Bergen í svart/hvítu

Í fjallshlíðum Ulriken, hæsta bæjarfjalls Bergen, eru tvö sjúkrahús. Annarsvegar háskólasjúkrahúsið Haukeland og hinsvegar Haraldsplass sem er, að ég held, einkarekið í nafni gestrisni, kærleiks og hjartahlýju. Haraldsplass hefur yfir að ráða gestahúsi sem heitir Regina (í höfuðið á Regina Waage) sem hver sem er getur leigt og þar er einnig gestrisni, hjartahlýja og kærleikur í fyrirrúmi, eða réttara sagt, í formi dagatala með tilvitnunum úr bíblíunni. Þarna holar fyrirtækið sem ég vinn fyrir, mér niður.  Og eitthvað er það, því mér líður alveg óskaplega vel þarna.

Og ef mér skildi skyndilega ekki líða vel, þá get ég alltaf gluggað í „Salmernes bok“ sem liggur í glugganum og lesið eitt og eitt bíblískt ljóð.

Reyndar líður mér óskaplega vel í Bergen. Svei mér þá ef það er ekki uppáhaldsbærinn minn í Noregi.

Þetta var sjötta ferðin mín þangað að ég held. Ég hef verið á gjörinu á Haraldsplass, almenna gjörinu á Haukeland, MIO (lyflækningagjörgæslueftirlitsdeild) og nú á Brannskaðanum eða brunaslysagjörgæsludeildinni, þeirri einu sönnu. Mig hefur lengi langað til að prófa hana en aldrei ýtt sérstaklega á það því ég hélt að það væri ekki mitt svið. Það er nefnilega þannig að gjörgæsluhjúkrunarfræðingar eru oft svolítið sérhæfðir innan ákveðins geira. Mitt svið er t.d. lyflækningargjörgæsla og það er eins og að opna risastóran, glansandi jólapakka að fá vel sýktan sjúkling í hendurnar með það sem áður fyrr var kallað blóðeitrun. En þegar ég var spurð um daginn, hvort ég vildi fara á Brannskaðann, þá sagði ég strax já. Já já já. En að ég kynni ekkert á brunasár. Það skipti ekki máli, ég fékk næturvaktir og sjúklingurinn með kerfisbundna sýkingu í bland við brunasárin. Mitt hlutverk var að halda öndunarvél, blóðskilun og hinum ýmsu lyfjadælum keyrandi.

Þetta er eina brunaslysagjörgæsludeildin í Noregi og allt öðruvísi deild en ég er vön að vera á. Þarna eru sjúklingarnir heilbrigt fólk sem verður fyrir hræðilegum slysum. Ég er vön veiku fólki. Einn stærsti kúnnahópurinn eru börn og þá sérstaklega óvitabörn flóttafólks frá 3. heiminum, vegna þess að margt af því sem þau gera í daglegum athöfnum fer fram sitjandi á gólfinu, þ.á.m. að elda og borða mat. Næststærsti kúnnahópurinn er fólk úr atvinnulífinu. Þetta er mjög sérstök deild og manni finnst sumar sjúkrasögurnar vera lýgilegar. Mig grunar að vinnufélögunum hafi fundist ég vera eins og spyrill í Útsvari, sem var fastur í hraðaspurningunum. Ég gat bara ekki hamið mig.

En brunagæsludeildin lætur ekki brunakerfið aftra sér frá því að steikja vöfflur. Norðmenn myndu líklega ekki láta neitt aftra sig frá því. Þeir eru snillingar í að „kose sig“ á vöktunum. Stundum eru vöfflur, stundum eru bollur, stundum eru kanilsnúðar… Mér finnst það eitt af því besta við að vinna í Noregi… að finna bökunarilminn leggja út um alla deild og bíða eftir að vera leyst af.

Þegar ég er á næturvöktum, snýst eiginlega sólhringurinn um það að vinna og sofa, en ég fer samt og fæ mér ferskt loft á hverjum degi. Í Bergen byrjar að dimma um fjögurleytið og því vakna ég í myrkri. Og fer að sofa í myrkri. Fyrir ofan sjúkrahúsin og Regina er fjallið Ulriken. Fyrir neðan er kaupfélagið og Möllendalskirkjugarðurinn, stærsti kirkjugarðurinn í Bergen. Þangað fer ég oftast ef ég ætla bara að fá mér þetta lífsnauðsynlega ferska loft. Ef ég hef meiri tíma aflögu, eins og ég hafði á föstudaginn síðasta en þá var ég í fríi, fer ég upp á Ulriken, já og ef veður leyfir. Ég held, ef ég man rétt, að ég hafi farið upp á hann í öllum ferðunum mínum. Einu sinni tók ég reyndar kláfinn en þá var bæði íllfært upp og komið myrkur. Það var í desember.

Þarna sést hvorki Regina né sjúkrahúsin vegna þess að þau eru í hvarfi. En í staðinn sést kirkjugarðurinn, Danmarksplassen, Festplassen, Bryggen og Fløyen. Ásamt mörgu öðru sýnist mér. Ég var tvo tíma að labba upp og niður. Ég vel alltaf stystu leiðina upp því mér finnst hún skemmtilegust. Og afþví að það var pínu hált, tók ég Sherpatröppurnar niður, þessar sem Sherparnir frá Nepal eru að byggja (linkur hér). Þetta eru eiginlega þær flottustu tröppur sem ég hef séð á ævi minni (mynd) en þær eru hreinasta helvíti að ganga á niður á móti. Ef ég hefði hannað þær, hefði ég haft þrepin lægri. Ég er enn með harðsperrur í kálfunum fjórum dögum seinna.

Ég setti út dramatíska færslu á föstudaginn þar sem ég kvaddi snappið. Ástæðan var m.a. sú að mig langaði að hekla meira. Eina nóttina tók ég upp hekludótið, heklaði smá, tók mynd og hélt svo áfram að horfa á Netflix. Sjúkli svaf, nei annars, ég lét hann sofa. Það er eitt af því góða við Gjörið, maður segir bara góða nótt, ýtir á takka og sjúklingurinn sefur.

Á sunnudeginum reif ég mig á lappir fyrir allar aldir eða rétt fyrir ljósaskipti til að fara niður í miðbæ en ég var því miður svo lengi í sturtu að það var komið kolniðamyrkur þegar ég loksins fór út. Þótt það sé myrkur og rigning þá er miðbærinn í Bergen æði. Það er endalaust hægt að labba um og skoða. Þessi mynd að ofan er tekin á Bryggen á bakvið. Bryggen á bakvið er meira sjarmerandi en bara Bryggen. Síðan eru það níðþröngu göturnar uppi í brekkunni til hægri við Fløyensbanann. Ég get labbað endalaust þar um. Eða smeygt mér um því svo þröngar eru þær, enda heita þær flestar eitthvað-smauet eða smugurnar að ég held.

Ég á mér þrjá uppáhaldsveitingarstaði í Bergen af örugglega 3000, já þeir eru margir. Pygmalion økocafe og gallery, Pingvinen og Biens snackbar (sem er á Danmarksplass og því í stuttu göngufæri frá Regina. Síðan uppgötvaði ég Hagalin systurnar núna um daginn þegar ég kom til Bergen, svöng og þurfti að flýta mér upp á sjúkrahús. En hungrið var að ganga frá mér og því í forgangi og fékk ég mér fiskisúpu í pappamáli hjá þeim systrum sem eru reyndar löngu dánar.

Nú er ég aldeilis búin að lofsyngja Bergen. Það getur ekki allt verið svona fullkomið. Nei það er það ekki. Til að komast til og frá Bergen þarf ég að taka sex flug. Það er það eina neikvæða. Flugleggurinn til Sönderborgar í gærkvöldi var flug nr. 32 síðan í byrjun ágúst. 31 flug komust á áfangastað. Eitt snéri við vegna bilunnar.

Myndirnar í færslunni komu til vegna áskorunnar á Facebook þar sem átti að sýna sjö daga úr lífi manns í svörtu og hvítu. Ekkert fólk mátti vera á myndunum en það hentaði mér ekki alveg, þannig að ég breytti reglunum og bannaði krókódíla. Engar útskýringar máttu fylgja sem hentar mér afar ílla. Þess vegna þessi færsla.

Ef þið hafið ekki komið til Bergen og fáið boð þangað, þiggið það þá.

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *