Lokaorðin í Austurglugganum í síðustu viku fjölluðu um útlendinga.

Oft hræðumst við mannfólkið það ókunnuga. Oft dæmum við fyrirfram, höfnum og viljum ekki breytingar. Við viljum öryggi. En er hræðsla við það ókunnuga og breytingar alltaf af því slæma?

Hér í Sönderborg er stór og söguleg bygging niður við höfn sem byggð var árið 1905 af Þjóðverjum og var upphaflega notuð sem flotastöð. Byggingin gegndi síðan ýmsum hlutverkum þangað til 1961 en þá varð hún að liðsforingjaskóla þar til hann var lagður niður árið 2013. Eftir það stóð byggingin tóm.

IMG_8876

Árið 2014 kom upp sú hugmynd að Sönderborg tæki á móti sýrlensku flóttafólki. Nóg var plássið. Bæjarbúar skiptust í fylkingar, þeir sem voru á móti sögðu að bærinn bæri ekki alla þessa útlendinga, glæpatíðni myndi aukast og að það væri með öllu ótækt að fylla þessa fallegu og sögulegu byggingu af flóttafólki. Þeir sem voru með vildu meina að ef vel væri að staðið myndi þetta ganga vel.

Í haust kom það svo, um það bil sjöhundruð talsins. Það var ljós í hverjum glugga í fallegu sögulegu byggingunni og umhverfið iðaði af lífi. Það sem vakti athygli mína strax var að það gekk oftast tvennt til þrennt saman. Þegar ég spurðist fyrir hversvegna, þá var ástæðan sú að þau væru of hrædd til að ganga um ein. Að auki höfðu þau verið beðin um að takmarka stærð hópsins til að hræða ekki okkur bæjarbúana.

IMG_9371

Þeir sem voru á móti flóttafólkinu varð heitt í hamsi. Meðal annars heyrðist að flóttamennirnir stælu öllu steini léttara úr Kaupfélaginu. En staðreyndin er sú að ef sjöhundruð manns stælu öllu steini léttara, hefði Kaupfélagið tæmst á einum degi, en það gerðist ekki. Hillurnar svignuðu sem aldrei fyrr til að koma á móts við aukna verslun sem fylgdi flóttafólkinu.

Á janúarútsölunni setti Kaupfélagið upp skilti bæði á dönsku og arabísku svo Sýrlendingarnir hefðu möguleika á að vita hvað væri um að vera. Nokkrir bæjarbúar mættu með mótmælaspjöld og mótmæltu arabískunni í Kaupfélaginu og sögðust aldrei ætla að versla í þessari búllu aftur og að Sýrlendingarnir gætu bara lært dönsku. Þá voru Sýrlendingarnir búnir að vera í Danmörku í fjóra mánuði, flestir með áfallastreituröskun eftir að hafa upplifað hörmungar stríðsins, misst ættingja og vini, kannski verið pyntaðir, ofsóttir og hótað. Sömu bæjarbúar og mótmæltu arabískunni í Kaupfélaginu fóru síðan í innkaupaferð yfir  landarmæri Þýskalands, þar sem öll skilti eru á þýsku og DÖNSKU.

Þetta Kaupfélagstal mitt minnir mig óneitanlega á erlendu verkamennina sem við nöturlegar aðstæður, unnu við gerð Kárahnjúkavirkjunar í denn. Þeir fengu að fara í bæjarferð á laugardögum. Þar sem takmarkað var um afþreyingu þessa laugardaga var tilvalið að setjast í kaffihornið í Kaupfélaginu og virða fyrir sér mannlíf Austurlands. Svona svipað eins og við gerum þegar við setjumst á kaffihús erlendis. Nema hvað, vera þeirra í kaffihorninu fór víst eitthvað fyrir brjóstið á viðkvæmustu bæjarbúunum sem hótuðu að hætta að versla í gamla góða KHB. Ekki veit ég hvort staðið var við þær hótanir en vonandi hefur skapast einhver umræða meðal fólks um ólíka kynþætti og menningu.

IMG_2163

Þegar fólk hræðist það óþekkta og setur sig upp á móti breytingum, skapast umræða. Það er einmitt þessi umræða sem þarf til, til að fá okkur mannfólkið til að hugsa og velta hlutunum fyrir okkur. Ef allir væru sammála myndum við líklega lítið læra og lítið þróast. Umræðan gerir okkur stundum forvitin og sumir skipta jafnvel um skoðun með auknum upplýsingum. Það er t.d. ekki víst að frummaðurinn hafi klappað saman lófunum í fyrsta skipti sem það kom neisti þegar hann barði tveimur steinum saman. En neistinn gerði hann forvitinn og hann hélt áfram.

Þegar fólk flýr heimalandið eða erlent verkafólk fer vettlingalaust upp á hálendi Íslands , gerir það sér von um betra líf og bjartari framtíð. Langoftast er þetta gott og saklaust fólk með hjartað á réttum stað en hefur af einhverjum ástæðum þurft að flytja sig um set. Gefum þeim tækifæri og fögnum margbreytileikanum eins og einn lokaorðapenninn komst svo vel að orði fyrir stuttu.

(Myndirnar tók ég sjálf, líka af Kaupfélaginu (síðan hvenær heitir þetta Nettó?))

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *