Austurglugginn -lokaorð nr. 8

Þann 10. júlí var ég með lokaorð í Austurglugganum.

Sem fyrrverandi félagsmaður Freyfaxa var ég óvenju ánægð með blaðið. Ég var reyndar mjög virkur félagsmaður á tímabili. T.d. seldi ég hamborgara úr örbylgjuofni á mörgum mótum. Borðaði reyndar fleiri en ég seldi. Ég aðstoðaði Gunnar Arnarson þegar hann kom og þjálfaði fyrir mót. Ég mokaði fyror hann og kemmdi ásamt Báru Garðars. Lánaði Trausta Þór Magnússyni herbergið mitt einu sinni. Ég mætti á böll. Einnig vann ég til verðlauna og var nýtt sem knapi á kappreiðahesta því ég var léttust af öllum félagsmönnum og toldi þokkalega á baki. Eitt vorið var ég látin mála húsið á Iðavöllum dökkbrúnt. Einu sinni datt ég af baki fyrir framan fullt af fólki og mölbraut á mér handlegginn. Það var líklega mest spennandi atriðið þann daginn.

Í mínum Austurglugga var Fjórðungsmótinu gerð skil. Ásdís frænka er líka þarna á tveimur heilum blaðsíðum og síðan er sagt frá Óbyggðarsetrinu. Já þessi Austurgluggi var bara með mesta móti.

En hérna koma lokaorðin.2015-07-24 21.08.51

IKEA

Það er ekkert Ikea á Austurlandinu. Og svona ykkur að segja, ættuð þið að prísa ykkur sæl því það er ekkert grín að þurfa að fara með makanum í Ikea. Sérstaklega þegar báðir aðilar eru fæddir og aldir upp á Austurlandinu. Þegar við Fúsi Fellamaður vorum að alast upp var Kaupfélag Héraðsbúa með öllum sínum deildum sú allra stærsta verslun sem við höfðum nokkurn tíma komið í. Ég átti það til að missa sjónar af foreldrum mínum í Járnvörudeildinni, þar sem þeir grúfðu sig yfir hóffjaðraúrvalið og vildu aðeins það besta til að það héldist nú undir hrossunum á leið yfir Tó til Loðmundarfjarðar. Í Kornskálanum týndist ég viljandi en í Sláturhúsinu þorði ég ekki fyrir mitt litla líf að vera með vesen. KHB í æsku okkar Fúsa var mjög stórt, en það var ekkert á við stórverslanir eins og Ikea í dag. Bara ljósadeildin er eins og Kornskálinn var. Og vegna þess að við ólumst ekki upp við neitt stærra verður það þess valdandi að okkur hreinlega verkjar  þegar við þurfum að fara inn í verslun sem storkar KHB í stærð.

Við Fúsi þurftum að fara í Ikea í Kiel í Þýskalandi á dögunum.  Kvöldið áður var ferðin rædd og skipulögð. Fúsi, sem ræður ekki við tilfinningarnar þegar kemur að verslunarferðum, varð strax öfugsnúinn og vildi meina að andsetinn sálfræðingur hefði verið fenginn til að innrétta Ikea, vegna þess að þegar maður fer inn, verður maður að fara í gegnum alla verslunina til að komast út. Og að það sé ekkert sem heitir bein leið. Ég aftur á móti notast við skynsemina og sagði honum að róa sig, að þetta væri bara eins og losa stíflu undir vaski, það þyrfti að gera þetta, óþarfi að fá kast vegna þessa. Ég fékk strax á tilfinninguna að þetta yrði strembin ferð.

Við lögðum af stað með þrjátíukindakerru aftan í bílnum í þrjátíu stiga hita. Þegar við vorum komin, fengum við okkur kaffi med det samme og þarna sem við sátum hvort með sinn kaffibollann sagði Fúsi: „Mér líður eins og ég sé að fara að afplána tíu ára fangelsisdóm“. Ég spurði hvort hann byggist við að við yrðum tíu ár í Ikea? Nei, kannski ekki en tíminn í Ikea er afstæður sjáðu til, svaraði hann.

Hitinn inni í Ikea var álíka og utan dyra og það leið ekki á löngu þar til Fúsi minn varð afar óþreyjufullur ef allt gekk ekki eins og smurt. Þess vegna ákvað hann að biðja um aðstoð á næsta upplýsingaborði: „Excuse me, I´m lost in Ikea…!“ Starfsmaðurinn greip hlæjandi fram í fyrir honum: „Are you lost in Ikea?“ „Yes, I can´t find the light…“ Þarna var ég ekki viss um hvort Fúsi væri bara að leita að ljósadeildinni eða hvort hann væri algjörlega búinn að gefast upp og þráði að sjá ljósið.

Eftir fimm klukkustunda viðveru í Ikea, fullfermdum við þrjátíukindakerruna og ókum heim á leið. Fúsi Fellamaður sat í farþegasætinu og virti íbygginn fyrir sér sólarlagið, muldraði síðan út um hliðarrúðuna: „Mikið hlýtur maður að elska eina manneskju heitt, fyrst maður getur varið heilum degi með henni í Ikea“. Þar hitti hann naglann á höfuðið því ég var akkúrat að hugsa það sama.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *