Hver fór í skóginn, kysti anímónur og hló?

Í morgun ætluðum við Vaskur rétt svo að skjótast sem snöggvast í skóginn. Svona klukkutíma túr. Það urðu 3 tímar. Heilir og sléttir.

Skógurinn er fullkominn þessa stundina. Hann er alls ekki orðinn of þéttur eins og hann verður eftir fáeinar vikur og botninn er nokkuð þurr. Beykilaufið er í passlegu magni og nánast neongrænt. Anemónurnar eru annað hvort á byrjunarreit eða að verða búnar. Ég er ekki viss.IMG_5631

Það sem skiptir mig máli er að hafa náð þeim í ár. Ég reyni eftir fremsta megni að upplifa þær á hverju ári. Ég missti af þeim árið 2014. Þær staldra stutt við en á meðan þær eru sem flestar þekja þær skógarbotninn eins og snjór. Mér finnst fátt fallegra í danskri náttúru en anemónur og skærgrænt beykið á góðum degi.

12737187

Eia!

Eia vatn! Eia, perlur!

Eia, leikur!

Leikur í sólskini

úti í skógi! 

Þú ert orðin fullkomin síðan í fyrravor! 

Hver fór í skóginn

kysti anímónur og hló,

anemónur og anemónur 

og fór að gráta?

Táta, 

komdu Táta,

komdu litla nótentáta

að kyssa pótentáta

úti í skógi!

Þetta er hluti af ljóðinu „Únglingurinn í skóginum“ eftir Laxness og Laxness skrifaði „kystu“ með einu essi.

(Myndina af anemónuteppinu tók ég ekki sjálf, heldur er hún fengin af netinu. Ég var ekki einu sinni með myndavélina með mér, efsta myndin er gömul)

Við Vaskur ætluðum okkar hefðbundnu leið en þegar ég kom að mínu hefðbundna bílastæði stöðvaði okkur gráhærð-fyrir-aldurfram kona í afar slæmri dökkgrænni skyrtu og með lambaskítsgult bindi. Sagði að það var væri ekki pláss á bílastæðinu því að það væri frátekið fyrir skátana í dag. Síðan sveiflaði hún vasahníf og kaðli framan í mig. Ég snéri bílnum við á punktinum og reykspólaði af stað svo að það hvein í dekkjunum. Er nefnilega skíthrædd við skáta.

Þetta varð til þess að ég þurfti að leggja bílnum annarsstaðar og til að vera ekki að hanga of lengi á stígunum fór ég nánast beint inn í skóginn. Og villtist.

Rammvilltist.

Ég hafði ekki neina einustu hugmynd um hvar ég var og eina viðmiðið sem ég hafði, var sólin. Ég vissi að ég ætti að ganga á móti henni. Það gerði ég, þar til ég var komin beint undir hana. Þá varð ég enn villtari og gekk að mestu í hringi.

Á þessari villigöngu sáum við rádýr, snákaham, greni, mús og fasana. Það er alls ekki vel séð að fólk sé mikið að fara út af stígunum og sérstaklega ekki á þessum árstíma þegar útungun er að ná hámarki. Rádýrin bera t.d. í maí/júní og fara frá afkvæmum sínum í tæpan sólarhring í einu fyrsta mánuðinn og á meðan felur kálfurinn sig í skógarbotninum. Hann þekkir ekki móður sína og eltir því hvað sem er þegar hann nær umþ. 4ja mánaða aldri. Þess vegna, ef svo vill til að þið rekist á slíkt, takið sveig framhjá og ALLS EKKI snerta því þá vill kýrin ekki viðgangast kálfinum og hann deyr. Þetta er ekkert grín.

Þess vegna er ég eiginlega ekkert að mælast til þess að þið séuð að fara út af stígunum þó svo að ég geri það á meðan skógurinn er ekki orðinn þéttur. Mér líður eins og ég ein hafi einkarétt á þessu.

Eftir tveggja tíma göngu rambaði ég á hólana. Þessa sem við Vaskur hlaupum upp á og niður aftur, aftur og aftur og aftur. Upp á þá alla og niður af þeim öllum. Hólarnir eru uppáhaldsstaðurinn minn í skóginum. Eftir þessi hlaup og hopp í anda Ronju Ræningjadóttur, var okkur það heitt að við urðum bara að kæla okkur niður. Þá hentar vel að einkaströndin okkar sé í nágrenninu og urðu sundsprettirnir þrír í svalandi sjónum.

Eftir sundsprettina og sólþurrkunina kíktum við á hestana sem búa þarna við einkaströndina. Þótt Vaskur sé fæddur í hesthúsi á Suðurlandinu hefur hann gleymt öllu sem hann lærði þar sem hvolpur. Þegar einn hesturinn vingsaði með taglinu fékk hann andlegt áfall. Þegar annar hestur frísaði, fékk hann eiginlega hjartaáfall en hrökk sem betur fer í gang aftur. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að slappa af… að þetta væru landsdýrin hans (Íslendingar).

IMG_000019 (2)

Þessi mynd er tekin á símann stuttu eftir að við fengum Vask og líklega í hans fyrstu skógarferð.

Það hljómar svolítið eins og ég eigi bæði hluta af skóginum og ströndina þá arna, en sannleikanum samkvæmt, þá ég ekkert í þessu löglega séð þótt mér líði eins og ég eigi þetta allt saman.

Svona hófst 1. maí hjá mér og hundinum í dag. Við skemmtum okkur konunglega og fengum stóran skammt af andlegu súrefni þessari ferð.

Sýnishorn úr skógarferðinni má sjá á snapchat: alrun (Dagny Saevars) og í guðana bænum, ekki taka útreiðina á  skátunum of alvarlega. Þetta er aðallega í nösunum á mér. Það er nú samt mín skoðun að þeir geti bara labbað, enda hvort eð er alltaf labbandi í fylkingum og syngjandi hnútalög og því alger óþarfi af þeim að leggja heilu bílastæðin undir sig og sína bálkesti.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *