Grein í Kvennablaðinu um áfengisneyslu unglinga

Þessa grein birti Kvennablaðið í apríl 2015 og hefur síðan deilt henni margsinnis eftir það og alltaf fær hún mikla athygli og skapar umræðu.

fredagsbar_p__det_f_380030a

(Ljósmynd úr Politiken)

Við búum í Danmörku og dætur mínar tvær eru aldar þar upp. Í dag eru þær 17 og 19 ára. Við fylgjumst að sjálfsögðu með því sem er að gerast heima og það hefur ekki farið fram hjá okkur umræðan um hvort leyfa eigi áfengi í matvöruverslunum eða ekki. Oftar en ekki í sambandi við þessa umræðu hef ég lesið eða heyrt að „Íslendingar séu svo vanþróaðir áfengismenningarlega séð“ miðað við nágrannaþjóðirnar.

En hvað er að vera vanþróaðir í áfengismenningu? Er það að drekka ekki bjór á foreldravinnudegi hjá leikskólanum? Að drekka ekki bjór á starfsmannafundum? Að drekka ekki bjór á meðan skipt er um þak á húsi? Eða drekka ekki rauðvínsglas á hverju einasta kvöldi og snaps með morgunmatnum um helgar? Að fara í meðferð, koma úr meðferð og drekka bjór og léttvín? Eða er aðeins um vandamál að ræða ef áfengið er sterkara en 40%?

Núna hugsa kannski margir að ég sé að ýkja. Nei, ekki mikið. Ég bý munið þið í Danmörku. Þegar við fluttum út árið 2001, byrjuðu dætur okkar í leikskóla og skóla. Í leikskólanum voru vinnudagar á vorin þar sem meðal annars var skipt um sand í sandkassanum, leiktækin hert og máluð og síðan var grillað saman og drukkið gos og bjór. Allt í lagi með það, enginn varð fullur. Síðan fórum við á sumarhátíðir í skóla eldri dótturinnar. Þar var líka boðið upp á bjór en enginn varð fullur. Okkur fannst þetta svolítið skrítið, þáðum ekki sjálf bjórinn, en samþykktum þetta því þetta var öðruvísi menning og við vildum aðlagast.

Fyrstu árin okkar var líka reykt alls staðar. Dætur okkar stunduðu sund og handbolta og í matsal íþróttahallanna, þar sem hægt var að kaupa franskar, voru öskubakkar á borðunum. Þegar ég fór að vinna á sjúkrahúsinu var reykt út um gluggann í eldhúsinu á deildinni og í ræstikompunni. Á göngum framhaldsskólanna var reykt, svo og á öllum klósettum. Þetta hefur snarbreyst, sem betur fer. Nú eru þessi tilgreindu svæði löngu orðin reyklaus og ekki einu sinni reykherbergi fyrir sjúklingana á sjúkrahúsinu, þeir verða að fara út og standa í afmörkuðum básum, fyrir innan skærgulu línuna. Starfsfólkið má ekki reykja innan sjúkrahússlóðarinnar og ekki er ætlast til að við yfirgefum lóðina í vinnutíma en það virðist ekki vera vandamál þar sem aðeins þrjár af fimmtíu hjúkrunarfræðingum á minni deild reykja. Þessar þrjár tyggja bara tyggjóið sitt og allir eru sáttir.

En aftur að áfenginu. Dönsk áfengismenning hefur líka breyst mikið.

Áður fyrr þótti sjálfsagt að fermingarbarnið drykki á við fullorðinn í veislunni sinni til að komast í fullorðinna manna tölu og oftar en ekki voru foreldrar búnir að venja þau við svo að þau væru tilbúin í fermingarfylleríið. Þetta þekkist ennþá en er orðið mjög sjaldgjæft.

Áður fyrr þótti sjálfsagt að iðnaðarmenn stútuðu einum ef ekki tveimur bjórkössum í vinnutímanum og keyrðu svo heim. Þetta hefur breyst en er þó ekki horfið. Eins og einn sagði mér: „Nei ég er alveg hættur að drekka í vinnunni, drekk bara tvær hálfslítra bjórdósir í bílnum á leiðinni heim (90km).“

Á áttunda og níunda áratugnum máttu strætóbílstjórar fá sér bjór í hádeginu. Einhverjir fóru víst yfir strikið og því varð að búa til áfengispólitík á vinnustöðunum. Í dag mega strætóbílstjórar ekki drekka í vinnutímanum. Ég er afar fegin.

Árið 2010 fór hluti starfsmanna Carlsberg-bjórverksmiðjunnar í verkfall því þeir máttu aðeins drekka einn bjór í vinnutímanum í stað þriggja eins og áður hafði mátt. Þetta var fyrir fimm árum.

Það hefur margt breyst til batnaðar varðandi áfengisnotkun í Danaveldi þó enn megi gera betur.

Þar vil ég koma inn á áfengisnotkun ungmenna. Dönsk heilbrigðisyfirvöld mæla ekki með að börn yngri en 16 ára neyti áfengis. Takið eftir; „mæla ekki með“ og „16 ára“. Ungmennum milli 16 og 18 ára er ráðlagt að drekka sem minnst og hætta við fimmta skammtinn. Í Danmörku er miðað við að einn skammtur sé einn bjór eða eitt léttvínsglas eða einn einfaldur. Þegar börnin eru að klára síðasta bekkinn í grunnskólanum er haldið partí og þá þykir sjálfsagt að versla upp undir hundrað lítra af áfengi á landamærunum og hrynja í það. Foreldrarnir horfa á og hjálpa til ef einhver þarf að gubba. Hjá flestum er þetta ekki fyrsta fylleríið því samkvæmt evrópskri rannsókn (ESPAD) á vímuefnaneyslu ungmenna kemur í ljós að næstum 50% af þrettán ára börnum hafa prófað að drekka.

Yngri dóttir mín hefur getað farið út í búð í hálft ár og keypt t.d. kassa af bjór, léttvín að vild, já eða kassa af hinum ýmsu Ciderum (gelgjubjór) á 100 kall danskar. Hún er 17 ára eins og áður kom fram. Eldri dóttir mín sem er orðin 19 hefur líka getað allt þetta, auk þess í hálft ár getað farið í búðina og keypt rússneskan vodka á 58 DKK eða þrjár flöskur af þýskum Norðfjarðarvodka á tilboði á 140 DKK. Sem sagt 2,1 lítra af vodka fyrir skít og kanil.

Önnur dóttir mín er búin með stúdentinn, hin er í menntaskóla þannig að það umhverfi þekkjum við líka afar vel. Oft eru haldin menntaskólaböll þar sem „aðeins“ er selt það milda; bjór og cider í ótakmörkuðu magni. Því næst mega þau fara í bæinn, fá sérstök armbönd og komast því inn á skemmtistaðina en mega ekki versla af barnum. Það breytir því ekki að aðgengi að áfengi er á engan hátt takmarkað.

Þetta þykir afar sjálfsagt mál í mínu umhverfi. Þegar ég impra á þessu í vinnunni minni og gagnrýni þessa áfengisnotkun unga fólksins, fæ ég nánast alltaf mótspurninguna: „Hvernig varst þú þegar þú varst ung? „Varst þú eitthvað skárri?“

Eða unga fólkið er varið með því að segja: „þau eru bara ung og verða að fá að njóta lífsins, verða að fá að skemmta sér“.

Er sem sagt ekki hægt að njóta lífsins nema vera á perunni niður í miðbæ, 16, 17 ára? Helgi eftir helgi, því þau eru bara að skemmta sér? Því þetta tilheyrir menntaskólaárunum?

Í Danmörku er aldurstakmarkið til að taka þátt í raunveruleikaþáttum sem snúast um að vera ofurölvi og stunda kynlíf fyrir opnum skjá, 18 ár. Spáum aðeins í það.

Hvernig eru svo fyrirmyndirnar?

Það er mjög algengt í Danmörku að drukkið sé áfengi við nánast ÖLL tilefni, skírnir, fermingar, á jólunum, þegar eitthvað skemmtilegt er gert, þegar ekkert er gert, á heitum dögum sem og köldum. Þetta þykir sjálfsagt mál og það þykir svolítið fínt að „nyde en god flaske vin“. Eiginmaður minn drekkur ekki. Það finnst mörgum afar einkennilegt; ekki einu sinni bjór? Eða eitt og eitt rauðvínsglas annað slagið? AFHVERJU ekki? Það getur nú varla sakað að fá sér smá?

Erum við enn að tala um að danska vínmenningin sé langtum þróaðri og fínni en okkar? Dönsk heilbrigðisyfirvöld mæla með að konur drekki ekki meira en 7 skammta á viku, karlmenn 14. Eitt glas á dag fyrir okkur konurnar? Tvö fyrir karlana? Finnst engum það of mikið? Það eru ekki nema örfá ár síðan þetta var helmingað niður. Áður var ráðleggingin 14/21. Í dag er fólki ráðlagt að leita til heimilislæknisins ef það yfirstígur 14/21 regluna. Þótt fyrr hefði verið að mínu mati. En það er kannski af því að ég er svoddan hænuhaus. Verð rallhálf af tveimur bjórum. Er þetta þessi fína vínmenning sem margir horfa á með glampa í augum?

Ekki geri ég það. Mér finnst Ísland hafa náð langt með öflugu forvarnarstarfi. Mikið lengra en margar nágrannaþjóðir sínar samkvæmt áðurnefndri rannsókn sem sýnir árið 2011 að áfengisneysla íslenskra ungmenna heldur áfram að minnka frá árinu 2007 en neysla danskra stendur í stað. Einnig sýnir rannsóknin að það er fjórfaldur munur á milli landanna á því hversu ölvað unga fólkið verður. Þar er Ísland neðst á skalanum og Danmörk efst. Í rannsókninni er spurt hvort ástæðan geti verið auðvelt aðgengi að áfengi í Danmörku.

Erum við alveg viss um að áfengið eigi að fara í matvöruverslanirnar? Hugsum okkur allavega vel um.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.