Barnamenningarhátíðin á blogginu.

Ég bara get ekki látið það vera að taka þátt í Barnamenningarhátíðinni þó alltof sein sé. Og þó ég viti mest lítið um hvað sú hátíð snúrist annað en að skipta prófílmyndinni út fyrir barnamynd á facebook. Og ég lækaði allar ykkar myndir. Full af gremju yfir að vera ekki sjálf með mynd. Ég sem er að öllu jöfnu, eldsnögg að taka þátt í svona löguðu ásamt því að tileinka mér það nýjasta á slíkum vettvangi (nú er ég að tala um samfélagsmiðlana, ekki Barnamenningarhátíðir).

Ástæðan fyrir að ég var ekki með er sú að ég hafði ekki tíma til að vera á facebook. Ef maður er sem óvirkastur, er persónulegt áreiti minna og tíminn meiri.

Raunverulega ástæðan fyrir að ég var ekki með, er sú að mamma liggur eins og ormur á gulli á barnamyndaalbúmunum. Sem er ósköp skiljanlegt því myndirnar af mér eru með þeim fallegri barnamyndum sem ég hef séð. (Með fullri virðingu fyrir ykkur og ekki síst systkinum mínum). Ég myndi ekki láta þær frá mér. Þvílíkar yndismyndir. Sérstaklega tímabilið frá því ég er um 3ja mánaða til 22ja ára, en þá var ég orðin ansi sígin eftir barneignir og brjóstagjafir.

Mamma ólst upp í einangrun í Loðmundarfirði til 18 ára aldurs en flutti þá með fjölskyldunni til Seyðisfjarðar og settust þau að í Berlín. Maður hefði haldið að einangrunin hefði sett svip sinn á mömmu að einhverju leyti og þá meðal annars, á fatastíl og fataval. En nei, annað hvort hefur amma lagt henni línurnar strax í Stakkahlíð eða hún hefur kastað sér yfir tískublöðin um leið og fjölskyldan lagði að höfninni með allt sitt hafurtask. Því samkvæmt myndunum var ég alltaf stíliseruð fram í fingurgóma. Á meðan mamma réði einhverju. Já eða Óla frænka, sem fannst tilvalið að ég gengi sem mest í aflögðum fötum Ástu dóttur hennar. Mömmu fannst það líka tilvalið. Ég var náttúrlega svo græn og gufukennd að ég sagði bara já og horfi á Ástu með stjörnur í augunum (hún var/er 4 árum eldri en ég). Meira að segjaég já við fjólublárri flauels pilsnadragt með litlum bleikum blómum. Ég var 11 ára og ferlega hamingjusöm með þetta allt saman. Í dag get ég varla horft á fjólubláan lit án þess að fá rafsuðublindutilfinningu í augun. Svona var stjórnast með mig þar til ég varð 19 ára en þá tók amma við og sagði mér að ég væri sallafín í peysum af henni (ég var ólétt). Það var ekki fyrr en eftir að amma dó ´98 að ég fór að hugsa sjálfsstætt hvað klæðaburðinn varðaði.

En þrátt fyrir stíliseringu og stjórnsemi þeirra systra (mömmu og Ólu), hef ég, samkvæmt gömlum myndum, ekki verið neitt umhverfisslys. Oft var ég bara hellings pæja. Og líklegast er það meira að þakka eldri frænku minni en Kaupfélagi Héraðsbúa sem seldi allt frá misheppilegum „tísku“fatnaði, sviðakjömmum og hóffjöðrum til grasköggla.

Tímabilið frá níu mánaða til rúmlega einsárs var einstaklega gott fatatímabil. Það eru til myndir af mér þar sem ég sit á túninu í Berlín, umkringd kindum og lömbum, í flottustu prjónuðu hermannagrænu hettupeysu sem ég hef á ævi minni séð. Ef þið eigið leið fram hjá Eiðum, bankið upp á hjá mömmu og biðjið hana um að sýna ykkur barnamyndaalbúmið mitt. Það er þess virði.

IMG_5417

Reyndar lumaði ég á einni barnamynd hér í Sönderborg eftir mikla leit. Þarna er ég um eins árs og alveg á kafi í heyskap. Man reyndar ekki á hvaða túni en það hefur greinilega verið ágætis spretta. Og ekkert verið að klæða mig í nein aflóga föt þrátt fyrir annríkið. Fötin skiptu aðal máli, meira máli heldur en reglulegar máltíðir, enda lifði ég mestmegnis á grasi þetta sumar. Fyrst fersku, síðan slegnu og bundnu. Þessi föt voru keypt í einni af 25 verslunum á Seyðisfirði í denn. Líklegast hjá Pálínu Waage.. Eins og sjá má á myndinni og á öðrum myndum í barnamyndaalbúminu á Eiðum, var Seyðisfjörður hátískukaupstaður hér áður fyrr og bar af öðrum kaupstöðum og þorpum á gjörvöllu Íslandi. Ég á jafnöldru á Fáskrúðsfirði og samkvæmt hennar myndum mætti halda að hún hafi verið dregin upp úr slorinu fyrir hverja myndatöku. Svona var þetta víst víða.

Það er til önnur mynd af mér, tekin á sama tíma þar sem ég átti að sitja kjurr á túninu við stæðuna. Ég var sama og ekkert upp alin akkúrat þarna og vildi því ekki sitja kjurr. Eitthvað annað en hundurinn minn Vaskur, sem situr kjurr í myndatökum þegar mér hentar. Ég fór að háskæla og lagði af stað skríðandi til mömmu. Og mamma tók mynd. Sú mynd er líklega sú mest skoðaða mynd í mínu barnamyndaalbúmi, vegna þess að ég fann fyrir svo gríðarlegri meðaumkun með „barninu“ þegar ég var sjálf barn og eiginlega langt fram eftir aldri.

Hér með hef ég tekið þátt í Barnamenningarhátíðinni 2016 þótt seint sé.

P.s. Minni á:

  • snapchattið mitt: alrun (Dagny Saevars)
  • Nýja snapchattið: islendingaruti en það ætlar að sýna frá lífi Íslendinga úti um allan heim. Það byrjaði í Montreal í dag.

Endilega addið þessum tveimur og deilið 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *