Ferð til Tønsbjerg með Guðmundi Guðmundssyni

Ég er í Noregi núna (á þessum stað). Á morgun hef ég alltof mikinn frítíma. Fer ekki á næturvakt fyrr en kl. hálf tíu annað kvöld. Ég er búin að athuga veðurspána, hún er ekkert spes. Býður ekki upp á sólbað, né lestur úti á palli. Einungis tólf stiga hita og helmingurinn af því verða ský. Það er annað en var í dag. Ég drakk fjóra kaffibolla í morgunsólinni úti á palli og varð því kaffibrún fyrir klukkan tíu.

Ég hef mikið spáð í hvað ég eigi að gera af mér á morgun. Ég hef ekkert hjól og né heldur hest. Svona samkvæmt kortunum er þessi bær næstum því á eyju og ég er bátlaus. Það eru engin fjöll hérna, bara ásar. Ég fór upp á einn þeirra í haust. Gallinn við suður Noreg er, að hann er alltof gróinn. Það þýðir ekkert að fara upp á ás því það er ekkert að sjá nema trjábörk og lauf.

Það er fín höfn hérna með veitingarstöðum sem minna hvor á annann. Í dag fór ég á nýjan stað því ég er að reyna að prófa þá alla. Ég var búin að fá drykkinn minn og var að bíða eftir matnum þegar ég fór að horfa betur í kringum mig. Áttaði mig þá á að ég hafði verið á honum áður og sat nákvæmlega á sama stað og síðast. Borðaði líka það sama. 2014-09-12-12.10.17Þessa mynd tók ég í fyrra. Eins og þið sjáið, þá eru þeir allir eins. Þótt ég hafi myndina, þá hef ég ekki hugmynd um hvar ég var í dag. Held samt í þessum rauða… eða gula. Ég mæli bara með þeim öllum.

Samkvæmt netinu eru tvær verslunarmiðstöðvar hérna. Þær hef ég aldrei komið inn í. Ég hef heldur aldrei séð þær þrátt fyrir að labba fram hjá þeim á hverjum degi frá höfninni og upp á sjúkrahús. Ég fæ alltaf svo íllt í bakið og axlirnar inn í verslunarmiðstöðvum. Oft leiðir verkurinn alla leið niður í mjaðmir. Og ekki má gleyma höfuðverknum -oboy oboy. Þangað hætti ég mér ekki inn á morgun, ég er ekki einu sinni með „paracet“ með mér, svo að ég sletti aðeins norskunni að gefnu tilefni. Ég yrði að melda mig veika og það þýddi væntanlega brottrekstur frá fyrirtækinu sem ég vinn fyrir. Þeir líða ekkert væl.

Það hvarflaði að mér að auglýsa eftir date-i á facebook til að drepa tímann á morgun. Ég meina, einhver fjarskyldur ættingi í nágrenninu? Fyrst að litla frænka mín vill ekki rúnta frá Stavanger, bara til að borða með mér hádegismat. Hvaða leti er það eiginlega?

Reyndar veit ég um Íslending í næsta nágrenni. Og það er ekkert bara einhver Íslendingur. Nei nei, það er sá sem státar af einu kynþokkafyllsta brosi af öllum núlifandi. Svona loksins þegar hann brosir. Það gerist nú ekki í hverju viðtali. Alls ekki. En þegar það gerist, þá bara gerist eitthvað heima í stofu. Síðast, það var í janúar, þá fór ég aðeins að gráta. Ekki afþví að ég varð leið, heldur afþví að það var svo kynþokkafullt! Þrátt fyrir að viðtalið hafi farið fram á dönsku, og danskan er síður en svo kynþokkafull. Guð minn góður, hvað var ég að skrifa þarna áðan? Ekki misskilja mig, ég er ekki sígrenjandi við ákveðnar aðstæður… bara svo að við höfum það á hreinu.

Hann sat í 17D, ég sat í 19D. Sem er svolítið sniðugt því ég heiti Dagný og mamma á afmæli 17. ágúst og Aldís mín 19. ágúst. Þetta var lítil tveggjahreyfla ílla græn vél og mér leist ekkert á að fljúga með svona ljótri vél. Ég hef flogið með þeim nokkrum sinnum áður og litirnir passa ekki við neitt sem ég er í. Samt var ég mjög litahlutlaus núna, sem var alveg óvart því ég vissi ekki með hvaða flugfélagi ég væri að fara fljúga með fyrr en ég kom á Kastrup. Samt passaði ég hvorki við hana né inn í hana. Þ.e.a.s. vélina.

Ég byrjaði á að stara inn í hvirfilinn á honum og ætlaði að halda því áfram en því miður sofnaði ég í flugtaki og vaknaði seinna við að flugfreyjan hélt krampataki um úlnliðinn á mér: „Du, du sikler… og forresten, du må sette stolryggen op“. Okay, hver myndi ekki slefa við þessar aðstæður. Ég meina, það var var bara ein sætaröð á milli okkar. 17D…19D.

Ég veit að hann er ennþá í Noregi því hann tók töskuna sína af færibandinu sem þýðir að hann hefur tékkað hana inn. Það þýðir einnig að hann verður lengur í Noregi en ég. Ég verð í fimm daga og ég er bara með handfarangur sem er mikið minni og léttari en inntékkuð taska -langoftast. IMG_0993(Af öllu á ég mynd, þarna er handfarangursstaskan mín, á bakvið kynóðu ryksugurnar. Fúsi spurði á sínum tíma, þegar ég tók myndina, hvort ég ætlaði ekki að taka töskuna frá. Nei ég kem alltaf til dyranna eins og ég er klædd og er því ekki að taka til heima hjá mér fyrir myndatökur…)

Þessi með kynþokkafulla brosið hlýtur þá að ætla að vera helmingi lengur en ég í Noregi. Nema hann sé lélegur í að pakka í tösku. Eða með aaalltof mikið snyrtidót með sér… fleiri hundruð lítra. Nei, ég trúi því ekki, hann er ekki svoleiðis maður. Hann er alltaf mjög passlega snyrtur af karlmanni að vera. Hann er engin himnalengja, ég mætti helst ekki vera á hærri en 6cm hælum við hliðina á honum. Hann er svona 176-178cm gæti ég trúað. Ef ég nota gjörgæslusýnina mína og ímyndaði mér að hann þyrfti adrenalín í æð, myndi ég blanda handa 77kg. Ég sé svoldið eftir að hafa ekki rekið mig í hann. Eða svimað fyrir framan hann. Eða bara sagt: „Hæ, ert þú líka Íslendingur?“ (Hefði hann þá gubbað í boga á mig?) Nóg voru samt tækifærin: Kastrup – strætó – flugvélin – litli flugvöllurinn (svipaður og Egilsstaðaflugvöllur). Ég gerði dauðaleit að honum á facebook. Ekkert gekk. Hann er alvöru stjarna. Hann finnst hvergi. Bara einhver út bæ búin að gera fansíðu sem er ekki til neins gagns.

Vill einhver sem er staddur í mið Skandinavíu fara á Tinder fyrir mig og athuga hvort Guðmundur Guðmundsson sé þar og spyrja hann hvort hann vilji fara á miðaldarsafn með mér á morgun? Ég býð (ekki samt segja honum að það sé ókeypis inn). Ekki heldur segja honum að ég sé búin að vera í sömu fötunum í 4 daga því ég tók alltof lítinn farangur með mér.

2015-05-23 00.45.12

Þarna sjáiði hann, í öllu sínu veldi. Veit annars einhver hvað hann er að gera í Noregi? Afhverju þekki ég engan sem þekkir Guðmund? Ég meina, ég þekki fólk sem tengist Sigmundi Davíð og það er nú álíka fjarstæðukennt og að kannast við einhvern sem dvelur á Júpiter yfir sumarmánuðina.

Farin að sofa því að á morgun er stór dagur… Við Guðmundur erum að fara á miðaldarsafn saman.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *