Göngutúrinn í morgun (1864)

Í morgun rétt fyrir 10, skutlaði ég Aldísi í vinnuna og keyrði síðan með Vask yfir í Dybbøl til að fara í göngutúr í nýju umhverfi. Þótt Sönderskovskógurinn sé margbreytilegur og alltaf eitthvað nýtt um að vera, hvort sem það er birtan, gróðurinn eða lyktirnar, þá erum við ekki af Amazon ættbálki og þurfum því pláss. Við skildum myndavélina eftir heima því við ætluðum bara að njóta umhverfisins. Stundum finnst manni myndavélarnar taka alveg yfir og fólk sér eiginlega heiminn eða skemmtunina að mestu leyti í gegnum skjá. Að taka mynd tekur tíma. Sérstaklega ef myndin er tekin á myndavélina. Lokið af, stilla, prófa, stilla, prófa, færa sig, prófa, stilla, prófa… ohh allur þessi metnaður. Og grey hundurinn er látinn vera kjurr á plássi við vinstri hæl á meðan, mænandi á mann. Eða grey eiginmaðurinn, látinn bíða og bíða og bíða, eða það sem verra er, látinn sitja fyrir, eða látinn láta hundinn sitja fyrir. Þetta reynir á þolinmæðina. Þegar myndavélin er með í för, er hugurinn oft mikið við mögulegt myndefni, alltaf verið að leita, stoppa, taka mynd, leita, stoppa og taka mynd. Þetta er oft þrælgaman, sérstaklega ef maður er ánægður með útkomuna. En á móti kemur er erfiðara að sleppa sér í dagdraumunum. Ég elska dagdraumana mína. Gæti ekki lifað án þeirra. Ég er ekki þessi gáfaða hugsandi týpa sem velti fyrir mér með vindinn í hárinu hvernig best sé að stöðva óeirðirnar í Úkraínu, eða hvernig ég ætti að byggja næstu ritgerð upp, eða hvar klósettið eigi að vera, út frá burðarþoli, á „nýja“ baðherberginu, eða hvernig best sé að stofna stuðningshóp í Sönderborg fyrir Chelsea Manning (ég veit varla hver þessi Manning er). Nei, mínir dagdraumar nýtast hvorki í nær né fjærsamfélaginu. Algjörlega tilgangslausir en ótrúlega skemmtilegir og nauðsynlegir. Þessvegna er ekki nærri því alltaf pláss fyrir myndavélina né símann. Í morgun varð myndavélin sem sagt eftir heima, vel vitandi að umhverfið væri fallegt og veðrið að brillera.

Sáuði 1864 þættina? Þessa dönsku? Þeir eru byggðir á sannsögulegum atburðum sem gerðust hérna í Sönderborg. Smá upprifjun:

Frá 1. febrúar til 20. júli 1864 var stríð á Dybbölhæðinni í Sönderborg. Austurríki og Prússland börðust á móti Danmörku og unnu. Danmörk missti allt landsvæðið sitt sem nú er í Þýskalandi (Sleswig-Holstein) og alveg upp að Kongeánni sem skilur Suður Jótland frá restinni af Jótlandi. Þeir hafa nú fengið Suður Jótlandið aftur… sem betur fer, því annars væri Danmörk ekki mikið stærri en Hrísey.

Þetta stríð var blóðugt -mikið fleiri Danir féllu en Prússar og Austurríkismenn. Einnig voru Danir verr vopnaðir. 1/3 af húsum Sønderborgar voru eyðilögð. Saga þessa stríðs er vel varðveitt og alltaf er minnt á þetta á ákveðnum dögum og við ákveðin tilefni.

Heimild: Bloggið mitt, í maí 2013. (Þið verðið að lifa með að sú færsla er í ólagi uppsetningarlega séð, fór eitthvað að fikta í henni). 

Á þessari umræddu Dybbölhæð eru Skansarnir eða virkin, alls níu talsins. Þar vorum við Vaskur í tvo tíma í morgun. Fúsi hélt að ég hefði stungið af og var hætt að litast á blikuna.

Ég ætlaði ekki að taka myndir en gerði það samt. En bara á símann. Það tekur styttri tíma, það þarf bara tvær snertingar og þá er myndin komin. Dagdraumarnir urðu því slitróttir og samhengislausir en í staðinn minntist ég stríðsins, örlaga hermannanna og aðstandenda og ímyndaði mér allt blóðið sem hefur flotið þarna þann 18. apríl 1864.

2015-02-08 10.22.27Þetta er Virki nr. 3

2015-02-08 10.37.11

Fyrir íslenskan fjárhund er þetta paradís. Móar og sveitagirðing! Hann hljóp og hljóp og hljóp…2015-02-08 10.23.52

2015-02-08 10.44.53Ef það hefði ekki verið klaki á pollinum, hefði ég fengið mér sundsprett, það var svo mikið vor í lofti og stemmingin eftir því.

2015-02-08 10.28.18

Reyndar fékk Vaskur sér sundsprett. Reyndar ekki viljandi. Hann er með eindæmum forvitinn hundur og þarf að kanna allt. T.d. hvort ísinn heldur á ÖLLU vatni. Hvort sem það eru litlir pollar á götunum eða heil stöðuvötn. Hann tékkaði á þessum og datt að sjálfsögðu niður í gegnum þessa aflöngu vök þar sem ísinn þar var næfur þunnur. Hann komst ekki sjálfur upp úr en var sem betur fer í ólinni sinni og því gat ég dregið hann. En honum varð ekki meint af. Hann hristi sig bara og hljóp sér til hita í móunum.

2015-02-08 10.15.06

2015-02-08 11.13.14

Ég hef aldrei verið nein sumarbústaðamanneskja, þ.e.a.s. ekki langað neitt sérstaklega í sumarbústað, nema einn ákveðinn, án hita og rafmagns, í Eiðaþinghánni. Og kannski þennan, án rafmagns, við sjóinn og allt tilbúið, búið að helluleggja, smíða, gróðursetja og mála. En samt ekki, hvað í ósköpunum ætti ég að gera þarna? Lesa allan daginn? Nei, ég vil frekar þennan í Eiðaþinghánni. Þessi er við virkin, alveg niður við sjó.

2015-02-08 10.51.45

„Vaskur, sit, kjurr, mynd“, hann vílar ekkert fyrir sér að fara út í hólma fyrir eina mynd eða svo.

2015-02-08 11.31.09Annars er þetta mjög fróðlegt og fallegt umhverfi. Steinarnir í fjarska eru minnismerki um fallna hermenn, þeir eiga sinn eigin stein og því er greinilegt að kortlagt hefur verið hvar þeir féllu nákvæmlega.

Þetta er tilvalinn staður til að fara með 1864 aðdáendatúrista, ég skal gæda ókeypis.

Ég hef ekki verið að fela fyrir lesendum mínum að Ísland togar sífellt meira og meira í mig  á margan hátt. Allt íslenskt er skemmtilegra, bragðbetra, fyndnara og fallegra… þjóðarrembingurinn alveg að fara með mig. Úff, veit að mikið af þessu eru hyllingar en samt ekki þetta: 10495695_798199940259605_8563027828198835887_o

Nei þetta er ekki hylling. Þessa mynd tók Fjallgönguklúbburinn Fjallhress í gær. Á meðan ég bara klóraði mér í vinnunni. Ég hefði betur skipulagt mig betur, farið til Íslands, farið með þessum hóp í göngu og síðan beint á þorrablót. Það gerðist allt í gær og ég var fjarverandi. Ég hef farið í þennan fjörð keyrandi, siglandi, gangandi og ríðandi, í allt, eftir sex mismunandi leiðum. Auk þess hef ég flogið yfir hann í pínu lítilli rellu, leitandi að hestum. Mig vantar að fara Kækjuskörðin, Árnastaðaskörðin og Jökul gangandi og Hraundalinn á snjósleða. Ég hefði átt að vera með í gær. Damn.

Annars segir vinkona mín sem er að læra galdralækningar að maður fái í nýrun ef maður vill alltaf vera einhversstaðar annarsstaðar en maður er. Mig langar ekkert í blóðskilun. Dybbölskansarnir eru líka stórfínir og hefði ég ekki eytt tveimur klukkutímum þar ef ég hefði ekki notið þess.

Endum þetta á minni heittelskuðu R.E.M.

 

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *