Skólagangan þessa stundina.

Það er svo mikið karma á milli okkar Boga að ég næ stundum ekki upp í nefið á mér. T.d. í gær sagði Fúsi: „Vigdís er ekki ánægð“. Og ég svaraði: „hver? Vigdís Finnboga?“

Korteri seinna er Bogi á skjánum og mismælir sig… segir Vigdís Finnboga í staðinn fyrir Vigdís Hauks. Ég stundi: „vá…“.

Þetta er alltaf að koma fyrir; ég hugsa eða segi eitthvað, Bogi segir það stuttu seinna í fréttunum.

Annars er ég enn einu sinni í ritgerðarvinnu, þetta ætlar að mjatlast þetta nám mitt*. Í þetta skipti finnst mér gaman. Og gott að þurfa ekki að fara í vinnuna. Held að það sé hollt að ýta henni til hliðar þegar tækifæri gefst og finna ekki einu sinni fyrir söknuði.

Ég hreinskilningslega sagt, elska að vera heima þessa dagana og skrifa. Áður hafði ég verið í skólanum í 4 vikur. Á margan hátt elskaði ég það líka. Sérstaklega að geta verið með naglalakk og ólík sólgleraugu dag frá degi. Aldrei í sömu fötunum og notaði nær alla skóna mína. Sparaði hvorki ilmvatnið né highlighter-inn. (Highlighter er ljós og glansandi litur sem maður ber á svæði á andlitinu sem maður vill draga fram, t.d. kinnbeinin. Þetta er í tísku).

Ég mætti degi of seint í skólann þegar hann byrjaði því ég var á Íslandi og þennan fyrsta dag minn tókst mér að brillera þegar aðeins korter var búið af skóladeginum. Það er þannig að þegar svona kennslur eru að byrja, þá kynna allir sig og þau höfðu gert það daginn áður. Kennarinn, sem ég þekki frá fyrri tíð, byrjaði daginn og sagði síðan stríðnislega eitthvað á þessa leið um mig: „… og þar sem þetta er hennar fjórða lota og orðin þaulvön og á því eftir að geta skrifað ritgerðina með annarri hendi…“ bjó þar af leiðandi til einhverja glansmynd af mér á svipstundu. Ég var reyndar sú í hópnum sem komin var lengst (engin ákveðin röð á lotunum) og því mikið rétt, vönust skólagöngunni. Kennarinn gaf síðan boltann yfir til mín, ég átti að kynna mig. Ég var nú ekki í vandræðum með það og romsaði standard tuggu upp úr mér á met tíma. Þá rukkar kennarinn mig um „case-ið“ (atvikalýsing) sem við áttum að vera tilbúin með og biður mig um að segja stuttlega frá því. Ég hafði skrifað það töluvert áður en ég fór til Íslands, stungið því í veskið mitt og ætlað að kíkja á það við tækifæri og lagfæra. Og kíkti ég á það í Íslandsferðinni og lagfærði? Nei.

Ég byrjaði að reyna rifja það upp, gafst upp, teygði mig í veskið, rótaði í því og fann blaðið. Þarna voru allir samnemendur mínir að horfa á mig og kennarinn líka. Það ríkti dauðaþögn. Ég var algjörlega í sviðsljósinu. Var ég annars búin að segja ykkur að kennarinn er eldri kona, afar settleg, gáfuð og yfirveguð. Allt í kringum hana er slétt og fellt, já og hundrað prósent. Ég sem sagt dreg upp blaðið sem hafði velkst um í veskinu í, í  að minnsta kosti 3 vikur. Það var samanbrotið og þegar ég ætla að fletta því í sundur, byrjar það að rifna. Það var svo samankrumpað að það var sorglegt. IMG_5263

En ég næ því í sundur, slétta úr því á borðinu og segi: „látum okkur nú sjá…“ og rifja upp um hvað þetta fjallaði. Leit síðan upp á kennarann minn og sá að hún starði opinmynt á blaðið. Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir að svona mætir maður ekki fyrsta daginn í skólann. Og allra síst þegar maður er orðinn þó nokkuð skólaður og fertugur og á að þekkja leikreglurnar fram í fingurgóma.

Það eina sem ég gat gert í stöðunni var að halla mér aftur í stólnum og láta eins og ekkert væri. Í frímínútunum komu samnemendur mínir til mín og spurðu mig hvernig ég hefði þorað þessu? Hvort ég væri alveg ga ga?

Tveimur vikum seinna skrópaði ég heilan dag hjá sama kennara án þess að gefa neina skýringu. Það þykir ókurteisi nú þegar fólk er orðið fullorðið. Enda spurði hún bekkinn þrisvar hvar ég væri. Varðandi ritgerðina þá er hún leiðbeinandinn minn. Hvort sem mér líkar  betur eða verr, eða, hvort sem henni líkar betur eða verr.

Já, eins og fyrr sagði, þá elska ég að vera heima og skrifa. Ég er í rosalegu góðu skóla -og ritgerðarskapi. Sem betur fer því árið 2015 var ég í mjög vondu skólaskapi. Kannski vegna þess að á vorönninni var ég látin vera með tveimur öðrum og þurftum við að gera verkefni og verja það saman munnlega. Ég vil ekki vinna með öðrum.

IMG_5216

Ég vil fá að dreifa bókunum út um allt á meðan ég er að grúska í vandamálinu sem ég vinn með. Ég vil geta keyrt á bókasafnið í næsta bæ með sólgleraugu og varalit og látið hana Þórhildi Bjöllu bókasafnsfræðing stjana í kringum mig og engan annann. Gengið út frá henni með fullan poka af bókum. Ég vill fá að vera ein með minni undarlegu ritgerðarhegðun allan daginn. Fúsi segir að ég sé með stórskrítna vinnuhegðun, því að ég geti ekki verið kjurr í meira en 90 sek. í einu. Og skilur ekki hvernig ég fæ þetta til að ganga upp. Og hvernig mér tekst að skrifa of mikið, en ég er nú þegar búin að skrifa yfir mig, eins og mér er einni lagið. Það eru jú takmörk og í þetta sinn max. 28.700 slög með millibili. Ef maður skilar inn 28.701 slagi þá fellur maður.

Vinkona mín, sem er í sama bekk, hringdi í vikunni. Þið undrist það líklega að við skulum vera vinkonur eftir fjögurravikna skólagöngu, en nei, þessi er gömul og góð vinkona úr hjúkkunáminu. Það er þessi búttaða sem ég talaði um á snappinu um daginn. Sú sem var orðin 20 kg búttaðri síðan ég sá hana síðast. Hún hringdi sem sagt og vildi koma til mín og ræða ritgerðina. Var í einhverjum vandræðum. Síðan vildi hún að við sætum og skrifuðum og töluðum saman inn á milli um það sem við höfðum skrifað. Það get ég ekki. Þannig að ég sá til þess að við eyddum mest megnis af þriðjudeginum í að tala um hjónaböndin okkar. Ég sagði henni ítrekað að Gamli Gaur (á dönsku; Gamle Bandit) væri frábær. Og nú ætlum við vinkonan að vera vinkonur svo lengi sem við lifum því okkur þykir svo vænt um hvor aðra.  IMG_5223

Þetta er dæmigert borð í byrjun… þegar verið er að kafa ofan í hversvegna vandamálið sé vandamál. Þegar kemur að kvöldmat er öllu staflað upp í einn háan stafla sem á það til að hrynja ofan í Lasagna-ið. Ég er með fínustu „skrifstofuaðstöðu“ í gamla herberginu hennar Aldísar þar sem ég geymi gömul gögn og aukatölvurnar mínar (hljómaði þetta ekki vel?) en nei, ég vil vera í miðjunni.

IMG_5246

Þegar kemur að greiningu vandamálsins með aðstoð frægra kennismiða, þá fækkar bókunum í kringum mig. Það er rosalega góð tilfinning. Gömlu ritgerðirnar eru þó alltaf í nágrenninu því að mínu mati er alger óþarfi að finna upp hjólið aftur og aftur. Til að sýna að verið sé að greina eru sömu orðin og orðasamböndin notuð aftur og aftur. Það virkar. IMG_5238

Mér er þetta til lista lagt, að fara fram úr mér og skrifa of mikið. Ritgerðina þarf ég að slípa, þar fæ ég einkunn. Þessa færslu get ég sett út, án þess að neinn fetti fingur út í lengdina, allavega ekki við mig. Og engin einkunn fylgir.

Eigið góða helgi!

P.s. Þið finnið mig á snapchat: Alrun og í dag er Pink Ladies dagur!

P.s.s. Hundurinn á myndunum er Vaskur… hann smeygir sér ítrekað inn á myndirnar mínar án þess að ég taki eftir því.

*Ég er klíniskur kennari á Gjörinu og til  að vera það krefst Gjörið þess að maður taki diplómu sem inniheldur 6 lotur. Ef hægt væri að vera í fullum skóla, þá væri hægt að taka það á einu ári. En með 100% vinnu er það oftast tekið á 3 árum. Það geri ég. Flestar lotur eru „hlutastarf“ og því er það með vinnunni. Nema þessi sem ég er í núna, hún er „fullt starf“ og því er ég ekki á Gjörinu í 2 mánuði.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *