Ég mætti of seint í eigið afmæli!

Í nótt fékk ég martröð. Þá sem hef ég óttast um tíma að ég fengi og um það sem ég óttast í raunveruleikanum. Ég mætti tveimur tímum of seint í mitt eigið afmæli 15. ágúst 2015.

Við Fúsi vorum að gera okkur klár í kytru út í bæ og ég vissi hvað tímanum leið en hugsaði eins og mér er svo tamt í vakandi ástandi: „þetta reddast“. Samt leið mér ílla. Þegar við loksins komum okkur heim og á bakvið hús þar sem afmælið var haldið, var búið að setja upp risastórt röndótt (rautt og hvítt) cirkustjald. Það var fjórum sinnum of stórt. Við gengum inn og við okkur blöstu gestirnir sem biðu þungbúnir í sætunum sínum. Það voru ekki dúkar á borðunum, ekki kveikt á kertum, engin blóm í vösunum, ekki búið að hengja upp seríur né ljósker og þögnin var þrúgandi. Þetta minnti mig á þegar verið er að taka til í svona tjöldum daginn eftir. Tvær vinkonur mínar stóðu upp á sviðinu og gerðu heiðarlega tilraun til að skemmta gestunum með ágætis bröndurum sem enginn hló að. Ég reyndi að brosa en gretti mig meira. Gestirnir horfðu ískaldir á mig. Sérstaklega dönsku nágrannarnir sem alltaf eru tímanlega upp á mínútu og skilja ekkert í afhverju engin annar sé mættur þar sem kl. er 17.00 og það stóð á boðskortinu 17.00!?! Ég setti tónlist á og bar fram soðna færeyska ýsu með smáttskorinni rauðri papriku.

Ég vaknaði semsagt í andlegu áfalli kl. 5.30 á heilaga frídeginum mínum og ég sem ætlaði að sofa til 7.50!

Fúsi! Fúsi! Sigfús! Vaknaðu maður! Við komum of seint í afmælið!!! Alltof seint, kjökraði ég.

Hann benti mér á að það væru 6 vikur í afmælið. Hvurslags dramakast þetta væri eiginlega? Þetta er í rauninni ekkert dramakast þar sem þetta gæti auðveldlega gerst í alvörunni. Kannski ekki að ég mætti tveimur tímum of seint, heldur að ég væri ekki tilbúin með skreytingar, tónlist og mat! Það gerist alltaf þegar ég býð fólki í mat. Er aldrei 100% tilbúin.

Ég bað gamla um skilning og tjáði honum vanlíðan mína. Reyndi að útskýra fyrir honum bjargið sem hafði komið sér fyrir í maganum á mér við sólarupprás og vildi ekki fara sem var bölvans. Því það var níðþungt og risastórt sem gerði það að verkum að það þrýsti bæði á lungu og hjarta.

En hann kallaði þetta bara dramakast. Hann getur trútt um talað! Nú skal ég segja ykkur frá dramakastinu sem hann tók í gær. Þegar hann kom heim úr vinnunni rak mig í rogastans því fötin sem hann hafði farið í í vinnuna og verið í allan daginn pössuðu ekki saman. Ég meina, þetta er einfalt og reglan ofureinföld. Flíkin að ofan verður að passa við buxurnar. Hvernig getur þetta klikkað? Meira að segja reglulega. Hvernig getur hann gleymt þessu?

Seinna, eftir að ég hafði áminnt hann með vísifingri, þurfti ég að henda einhverju í ruslið. Haldið þið að skyrtan hafi þá ekki legið þar. Samanvöðluð með dass af kaffikorgi í hálsmálinu… „Ég fílaði hana hvort eð er aldrei“ sagði hann. Já ok, bara búin að ganga í henni í þrjú ár! Einmitt. Þetta var semsagt helber lýgi. Hann fílaði hana alveg en fór bara í fílu og henti henni.

Svo var hann að saka mig um að segja ekki satt um daginn… Það var nefnilega þannig að ég fór aðeins í bæinn með góðum vinkonum og eftir að hafa hlegið okkur máttlausar að prumpubröndurum í þrjá klukkutíma ákvað ég að fara heim. Ég skreið undir sængina hans Fúsa og sagði: „hæ elskan, ég er komin heim og klukkan er tvö…“. Sigfús: „Klukkan er ekkert tvö, það er bjart úti og hávaði í fuglunum…“ Úps! Hvernig datt mér í hug að reyna þetta.

En aftur að martröðinni. Ég bað Fúsa um að taka sér frí í vinnunni því ég væri helst ekki í standi til að vera ein. Hann spurði hvort ég þyrfti lyf oghvort ég væri nokkuð að verða öryrki vegna þessa slæma draums? Nei Guð minn góður! Ég vil ekki verða öryrki. En að fara á lífeyri væri annað mál.

Ef ég væri á lífeyri núna, væri ég stálhraust en þyrfti ekki vinna og gæti þessvegna bara spókað mig um allan daginn.

Ég myndi alltaf vera fín og með skartgripi. Ég er nefnilega í átaki sem gengur út á það að vera vel til höfð. Og nota fötin mín og skartgripi. Ekki bara einar gallabuxur, þægilegan svartan langermabol og sömu ósýnilegu eyrnalokkana. Nei, þessar flíkur eru komnar á bannlista, ásamt adidasskóm og sólarhringsgömlum maskara. Það er nefnilega þannig að þegar maður vinnur 100% vinnu í búning, er svo lítill tími til að vera fínn. Því maður fer bara í vinnuna í einhverju því það er engin tími til að spá og svo kemur maður heim og er enn bara í þessu einhverju og það er eiginlega ekki til neins að fara í neitt annað.

IMG_9982

Ég á marga kassa (sjö kassa) af allskonar skartgripum sem ég hef alltaf eiginlega bara litið á sem hluta af propsi. En afhverju? Það er fullt af töff stöffi þarna og nú ætla ég að nota það! Bæði bleikar plastperlur og rándýrt flókajárn. Enda allt komið í sýstem og orðið aðgengilegt í þægilegri hæð í skápnum.

Ég átti nefnilega samtal við skóbúðareiganda niður í göngugötu um daginn sem sagði að það væri algjörlega fyrir neðan allar hellur hvernig konur stikuðu framhjá búðinni hans í dúnúlpu eða þaðan af verra, í flíspeysu og í strigaskóm eða gúmmískóm. Hvar er reisnin? spurði hann. Hann sagði að danskar konur ættu upp til hópa að fara á námskeið í klæðaburði. Að svona væri þetta ekki í Reykjavík né á Ítalíu. Þar væri stíll yfir konunum. Ég játti öllu sem hann sagði, þarna sem ég stóð í glænýjum svörtum adidasskóm (sem ég reyndi að fara leynt með) en að öðru leyti ágætlega til fara, í blúndu og leðri. Já, þarna fengu dönsku kynsystur mínar aldeilis útreið af landa sínum. Og við íslensku settar á stall með þeim ítölsku. Enda þekkjast ekki flíspeysur í göngugötum hvorugs landsins. Sem betur fer.

Enn og aftur að martröðinni þar sem ég mætti of seint í eigið afmæli. Ég skil ekki hversvegna mig dreymdi svona ílla. Ég hef aldrei á ævinni verið svona skipulögð. Þessvegna átti ég ekki þennan draum skilið. Ég meina, kommon, ég sendi óformlegt boð út 18. febrúar! Hálfu ári fyrir viðburð! En þessi hræðilegi draumur ýtti mér enn meira af stað. Í dag fór restin af boðskortunum í póst. Þau voru svo mörg að ég varð að deila verkinu yfir tvo heila daga.

IMG_9991Í dag hélt ég áfram við lyfjaglasahreinsun… nú á ég fjörtíu og fjögur tilbúin glös. Rúmlega hálfnuð.

IMG_0137 IMG_0135IMG_0147

Í kvöld spilar Suzanne Vega í bakgarðinum og vindáttin ætlar að vera okkur í hag. Þessvegna reikna ég með að sleppa fréttunum á RÚV og liggja í staðinn í hengirólunni, anda að mér ilminum af Jasmínu nágrannanna sem gægist yfir limgerðið okkar og hlusta á Vega.

IMG_0129

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *