Þegar pabbi sendi Fúsa næstum því á Ólýmpíuleikana…

Á mínum yngri árum þótti mér afskaplega gaman að keyra. Ég vildi alltaf keyra. Það hefur breyst. Á Íslandi hef ég ekki tíma til að keyra því ég þarf að sjá eins mikið af landslaginu og mögulegt er og í Danmörku getur verið leiðingjarnt að keyra því það fer nákvæmlega svona fram: hægri akgrein – kíkja í afturspegil – kíkja í hliðarspegil – yfir á vinstri akgrein – kíkja í hliðarspegil – yfir á hægri akgrein – kíkja í afturspegil – kíkja í hliðarspegil – yfir á vinstri akgrein – kíkja í hliðarspegil – yfir á hægri akgrein – kíkja í afturspegil – kíkja í hliðarspegil – yfir á vinstri akgrein – kíkja í hliðarspegil – yfir á hægri akgrein…. ég er ekkert að grínast í ykkur! Og þetta varð enn leiðingjarnara eftir að ég uppgötvaði textasmíðina á plötunni Reiðmenn Vindanna:

Hesta Jói, hann er harður karl af sér.
Ekki vill hann nokkurn móti sér.
Ef að einhver myndi móðga þennan mikla hestamann,
þá mynd’ann skjóta BANG! BANG! beint á hann.
Jorelei, jorelú, jorelei, jorelú-hú-hú-hú-hú.
Ef að einhver myndi móðga þennan mikla hestamann,
þá mynd’ann skjóta BANG! BANG! beint á hann.

eða

Ríðum og ríðum og rekum yfir sandinn,
ríðum sem fjandinn
sláum í gandinn
svo að skemmtir sér landinn.
Glóð er enn í öskunni
og flatbrauðsneið í töskunni
lögg er enn í flöskunni
við komum öskufullir heim.
Í báðum lögunum eru erindin endurtekin hátt í 10 sinnum.
Frá Vejle eru um 130km bein leið og þar af leiðandi leiðinleg.
Ef einhver hringir, þá svara ég, set hátalarann á og er tilbúin til að spjalla til að stytta tímann.

Um daginn hringdi pabbi í mig. Upphringingin var kærkomin. Fljótlega kom hann sér að efninu sem fólst í takmarkalausri aðdáun á tengdasyninum. Hann vitnaði í þetta myndband hér að neðan sem vinkona mín hafði sett á vegginn minn á facebook. Eftirfarandi texti fylgdi með „Nágrannarnir þínir náðu Fúsa á video þegar hann var að koma heim úr vinnunni sl föstudag. Ég þekkti nýja bolinn“.

(Eigendur myndbandsins eru Barstarzz)

Pabbi: Þetta er alveg svakalegt! Hann er heljarmenni.

Ég: hehe já…

Pabbi: Já, að sjá hvernig hann stekkur á vegginn og helst bara þar… þetta er alveg með ólíkindum.

Ég: hehe já…

Pabbi: Fúsi er hreint út sagt ofurmenni að burðum, þetta er ævintýralega flott hjá honum!

Ég: hehe já…

Pabbi: Ég á bara ekki til orð… er hann búinn að æfa sig lengi?

Ég: hehe jú jú…

Pabbi: Já, þetta er gild ástæða til að fara á ólympíuleikana í þessari grein… djöfull er ég stoltur af honum!

Ég: hehe já…

Pabbi: Hver náði þessu eiginlega á myndband? Varst það þú?

Ég: hehe nei, það var Peter lögga og nágranni. Hann er nefnilega rannsóknarlögga og á upptökugræjur sem hann notar við njósnir. Honum fannst koma undarleg hljóð frá innkeyrslunni einn daginn og tók þetta upp án vitundar Fúsa….

Pabbi: já eins gott, þetta er það flottasta sem ég hef séð.

Ég: hehe já…

Pabbi: Já ég er búinn að segja öllum frá þessu og sýna fólkinu þetta myndband líka…

Ég: hehe já…

En þarna fóru að renna á mig tvær grímur og sagði því: Pabbi, þetta er sko ekki Fúsi…

Pabbi: Víst er þetta Fúsi!

Ég: neiiii….

Pabbi: Þetta er víst Fúsi, heldurðu að ég þekki ekki tengdason minn?!?

Í þessu samtali komst ég aldrei til botns í því hver væri að gera grín og hverjum væri alvara.

fyrir video-297(Myndin er tekin af Smára Sverri þegar ég hélt upp á afmælið mitt í ágúst ´15)

2 Responses to “Þegar pabbi sendi Fúsa næstum því á Ólýmpíuleikana…

Skildu eftir svar við Hulla Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *