Hluti úr degi í mínu lífi.

Mig langar til að segja ykkur frá degi í lífi mínu, eða frá hluta úr degi. Segjum að hann hafi byrjað kl. 6 að morgni sem er gott viðmið en þá hefst ný vökvajafnvægisskráning á sjúkrahúsunum. Vökvajafnvægisskráning og –útreikningur hefur samt ekkert með þennan dag í lífi mínu að gera, einhversstaðar verður dagurinn bara að byrja. Þetta er ekki dæmigerður dagur hjá mér, en einn og einn er þó svipaður þessum.

Þarna kl. 6 um morguninn var ég búin að vera á vakt í 14 tíma og átti 2 tíma eftir. Ég var á tveggja manna stofu og við vorum 2 hjúkkur á stofunni. Minn sjúklingur var eins og hugur minn og svaf eftir því. Það er nefnilega þannig að ef mínir sjúklingar sofna ekki af sjálfu sér, þá svæfi ég þá. Það flýtir fyrir bata að sofa á nóttunni. Þetta vorum við sænski hjúkrunarfræðingurinn sem ég var mikið með á stofu í vikunni, sammála um. Um miðja nótt eina nóttina, fórum við að spekulera í hvað það besta væri sem Guð hefði skapað. Hvernig sem við brutum heilana, datt okkur aðeins þrennt í hug; morfín, própófól og flexi-seal (viljandi setti ég enga skýringarmynd, þið getið gúgglað ef þið viljið).
En sjúklingur Svíans var ekki eins meðfærilegur. Hann var stöðugri.

Og klukkan 6 um morguninn lyfti Svíinn sænginni upp og kíkti undir. Eitthvað sem honum langaði að bíða með og láta komandi vakt gera. Við blasti það sem manni langar ekkert til að sjá í lok langrar vaktar. Við erum ekki að tala um kúk og piss. Heldur það sem er verra. Lyktin er verst, en hún er dísæt og klígjukennd. Hún fer inn í nefið á manni og niður í kok með viðkomu í munninum og sest þar á bragðlaukana. Hún sest líka á húðina á manni og þar sem húðin er stærsta líffæri líkamans er það bara alls ekki hentugt. En þetta með bragðlaukana var samt verra. Allt sem ég borðaði næstu tvo dagana á eftir, bragðaðist af því sem var undir sænginni. Líka maturinn sem franski tengdasonur minn eldaði handa mér kvöldið sem ég kom austur en ég sagði honum ekki frá því. Fannst það full langt gengið.
Manni finnst ansi harðneskjulegt að þurfa að enda vaktina sína í þessum aðstæðum. Þetta er ekki bara sóðalegt, heldur líka sorglegt.

Eftir vaktina fór ég heim í íbúðina mína (sem vinnan á), pakkaði niður í töskuna því það var heimferðardagur og lagðist svo upp í rúm til að sofa í 90 mínútur. Náði að sofna smá og fór síðan á fætur, gerði mig klára með þykku lagi af meiki (veitti ekki af) og fór uppá sjúkrahús um hádegi til að taka flugrútuna þaðan. Ég var tímanlega og flugrútan átti að stoppa 12.27. En hún kom ekki. Ég beið eftir næstu sem átti að koma 12.57. Hún var ekki komin 13.05 svo mig fór að gruna að ég stæði á röngu stoppi og ákvað því að labba inn á sjúkrahús og athuga málið. Orðin pínu tæp á tíma í flugið. Ég var komin upp brekkuna í ágætis færi frá rútustoppinu þegar ég sá rútuna koma. Ég missti mig og til hennar hljóp. Baðandi út lausu hendinni með 20kg tösku á fleygiferð á eftir mér í hinni: ”Veeeent, vent på meg” gargaði ég af öllum lífsins sálarkröftum. Hún beið.

Ég tékkaði mig inn á vellinum og var alveg sallaróleg á leið út að hliði þegar ég stakk hendinni í jakkavasann og fann þar lykilinn að íbúðinni, sem ég hefði átt að skilja eftir í lyklaboxi fyrir utan svo að næsti kæmist inn. Flott hjá mér.
Ég hringdi í vinnuna (afleysingarfyrirtækið) og sagði sannleikann. Við urðum sammála um að finna út úr þessu í sameiningu, ég á staðnum og hún í símanum. Ég fór út og niður, sem sagt út úr utanlandsfluginu til að reyna að finna einhverja hjálp og til þess að komat að því að það er hægt að geyma lykla hjá Europark sem staðsett er í bílastæðahúsinu. Frábært. Og frábært að vera stödd útí bílastæðahúsi korter í brottför. Þið vitið hvernig þetta er. Það er alltaf hótað að loka hliðinu korteri fyrir brottför ef ekki fyrr. Ég hljóp (ég hljóp í alvöru) inn í flugstöðvarbygginguna aftur, upp í security´ið og ætlaði bara renna þar í gegn eins og í fyrra skiptið. Nei, þá vildi kerfið taka mig í tilfallandi eiturlyfjatékk. Og græjan sem er notuð í það, stóð á sér. ”Hún er óvenjulega lengi í dag, hún stendur eitthvað á sér” sagði Norðmaðurinn sultuslakur. ”Já er það? sagði ég sultuslök.
Þegar upp var komið, hljómuðu hótanirnar um lokun hliðsins í hátalarakerfinu ásamt nafninu mínu.
Þegar ég settist niður í Icelandair vélinni langaði mig svolítið að fara bara að gráta. Ég var drulluþreytt, það var blóðbragð af því litla sem ég hafði sett upp í mig þennan daginn og hinum við ganginn var móðir með stálpað barn sem hafði steypst á hausinn á milli sætanna og grét sáran. Ég bölvaði pínu yfir því hve stálpað það væri og því ekki hægt að leggja það á brjóst. En viti menn, haldiði að hún hafi ekki bara sótt þetta mikla og mjólkurfyllta brjóst og lagt barnið þar og það hætti að gráta og fór að sjúga. Mig langaði eiginlega líka. En samt ekki. Ég öfundaði samt barnið sem var kannski ekki svo stálpað. Kannski hefur það bara verið 10 mánaða frekar en 2-3ja eins og mér fannst í fyrstu. Þrátt fyrir þetta var flugið gott nema bjórinn, það var blóðbragð af honum.

Þegar ég lenti í Keflavík þurfti ég að bíða í smá stund eftir að vera sótt svo ég fór inn í fríhöfnina og bað konuna þar um að selja mér eitthvað. Venjulega veit ég alltaf hvað ég er að fara að kaupa ef ég fer inn í fríhöfn. En ekki þetta: ”Seldu mér eitthvað… já bara eitthvað, það má kosta það sem það kostar”. Hún seldi mér yngingardropa og sagði mér að nota þá minnst tvisvar á dag. Ég velti fyrir mér hversvegna henni datt þetta í hug. Og ég keypti þá.

En nú eruð þið, lesendur, líklega að velta fyrir ykkur hvernig mér hafi tekist að halda geðheilsunni þennan daginn. Það var ekki vegna kaupanna á yngingardropunum því þá hafði ég ekki prófað þarna. Þeir voru bara í veskinu.*
Það var nefnilega þannig að á leiðinni út úr Reykjanesbæ komum við við í bakaríi þar sem ég keypti kaffi og fallega afgreiðslustúlkan óskaði mér góðs dags. Þá snérist dagurinn við.

*Það er nú gaman að segja frá því að þremur dögum eftir að þessi dagur átti sér stað og ég búin að nota yngingardropana í þrjá daga, mætti ég fullorðni frænku minni í Kaupfélaginu á Egilsstöðum og hún hélt að ég væri dóttir mín.

Önnur hvor þeirra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *