Færslan sem fjallar ekki um neitt nema eitt fjall og nokkur blóm.

Ég vaknaði í dag við að ég kallaði pabbi, pabbi, paaabbiiii.

Við vorum á leið upp á Herfellið í Loðmundarfirði, pabbi heitinn, mamma, Vaskur og ég. Mamma var ríðandi og komin langt á undan og upp fyrir kletta. Pabbi var í skriðunum með Vask og ég langt fyrir neðan. Ég rétt sá grilla í þá og ég hafði gleymt myndavélinni í bílnum. Þess vegna kallaði ég í pabba, til að láta vita að ég ætlaði rétt að skokka eftir myndavélinni í bílinn sem hafði verið lagt við fjallsræturnar. Ég var það hátt uppi í hlíðinni að bíllinn sást ekki með berum augum, þótt hann væri rauður. En ég varð að taka mynd af Herfellinu sem ég hef ekki séð í næstum 20 ár.

Ég er ekki vön að sofa á daginn en í dag hafði ég lennt í því sama og í síðustu færslu. Ég hellti mér út í heimilisstörfin. Ég fór á fætur fyrir átta á langþráðum frídegi, tja langþráðum er kannski ýkt en þannig var samt tilfinningin eftir þrjá vinnudaga á gjörinu. Nýju nemarnir mættu á svæðið og deildin var full. Ég var því bara lurkum lamin eftir hádegið.

Ég var búin að ákveða að nýta daginn skynsamlega, gera eitthvað skemmtilegt og gefandi. Ég veit því ekki hvað kom yfir mig og hversvegna ég datt í heimilisstörfin. Alla mína tíð hef ég verið góð í að forgangsraða og sett allt lifandi í fyrsta sæti; stelpurnar, hundinn, karlinn, sjálfa mig, já og vinina.

Nema í dag og í síðustu viku, það er þessi vorfílingur, ég gekk meira að segja svo langt að taka utan af sófanum í morgun og þvo!

Ég hef alltaf haldið því fram að það er viss geðveila að haga sér svona. Og bent fólki á að láta athuga sig. Nú er komið að mér og nú held ég að réttast væri að panta tíma hjá lækninum og í það minnsta, láta hann mæla blóðþrýstinginn. Áður en ég fer yfir um í heimilisstörfum.

„Lurkum lamin“ þarna að ofan var einnig ýkt. Ég settist í sundurtætta sófann og ætlaði að blogga, eftir hálfa mínútu sat ég ekki heldur lá með tölvuna á nýtilkominni vömbinni. Þá fann ég að ég var mjög svöng og þar af leiðandi pirruð og í engu ástandi til að blogga. Í staðinn fyrir að standa upp og fá mér að borða, kveikti ég á Netflix og setti Breaking Bad á. Það er farið að síga á seinni hlutann á þeirri seríu og hefur áhorfið alveg skotgengið, en ég byrjaði á henni í oktober. Ég horfði í u.þ.b. 7 mínútur og var þá steinsofnuð og vaknaði síðan í Herfellinu.

Þessi færsla er eiginlega ekki um neitt enda hefur ekkert markvisst gerst síðan í síðustu færslu. Ég hef gert mitt besta til að gleyma helginni, ekki af því að hún var leiðinleg heldur skandalaðist ég allverulega og borðaði yfir mig þrjá daga í röð og ég roðna þar af leiðandi við tilhugsunina. Sérstaklega í ljósi þess að við Fúsi vorum byrjuð í átaki.

En þótt ekkert markvisst hafi gerst er það ekki þar með sagt að ekkert hafi verið gert. Það er ekki eins og við höngum bara í sófanum.

Ég t.d. byrjaði að geta keypt döðlur og borða, án þess að fela þær maukaðar í köku.

Við höfum líka farið í margar gönguferðir en þeim svipar til hver annarrar.

IMG_4060

Ég er á þögla tímabilinu núna. Stundum er það bara þannig, ég nenni ekki að tala og þarf ekki að hugsa. T.d. er bara nóg að hugsa: hús, tré, hús, bíll, ljós, sjór, bátur, hús.

Fúsi aftur á móti er ekki á þögla tímabilinu núna. Hann þarf að ræða eftirfarandi í smáatriðinum, málum og útreikningum:

  • þak
  • tröppur að framan
  • tröppur að aftan
  • hellur og þar með halli
  • Velfac
  • Autocad
  • 3D
  • hurð
  • gluggi
  • gardínur

Og á hæsta styrk. Það amar ekkert að minni heyrn.

Hann vill líka að ég skipuleggi sjálfa mig í tilvonandi sameiginlegu ferðalagi. Ég get ekki skipulagt mig viku fram í tímann. Ég er manneskjuleg.

IMG_4079Þannig að okkar göngutúrar hljóða svona:

Hann: þak

Ég: mmm

Hann: Velfac hurð

Ég: mmm

Hann: hellur…

Ég: mmm

Hann þolir ekki þegar ég segi „mmm“.

En stundum get ég ekkert annað sagt. Þetta er það eina sem kemur þó svo að ég reyni annað.

Vaski er alveg nákvæmlega sama um hvað er rætt, bara svo framarlega að það sé ekki rifist.

IMG_4109

Við vinkonurnar ræddum um daginn hvað það er sem maður leggur út á facebook og þess háttar miðla og hvort öllum líki allt sem allir leggja út. Oft heyrir maður andvörp yfir barnamyndum, gæludýramyndum og pólitískum áróðri. Ég get ekki ímyndað mér að neinn hafi neitt á móti hundamyndum og alls ekki af mínum hundi. Hvorki hann né ég getum nokkuð að því gert að hann er sá snoppufríðasti í manna minnum. Á myndinni að ofan er hann að virða fyrir sér blóm sem ég var að taka mynd af. Hann var alls ekki að fara í kast vegna hunds hinum meginn við götuna.

IMG_4102

Var ég búin að nefna það að vorið er að koma? Þó svo að hitastigið sé við frostmark ennþá og ég drukkna næstum því í ískaldri rigningunni á leið í vinnuna. IMG_4101

Á Gjörinu er það ekki óalgengt að sjúklingar verði óáttaðir. Eftir að hafa googlað aðeins er ég nokkuð viss um að á íslensku heiti þetta fyrirbæri gjörgæslu óráð. Til að koma í veg fyrir það, upplýsum við sjúklingana reglulega um hver þeir eru, hvar þeir eru og hvaða dagur er í dag. Ásamt fleiri upplýsingum. Ég hef það fyrir vana að upplýsa um árstíð og veður líka. Undanfarið hef ég komið því varlega að, að það sé byrjað að vora.

IMG_4112

Vinnufélagarnir hafa ekki allir verið sammála. Finnst ég taka heldur djúpt í árinni. En ég stend fast á mínu. Vortilfinninguna skal engin taka frá mér.

IMG_4106

Sjáið bara garðinn minn.

IMG_4115

Og hundinn.

Ef þetta er ekki vor, þá veit ég ekki hvað vor er.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *