Óætt ofnbakað grænkál.

Það er ekki langt síðan ég sá manneskju á netinu borða ofnbakað grænkál. Ég hugsaði: „Vá, sú er rugluð…“.

Ekki hvarflaði að mér að prófa þetta enda tengi ég grænkál við nautgripabúskap.

Í gær var ég á röltinu um Kaupfélagið og rakst á stóran poka af  lífrænu grænkáli á 18 krónur. Greip pokann og tautaði við sjálfa mig: „ég baka þá þetta fjárans kál“. Ég fann uppskrift á netinu sem ég ætla að deila með ykkur, ykkur að kosnaðarlausu.

Fyrst verður maður sér úti um kálið. T.d. í Kaupfélaginu.

Síðan skolar maður það vel og tætir kálið utan af stilknum. Þegar því er lokið, setur maður kálið í svona bláa skál með hvítu loki frá Tupperware, fer út í garð og sveiflar henni í allar áttir í nokkrar mínútur. Það merkilegta við þessa Tupperware skál er að hún er eins og sigti, líka lokið og því spýtist vatnið úr kálinu út um götin og nýtist til vökvunar í skrælnuðum garði.

Eftir það er kálið sett í vatnshelda skál og ólífuolíu í tölvuverðu magni hellt yfir. Mikilvægt er að fara með báðar hendur ofan í skálina og nudda olíunni óskaplega vel inn í kálið. Gefið ykkur góðan tíma í þetta því þetta er það skemmtilegasta í ferlinu. Eiginlega mjög gott ef góð tónlist hljómar í bakgrunninum. Nuddið ætti að taka um 20 mínútur ef að þetta er góð olía, t.d. Filippo Berio.

Síðan er kálinu dreift handahófskennt á bökunarplötu, sesamfræjum stráð yfir og bakað í 30 mín við 120 gráðu hita. Ekkert flóknara en það.

Áður en kálið verður svart, er það tekið út úr ofninum og salti stráð yfir. Saltið verður að vera gróft. Helst Maldon sjávarsalt.

Notið almennilegan spaða til að moka kálinu í fallegustu skálina sem þið eigið. Ég notaði kristalsskál frá Ástu ömmu.

img_6471

Berið fram með bragðsterku áfengi (ég drakk reyndar bara vatn því það er það eina sem Fúsi leyfir mér að drekka þessa dagana), því þetta er hrikalega vont á bragðið og því nauðsynlegt að deyfa óbragðið með einhverju sterku. Gin og tonic væri fínt. Þrefalt gin og tonic. Eða rom. Eintómt rom.

Ef googlað er „grænkálssnakk“, koma óteljandi síður upp. Á þeirri efstu stendur: „ofboðslega gómsætt…“. Það finnst mér undarlegt orðalag í ljósi þess að þetta er óætt.

Glöggur snapchat áhorfandi benti mér á að krydda þetta betur næst. Ef það verður einhverntímann næst!?!

Hún sagði að nauðsynlegt væri að strá kanil og karrýi yfir þetta, ásamt engifer og oreganó. Arómat og anís myndi gefa góðan undirtón og ALLS EKKI gleyma SEASON ALL! ALLS EKKI.

Hundinum okkar fannst þetta gott. En ég hélt aftur að mér að gefa honum of mikið. Vissi ekki hvernig grænkálið færi í magann á honum. Sem var náttúrlega bölvuð vitleysa, því ef nautgripir þola þetta vel, ætti hundinum ekki að verða meint af þessu.

img_6452

 

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *