Bless Snapchat.

Samfélagsmiðlar: Já eða nei? Góðir eða vondir? Svar: Já og góðir. Ég elska samfélagsmiðla. Þeir geta gefið manni svo margt. T.d. gleði, umhugsun, fróðleik og ekki síst tengingar við fólk.

Ég hef verið virk á Facebook síðan 2008, Instagram síðan 2012 og á Snapchat síðan ca. 2012 (2013 skrifa ég í bloggfærslu að snappið sé að líða undir lok… Meiri spákonan sem ég er).

Í þessari færslu ætla ég að tala um snappið. Miðilinn þar sem ég hef bullað og fíflast í fólki í ca. 5 ár. Miðilinn þar sem ég hef komið mínu á framfæri eða réttara sagt, predikað yfir snappvinum mínum og reynt að hafa áhrif á þá á góðan hátt. Beðið þá vinsamlegast um að nota hjólahjálm, að fara ekki í dýragarða og fá sér ferskt loft. Ég hef tekið þá með í ferðalög til hinna ýmsu landa. Leyft þeim að sjá mig nývaknaða eða uppstrílaða. Sýnt þeim hvað ég borða og hvernig ég bý matinn til. Komið með góð ráð (öll mín ráð hafa verið góð, sama hvað hver segir) og kennt fólki að drekka romm. Á snappinu mínu hafa hlutir fest sig í sessi. T.d. Omaggio vasinn, innkaupakerran og Ittala límmiðarnir svo fátt eitt sé nefnt.

Einnig hafa nokkrar persónur slegið í gegn en þar er helst að nefna:

-Hundinn Vask sem sýnir ávallt sínar allra bestu hliðar þegar sími eða myndavél er annars vegar.

-Fúsa sem vill meina að hann hafi verið misnotaður aftur og aftur og aftur og aftur… „ÉG ER EKKI PROPSIÐ ÞITT“ hefur hann marg oft sagt við mig og ég ekki beinlínis hlustað.

-Ágústu eða ungfrú Skagi eins og þið þekkið hana best, sem vann hug og hjörtu landa sinna, íklædd Evuklæðum, sjúkrahúsnærbuxum eða hafmeyjubúning og hefur alltaf nennt að sprella með mér hingað og þangað.

Ég hef kynnst fólki og myndað vináttubönd á snappinu.

Snappið hefur einnig gert mér kleift að fylgjast betur með vinum og ættingjum sem var ekki auðvelt fyrir tilkomu allra þessara samfélagsmiðla, ég búandi erlendis, þau á Íslandi. Það er t.d. ómetanlegt að fá að fylgjast með „litlum“ frænkum sínum fæða og klæða börnin sín. Þessi agnarsmáu börn sem ég hefði séð sama og ekkert ef ekki væri fyrir snappið.

Snappvinir mínir (eða fylgjendahópurinn) hafa verið frábærir. Aldrei neitt vesen, engin neikvæðni, engin afskiptasemi… bara endalaus hörpuleikur sem hefur glatt mig nánast á hverjum degi. Ég hef bara addað örlitlu broti af snappvinum mínum til baka og er ég með um 150 manns í story hjá mér í kvöld og bara skemmtilegt fólk. Það segir sig sjálft að það er ekki fræðilegur möguleiki að ná að horfa á alla. Þó viljinn væri góður. Sem hann er ekki beinlínis, því ég hef fyrir löngu síðan áttað mig á hversu mikill tímaþjófur snappáhorf er og hef því ítrekað sett sjálfa mig í snappáhorfsbann, eins og lítinn krakka sem settur er í sjónvarps- eða tölvuleikjabann. Ég set sjálfa mig í bann svona cum það bil einu sinni á dag. Og síðan brýt ég bannið og verð alveg ægilega pirruð útí sjálfa mig fyrir að hafa eytt mínum dýrmæta tíma í, í rauninni ekki neitt.

Ég hef fylgst með bæði frægum og minna frægum snöppurum í gegnum tíðina og oft skemmt mér vel eða fræðst á einhvern hátt. Ég hef fylgst með næstum því allri flórunni, hvort sem það snýst um þrif, grín eða grátur. Oft á tíðum minnir snappið mann harkalega á að það eru ekki allir í sama básnum og hlutskipti fólks eru misjöfn. Fólki líður misvel og börn búa við og alast upp í afar misjöfnum aðstæðum. Það þarf svo sem ekkert snapp til að segja manni það, en óneitanlega er maður nær því þegar manni er hleypt heim til fólks í gegnum „live“ myndavél.

Í gærkvöldi fjallaði Minimalistasnappið m.a. um börn og uppeldi. Eftirfarandi er haft orðrétt eftir: „Eitt af því sem við foreldrar erum að kljást við í dag í uppeldi, er að við erum að ala börn upp í heimi sem gengur mikið út á að eignast peninga, hluti og veraldleg gæði. Ég trúi því að eitt að því besta sem við getum kennt okkar börnum er að ala upp einstaklinga sem líður þannig að þegar þau verða fullorðin, að þá geti þau haft merkin innan á en ekki utan á fötunum sínum. Og þá á ég við að ég vona að börnin mín munu hafa það mikið sjálfstraust þegar þau verða fullorðin að það verða ekki hlutir, heldur þeirra mannkostir sem þau vilja bera á borð fyrir aðra. Og það er miklu auðveldara að temja sér þá hugsun þegar maður er barn heldur en þegar maður er orðin fullorðnari og mótaðri einstaklingur. Við erum foreldrarnir og það er okkar að ákveða hvað þau eiga, hvað kemur inn á heimilið og við stjórnum ferðinni. 

Mér fannst þetta gefa svo mikla meiningu að ég bara varð að hafa þetta eftir, án leyfis. Og það ætti ekki að koma á óvart að ég mæli með þessu snappi: minimalistar.

Allt fræga fólkið sem ég hef fylgst með er gott fólk sem vill vel og gerir vel. Marga er mér meira að segja farið að þykja vænt um. Ekki spurning. Flestir af þeim sem ég fylgist með eru einlægir og skemmtilegir snapparar. Þeir koma efninu vel frá sér, hvort sem um grín, þrif, fróðleik eða auglýsingar er að ræða. En það sem einkennir þá frægu er stór fylgjendahópur sem er oft á tíðum svolítið athyglisverður svo ekki sé meira sagt.

Samkvæmt snappinu virðist sem hugsanir þjóðarinnar séu froðukenndar. Hugtök eins og sjálfstæð hugsun og að taka sjálfstæða ákvörðun, já eða að bera sig eftir björginni virðast horfin. Stundum hvarflar að mér að Google sé ekki enn komið til Íslands. Samt veit ég að Google er á Íslandi og ég veit að íslenska þjóðin er ekki froða, þótt litli snappheimurinn sé það að vissu leyti. Ég furða mig á áhrifagirninni, múgæsingnum og ekki síst, neysluhyggjunni innan samfélagsmiðlasamfélagsins.

ÉG. VERÐ. AÐ EIGNAST. ÞETTA. NÚNA! Afþví að ég vil vera svona eins og hún eða hann. Láta hugsa fyrir mig. Afþví að það er of mikil fyrirhöfn að gera eins og ég innst inni vil. Og samfélagið krefst þess af mér að gera eins og ÞAÐ vill. Við eigum helst að vera með fallega húð, löng augnhár, í svona peysu og með barn sem klippt er útúr tískublaði á öxlinni. En kommon, við búum ekki í Norður Kóreu. Við höfum val. Það var fjallað vel um þetta í þætti sem heitir Hæpið á RÚV um daginn þar sem Ragna Garðarsdóttir sálfræðingur útskýrði hugtökin óskasjálf og raunsjálf og hvernig er fyllt upp í bilið með hlutum. Því að „sátt manneskja kaupir sér ekki neitt“.

(Mæli með að þið horfið á allan þáttinn en það er linkur hérna).

Ég furða mig á magni auglýsinga innan samfélagsmiðlasamfélagsins. Mér finnst þetta orðið pínu klikk og komið út fyrir öll skynsamleg mörk.

Fylgjendur gera líka kröfur á snappara, fáránlegar kröfur! Sem verða til þess að snappararnir fara að gráta. Fylgjendur baktala snappara og líka börnin þeirra. Segja viðurstyggileg orð um ungabörn. Bæði beint við móðurina og á bakvið hana, en það skiptir ekki… baktal ratar oftast beinustu leið til þess sem er baktalaður hvort eð er. Við vitum öll að eitt styggðaryrði um börnin okkar jafnast á við að fá skörðóttan rýting rekinn í hjartað. Í Hæpinu var einnig fjallað um hvað fólk leyfir sér að segja við hvort annað á bakvið skjáinn. Og ég skil ekki hvað það er sem fær fólk til að haga sér svona. Bæði ungt og harðfullorðið.

Að horfa upp á þetta, pirrar mig orðið of mikið og þá er best að taka til í kringum sig.

Eins og áður sagði, er ég í sífellu snappáhorfsbanni, en brýt það stanslaust. Ég ætla að gera eitthvað en opna „óvart“ snappið og áður en ég veit af, er liðinn hálftími, þrjú korter og ég hef í raun og veru ekki fengið neitt svakalega út úr því að horfa á snappið í þennan hálftíma. Mig langar að lesa fleiri bækur, skrifa meira, hekla meira. Ég eyði alltof miklum tíma í eitthvað sem er ekki að veita mér nógu mikla ánægju.

Þess vegna er ég hætt á snappinu um óákveðin tíma. Kannski að eilífu.

Ég spurði Fúsa hvort hann ætti eftir að sakna mín á snappinu og svarið var: „nééé, ekkert þannig séð, eða jú, þegar þú ert ekki heima og að geta þá ekki fylgst með þér.“

Þess vegna ætla ég að vera virkari á Instagram (alrun75) en á annan hátt, ekki eins tímafrekan hátt. Aðallega til að Fúsi geti fylgst með ferðum mínum.

Og virkari hérna. Mig langar að komast í gamla bloggfarið aftur. Þar sem ég bloggaði um allt og ekkert og skjalfesti líf mitt dyggilega. Vissuð þið að ég leita í blogginu mínu í hverri viku að einhverju sem ég þarf að rifja upp eða vita? Bloggið er mitt skjalasafn.

Síðan langar mig að hekla teppi. Það þarf um 120 dúllur í eitt teppi. Ég hef heklað 9 dúllur á 9 mánuðum. Þetta gengur allt of hægt.

Þess vegna er ég hætt á snappinu.

Kær kveðja Dagný.

Svona litum við út árið 2012 þegar „við“ byrjuðum á Snapchat. 

16 Responses to “Bless Snapchat.

  • Hjördís
    6 ár ago

    Þessu bjóst ég ekki við, en ég hlakka til að lesa bloggin þín ? ábyggilega gott að breyta til stökumsinnum.
    Þetta blogg var allavega mjög gott og auðvitað er ég sérstaklega hrifin af minimalisku pælingunum ?

  • Hrund Brynjolfsdottir
    6 ár ago

    flott ákvörðun, skemmtileg skrif, að vanda. Ég fæ meira út úr því að lesa pistlana þína á blogginu en horfa á snöppin, þó svo þau geti verið góð dægrastytting, verst að mig eins og svo mörgum öðrum vantar ekki dægrastyttingu heldur lengingu. God skrivelyst!

  • Húrra, húrra, húrraaaaaaaa

    Hlakka til að hitta Þig næst.

  • Sakna blogghringsins sem ég rók með kaffinu í gamla daga! Allir hættir að blogga. Kannski verður þú bara trendsetter og startar því öllu uppá nýtt 🙂

  • Erna Kristin
    6 ár ago

    Þú ert snillingur ??

  • Guðrún Hafsteinsdóttir
    6 ár ago

    Ákvað viljandi í gærkvöldi að lesa þessa færslu yfir kaffibolla í dag. Svo kannski fer maður að taka gömlu blogg hringina yfir kaffi bolla aftur ? Þín verður saknað á snappinu, bullið og sprellið sem fær mann til að hlæja á hverjum degi… en þessi færsla skilur svo mikið eftir líka – og gefur „stof til eftertanke“ eins og Danirnir segja.

  • Ylfa Pétursdóttir Soussa
    6 ár ago

    Ég er svo ný á snappinu en þó búin að vera nógu lengi til að eiga eftir að sakna snappanna þinna. Það var líka svo fínt að sjá þar þegar nýjar færslur komu inn hér. Þegar þú kemur aftur, finndu mig og don’t be a stranger ?

  • Ylfa Pétursdóttir Soussa
    6 ár ago

    Ég er svo ný á snappinu en þó búin að vera nógu lengi til að eiga eftir að sakna snappanna þinna. Það var líka svo fínt að sjá þar þegar nýjar færslur komu inn hér. Þegar þú kemur aftur, finndu mig og don’t be a stranger ?

  • Ylfa Pétursdóttir Soussa
    6 ár ago

    Ég er svo ný á snappinu en þó búin að vera nógu lengi til að eiga eftir að sakna snappanna þinna. Það var líka svo fínt að sjá þar þegar nýjar færslur komu inn hér. Þegar þú kemur aftur, finndu mig og don’t be a stranger ?

  • Ég skil þig mjög vel. En af öllum snöppurum sem hefðu mátt hætta varst þú ekki ein af þeim. Vantar einmitt fleiri snappara sem eru með pælingar um eitthvað annað en nýjast must-have. Hafandi sagt það þá kenndir þú mér að biðja um afslátt og ohboy hvað það hefur borgað sig 🙂 Góðar stundir, kv. Hlín

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *