá lítilli eyju í Japan. Hann kostaði 5 danskar krónur (104.29 ISK). Ekki til að svekkja neinn en þá á ég fleiri í svipuðum dúr. Þ.e.a.s. fræga hönnunarstjaka allstaðar að úr heiminum. Þeir eru allir þungir og massívir úr alvöru gleri og allir kostuðu þeir 5 danskar krónur (104.29 ISK).

IMG_9730

Síðan borðuðum við, gengum frá og tókum upp pakkana. Alltaf eins, ár eftir ár. Pakkaupptökunin tók rúmlega tvo og hálfan tíma. Við erum öll orðin svo fullorðin sjáiði til. Engin ægðarlæti né tætingur hér á bæ. Fjölskyldurnar á Íslandi voru búnar að hringja sjösinnum til að þakka fyrir sig þegar við loks gátum stunið upp okkar þökkum.

Já nota bene, við fengum yndislegar gjafir! Bækur í stafla, kynæsandi undirföt, tannbursta (?), ullarföt, drykkjuverkfæri, rúmföt og Helga Björns. Á meðan ég man… hef ég einhverntíma minnst á að ég væri hrifin af Helga? Ég fékk nefnilega fleiri en einn disk með Helga? Hvernig vissi fjölskyldan að hann væri sá heitasti í dag?

Á Aðfangadagskvöld var líka beint samband við Eiða… Við mömmu gömlu, Magga bró, Viktor sem talaði mest um David Beckham sem er mér að skapi og Daníel sem nennti bara ekki að tala við mig, vildi frekar horfa á mynd. Á Eiðum var pabba heitins minnst meðal annars með því að setja laufabrauð á diskinn hans, laufabrauð sem ég skar bókstafinn Á út í.

Leiðið hans er á kafi í snjó þessa dagana, ennþá meira en þegar við vorum á Eiðum. IMG_2137

Við Aldís komum við hjá honum eitt kvöldið á leið heim úr hesthúsinu og dustuðum snjóinn af krossinum.
IMG_2142Já, nú er enn meiri snjór. Litli þriggja ára frændi minn, honum Daníel fannst eitthvað skrítið við að afi sinn væri bæði ofan í jörðinni og upp í himninum. Hann spurði hvort hann væri ekki örugglega í úlpu? Og hvort hann ætti ekki grafa hann upp? Honum langaði svo að hitta hann.

IMG_1142

Seinna, þegar þau voru á leiðinni í Egilsstaði heyrðist skyndilega í Daníel aftur í bílnum: „ég er mjög duglegur að grafa, ég get líka grafið með fótunum“.

Litlu smáatriðin minna okkur á að okkur vantar hann. Pakkarnir voru bara frá mömmu, hann var ekki með á myndunum frá Eiðum í gærkvöldi og við óskuðum ekki hvort öðru gleðilegra jóla. Allt þetta litla sem skiptir samt máli.

Annars höfum við haft það yndislegt. Það er svo gott að hafa hinn pabba hjá okkur. IMG_9743Þarna er hann, töffarinn sjálfur með alvöru tattoo, sitjandi fyrir á meðan ég var fá einhvern botn í þessa myndavél.

IMG_9781Já kæru vinir, þarna erum við… misglaðleg. Fúsi var að hugsa um fæðingu frelsarans á þessu augnabliki (nei, það var hann ekki að gera) og pabbi gleymdi alveg að myndavélin væri enn að smella… sko frá því að ég færði mig frá vélinni og til þeirra. Vaskur gat svo ekki stýrt sér fyrir gleði með rauða jólaslaufu um hálsinn… vitandi að pakkarnir væru á næsta leyti. Stelpurnar skilja ekki öll þessi „like´s“ sem við höfum fengið á myndina á facebook þar sem misheppnaðri mynd var varla póstað út í gær. Strákarnir segja að þetta séu samúðarlike´s vegna þess hversu erfitt þeir eiga fyrir framan myndavélar. Skiptir ekki máli, við segjum TAKK!

Haldið áfram að eiga sem yndislegust jól og borðið á ykkur gat samhliða lestrinum. Ég er byrjuð á bókinni eftir Ófeig (sem er bráðmyndarlegur og jafngamall mér).

P.s. Það allra nýjasta! Pabbi var að lauma því að mér að Raggi Bjarna væri frændi minn!!! Fyrst Þórbergur Þórðar og nú Raggi frændi Bjarnason! Vá, þetta ætlar engann endi að taka!

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *