Hefðin: „farðu að heiman og ég tek til fyrir þig á meðan…“

Í tuttugu og þrjú ár hef ég fúnkerað sem húsmóðir og í tuttugu og þrjú ár hef ég rembst eins og rjúpa við að koma upp fjölskylduhefðum.

Það hefur tekist upp að vissu marki. Þó er margt sem ég hefði viljað gera að hefð en hrapalega mistekist.

Fyrst má nefna smákökurnar… ALLAR fjölskyldur baka smákökur saman. Mamman, pabbinn, börnin. Nema mín fjölskylda. Ég bakaði smákökurnar og ætlaðist til að hin hjálpuðu. Þetta var mikil kvöð fyrir þau. Eða jafnvel kvöl. Því var þátttakan takmörkuð og það væri synd að segja að hún hafi aukist þegar ég ákvað að gera sörugerð að fjölskylduhefð! Og ekki bætti úr skák að engin nema ég var neitt sérstaklega hrifin af smákökum og heldur ekki sörum, þannig að ég var líka ein um að borða þær. Ég hef bakað smákökur í 23 ár og held því áfram en það verður seint fjölskylduhefð.

Nákvæmlega það sama gildir um jólakortin. Ég skal senda jólakort til fjölda fólks, jafnvel þótt danski pósturinn taki viðskiptavini sína harkalega í afturendann ár eftir ár, og enn harkalegra í ár (þeir hækkuðu sendingarkosnaðinn á einu bréfi úr 12kr upp í 25kr á einum degi á þessu ári). En hinum fjölskyldumeðlimunum finnst þetta heldur mikið umstang… Ég get ekki einu sinni notað Fúsa minn í að skrifa utan á umslögin, hann skrifar nafn og heimilisfang á vitlausan stað á umslaginu; of langt til vinstri, of ofarlega, ekki jafnt… Það er betra að ég geri það bara sjálf.

Kannski eru þetta hefðir, bara mínar eigin hefðir.

Ég reyndi líka að koma á aðventukransahefð. Reyndi í mööörg ár. Fór út og kom inn aftur með fangið fullt af greini, greinum og köngulóm. Einhverra hluta vegna hefur aldrei verið pláss fyrir aðventukransa á okkar heimili. Þeir hafa alltaf verið fyrir. Árið 2009 hætti ég að reyna. Fyrr en í fyrra, þá ákvað ég að skella í einn rándýran.

IMG_3373

Hér má sjá færslu frá því í fyrra sem lýsir þáverandi jólaundirbúning og inniheldur fleiri myndir af þessum aðventukrans.

Ekki einu sinni jólamaturinn er hefðbundinn á heimilinu. Einu sinni var það svín, síðan önd og fljótlega verður það eitthvað annað. Forrétturinn er hipsum haps og eftirrétturinn algjerlega óráðinn. ÞAÐ skilja Danirnir ekki: „ætlarðu virkilega ekki að hafa risalamande???“.

Ég: „nei það hefur nú ekki hvarflað að mér…“

Danirnir: „Hvað í öllum heiminum ætlarðu þá að hafa???“

Ein hefð hefur þó fests í sessi hjá okkur. Það er að hlusta á þegar klukkurnar í Dómkirkjunni í Reykjavík hringja jólin inn. Við borðum þess vegna ekki fyrr en kl. sjö og þetta er heilög stund hjá okkur. Það verður að læðast og anda mjög lágt. Reyndar klúðraðist þetta einu sinni hjá mér. Ég var með stillt á Rás2 og skildi ekkert í afhverju jólin hringdu ekki inn. Ég viðurkenni það, ég panikaði og fór næstum að gráta.

Annars er afar lítið um hefðir restina af árinu. Við gleymum hinum ýmsu tillidögum og munum varla hvað við gerðum í gær.

Eða… bíðum nú aðeins hæg! Ég er að gleyma helstu hefðinni sem að fjölskyldan heldur mikið upp á og þá sérstaklega dæturnar.

Hefðin heitir „farðu að heiman og ég tek til fyrir þig á meðan…“.

Aldís og Svala hafa farið að heiman án okkar frá unga aldri. Þegar þær voru börn fóru þær stundum sjálfar til Íslands, eftir að þær urðu eldri flökkuðu þær um innanlands og utan og núna hef ég stundum ekki hugmynd um hvar þær eru staddar.

Ég hef haft þann siðinn á að þegar þær fara að heiman lengur en næturlangt, að taka til í herbergjunum þeirra og skipta á rúminu.

Við þekkjum þetta mörg. Þegar farið er eitthvað, er pakkað niður í flýti og rokið út. Án þess að taka beinlínis til. Nema þegar öll fjölskyldan fer í langferðalag… þá er tekið til ef einhver utanaðkomandi skyldi þurfa að fara inn í húsið til að vökva öll blómin… hvert eitt og einasta.

img_6876

Litla dóttirin fór í dagsferð til Kaupamnnahafnar um daginn. Kærastinn þurfti að fara á fund hjá fyrirsætuskrifstofunni. Jú jú, áður átti ég tengdason sem heitir M. Schumacher og var svo ófeiminn að hann stóð einu sinni á miðju baðherbergisgólfinu og spurði mig hvort ég hefði séð veskið hans (min pung)… ég stóð við spegilinn, önnum kafin við að setja á mig maskara og á nærfötunum einum saman. Nú á ég tengdason sem mögulega á eftir að birtast í svipuðum stellingum og í svipuðum fatnaði og David Beckham þegar hann var ekki að spila fótbolta. Okkur finnst tengdasonurinn afar indæll og gaman að heyra hann segja að það sé mikið skemmtilegra að fara í sturtu hjá okkur heldur en heima hjá sér (hann býr enn í foreldrahúsum), vegna þess að ég eigi miklu meira og skemmtilegra snyrtidót en mamma hans. Reyndar fannst mér það minna skemmtilegt þegar rándýra sjampóið og næringin sem ég splæsti á mig í fríhöfninni um daginn kláraðist á mettíma… honum líkaði svona rosalega vel við það og lubbanum hans líka.img_3204

Venjulega tek ég ekki til þegar fólkið mitt fer í dagsferðir, en þarna vantaði mig myndir. Og Svala hafði rokið út í miklum flýti um morguninn og því herbergið tilvalið til myndatöku.

img_6909

Hvers vegna geri ég þetta? Hún er fullorðin og ætti að geta þetta sjálf! Já þið spyrjið eflaust og eðlilega. Þetta kostar ekki krónu. Þetta tekur mig kannski korter. Ég tek það fram að þetta er yfirborðstiltekt og yfirborðshreingerning. Það hvarflar ekki að mér að fara að taka til hirslum né í öðrum skúmaskotum þar sem möguleg einkamál eru geymd.

Ég geri þetta vegna þess að ég þekki sjálf svo vel tilfinninguna og léttirinn við að koma heim í hreint hús og leggjast í hreint rúm. Ég ætlast hreinlega til að þetta sé svona þegar ég kem heim, oftar en ekki nánast uppgefin eftir krefjandi Íslandsferðir eða 40-50 tíma vinnuhelgi í Noregi.

Og ef maður gerir ekki neitt fyrir neinn, gera aðrir ekki neitt fyrir neinn og því gerir enginn neitt fyrir neinn.

 

2 Responses to “Hefðin: „farðu að heiman og ég tek til fyrir þig á meðan…“

Skildu eftir svar við Eiríkur Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *