Ég litaði!

Það er mér mikið í mun að vera með á nótunum og taka þátt í þeim tískubólum sem eru í gangi, auk þess að vera öðrum innblástur og hvatning í hversdagslegum grámanum þegar allar vonir eru úti. Samanber DIY (Geretta sjálf) verkefnið mitt, þið munið alveg örugglega eftir hversu rækilega ég sló í gegn með því. Það sást ekki nokkur maður fram að páskum án peysuhálsmáls á hausnum. Þetta er afskaplega góð tilfinning get ég sagt ykkur. IMG_0420

Eins þegar aðrir veita mér innblástur. T.d. um daginn þegar ég uppgötvaði litabókabóluna. Hverjum hefði dottið í hug að rígfullorðnar húsmæður á mínum aldri færu að lita í litabækur af fúsum og frjálsum vilja? Ekki mér. En þarna var aldeilis blásið inn í mig. Ég fékk hugmynd.

Líklegast er þessi hugmynd blanda af tveimur bólum… DIY- og litabókarbólunni.  Já segjum það. Tvær bólur sameinaðar.

Þannig var mál með vexti að það var alltaf verið að efast um að hleðslutækið mitt væri hleðslutækið mitt.

Bæði vinir stelpnanna og vinnufélagarnir.

„Hey, er þetta mitt?“

„Nei þetta er mitt“

„ertu viss? mitt er nefnilega alveg eins…“

„þetta er samt mitt“

Alveg dæmigerður þrættingur á vinnustað þar sem 95% starfsmannanna eru með sömu símategund.

En koma ráð -ég hugsaði: „DIY og litir“

Og merkti hleðslutækið, eða tækin, því ég á tvö. Ég valdi að sjálfsögðu hinn fagra íslenska fána og taldi mig örugga. Þangað til í dag. Við vorum að ráða íslenskan hjúkrunarfræðing sem getur mögulega ógnað öryggi hleðslutækisins míns. Ég er ekki lengur ein. IMG_0164 IMG_0166 Til þess að geta þetta þarf eftirfarandi:

  • Hvítt hleðslutæki
  • Rauðan túss
  • Bláan túss
  • Það þarf ekki hvítan túss þar sem bakgrunnurinn á hvíta hleðslutækinu er hvítur.

Það er reyndar ekki sama hvaða túss er notaður. Hann þarf að festast við þetta efni sem hleðslutæki eru gerð úr. Best að spyrja bara í búð hvað hentar best. Mínir eru svartir með rauðu eða bláu á endanum, eftir því hvaða lit þeir lita. IMG_0169Best er að gera rauðan kross fyrst, skilja síðan eftir passlega stórt bil og lita svo með bláu. Það er óþarfi að notast við reglustiku nema þú sért með alvarleg fráhvarfseinkenni eftir einhvern djöfulinn. IMG_0168

Þetta hleðslutæki er drasl, það er eitthvað sambandsleysi í því, en á móti kemur, er lítið rautt ljós sem lýsir þegar það er sett í samband. Og ef maður litar hjarta utan um, þá verður það einstaklega fallegt. Úff, fagurkerinn ég!IMG_0172

Já svei mér þá, ég ætti að gera meira af því að lita.

Maður getur líka litað utan dyra.

Því sumarið er loksins skollið á í öllu sínu veldi eftir alllanga bið. Hef ekki í mín fjórtán ár í Danmörku, upplifað svona kalt vor og það fram eftir sumri. En nú er öldin önnur.

Ég lagðist í hengiróluna þegar ég kom heim í dag og leið eins og í gamla daga þegar maður fór í ljós í átján mínútur, já eða jafnvel þrjátíu og sex! Ég ætlaði algjerlega að kafna. Einmitt eins og á tuttugasta áratugnum þegar ég bjó á Héraðinu og stundaði ljósabekkina, þjakin af þjóðernisafneitun. Vildi vera brún eins og Spánverji. Já svona var þetta og þið munið mörg líklega vel eftir þessu; þegar maður bókstaflega flaut í eigin svita, einbeitandi sér að því að missa ekki meðvitund og blastandi Tínu Turner.

Jú jú ég hélt þessum ósóma áfram hérna í Sönderborg en þurfti ekki að bjarga sjálfri mér frá drukknun úr svitapollinum, því ljósatíminn var styttur niður í sjö mínútur. Ef maður borgaði krónu meira og fór í átta mínútur, skaðbrenndist heila boddýið.

Síðan fór ljósabekkjabrúnkutískan þverrandi og ég var steinhætt árið 2007. Enda eru Íslendingar ekki brún þjóð. Svona upp til hópa.

Í dag hrönnuðust minningarnar um tvöföldu tímana upp. Þrjátíu og sex mínútur. Jesús minn.

Það hvarflaði að mér að taka mynd af sumrinu hjá mér fyrir ykkur. T.d. af drykknum sem ég var að drekka, eða berum fótleggjunum alveg fram að tám, eða af naflanum með svitapollinum í, já eða bara af sólinni. En nei, hafið þið prófað að athafna ykkur og taka mynd inn í ljósabekk? Það er ekki hægt. Maður á nóg með öndunina!

Velkomið sumar!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *