Ást er…

…að sjá til þess að rafmagnstannburstinn minn sé fullhlaðinn þegar ég kem heim eftir vinnuferðir.

Hann á þetta nefnilega til…

…sem kemur mörgum gríðarlega á óvart því hann ber þess mikil merki að vera alin upp í Fellabæ City.

Hann getur verið svo ónærgætinn og hugsar ekki alltaf áður en hann talar.

T.d. þegar hann segir að það hljómi eins og ég hafi stígið á ryðgaðan 4ja tommu nagla þegar ég syng „Ó helga nótt“ á hátíðisdögum.

Eða þegar handboltagaurinn danglaði í púngsann á öðrum handboltagaur um daginn og sá sem danglað var í, henti sér í gólfið og lá þar bara. Og hinn var settur í leikbann. Ég spurði Fúsa hvort þetta væri ekki einum of mikil dramatík, svona vont gæti þetta bara ekki verið. Það láku tár úr augunum á honum og hann saug snöggt upp í nefið, þegar hann lagði til að ég legði annað brjóstið á borðið og hann myndi sækja kjöthamarinn. Eru allar tilfinningar karlmannsins, bæði andlegar og líkamlegar saman komnar í púngsanum?

Síðan vantar ekkert upp á sjálfstraustið hjá Fellamanninum. Um daginn kvartaði ég undan hversu óþægilegt það hefði verið þegar kvensjúkdómalæknirinn rótaði í leginu (ekki leghálsinum) í mér. Ég hafði alveg þurft tvær kvensjúkadómasamlokur á eftir til að jafna mig (heima hjá mér heita þær gynækologískar samlokur -spes samlokur sem bara eru borðaðar í þessu samhengi). Þá sagði Fúsi: „Þér finnst ekki óþægilegt þegar ég róta þar…“ Leggöng, leggáls, leg og lungu, same same. Ég beið eftir að hann myndi enda þessa athugasemd með góðu hneggi.

Hann hefur líka óbilandi trú á mér. Fyrir ekki svo löngu síðan spurði hann mig hvort ég ætti ekki skurðhníf? „Ha“ hváði ég. „Já, svona mjög beittan hníf, þú ert nú hjúkrunarfræðingur…“ Jú jú, ég á líka tjakk og búmmerang.

Ég heyrði stuttlega í honum í gærkvöldi á meðan ég labbaði í vinnuna kl. 21.30. Þá var hann með lax í ofninum og var að fara borða. Svala var að vinna til kl. 22.00. Hann er svoddan kamelljón og snýst mátulega í kringum okkur mæðgur.

Í dag verður hann nær því að vera 100 ára heldur en 1 árs.

Elsku karlrassgatið mitt. Til hamingju með daginn!

Dæmigerður Fellamaður í góðum gír.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *