Á broddum í Bergen

Nú er ég stödd í uppáhalds norska bænum mínum, að öllum öðrum ólöstuðum. Það er bara eitthvað í andrúmsloftinu hérna í Bergen.

Þar sem ég hef bloggað um nánast allar mínar ferðar til Bergen og útlistað bæði deildunum og híbýlinu, ætla ég að sleppa því núna. En ég hef líka bloggað um bæjarfjallið Ulriken í hvert skipti og á því verður engin undantekning gerð.

Eftir mjög svo langa ferð til Bergen á miðvikudaginn síðasta, ferð sem aðeins átti að taka um 4 tíma en tók 10 tíma, vegna ófærðar á flugbrautinni í Sönderborg, mætti ég ekki á næturvakt fyrr en um miðnætti. Einhvernveginn tókst mér að koma því að við samstarfsfélaga mína þá um nóttina að ég ætlaði upp á Ulriken í þessarri ferð. Þeir spurðu hvort ég væri með brodda með mér. Nei, ég á nú ekki brodda. „Du mååå har brodda på.“ Må á norsku er öfugt miðað við dönskuna og íslenskuna og þýðir að ég eigi eða verði. Eiginlega skipun sem er ekki til umræðu. Þeir vildu meina að það væri svo hált í hlíðinni. Bölvað vesen, ekki nennti ég að fara niður í bæ í einhverja jöklabúð og fjárfesta í broddum sem kostuðu pottþétt handlegginn alla leið upp að olnboga. Og ég nennti heldur ekki að brjóta á mér olnbogann og vera send heim til Sönderborgar í gipsi.

Ég ákvað því að spyrja Íslendingana til ráðs, sem eru samkvæmt samstarfsfólki mínu á Haukeland, eins og maurar um bæinn, svo margir eru þeir hérna. Íslendingarnir vildu bæði lána mér brodda og segja mér hvar ég gæti keypt þá. Þeir fást víst í öllum helstu matvörubúðum og í apótekunum. Þegar ég vaknaði í fyrradag fór ég beint niður í Rema en þeir voru ekki til þar. Hann sagði að ég þyrfti að fara í útivistarbúð til að kaupa þá. Ég velti fyrir mér hvort landar mínir hefðu verið að bulla í mér og ég trúað öllu eins og einn bláeygður. En ákvað að fara í apótekið. Bæði Rema og apótekið eru beint fyrir utan dyrnar hjá mér. Í apótekinu fengust broddar, auðvitað, en apótekarakonunni leist ekki alveg á mig því hún sagði hvað eftir annað að það væri kalt uppi á fjalli, mikið kaldara en í apótekinu og í nágrenni þess. Samt var ég mjög skynsamlega klædd að mínu mati. Hún spurði líka hvort einhver vissi að ég væri að fara þetta? Jú jú, einhverjir samfélagsmiðlar og eiginmaðurinn sem reyndar spurði hvað í ósköpunum hann ætti að gera ef eitthvað kæmi fyrir… Auk þess þyrfti veðrið að vera afburðavont til þess að ég væri ein í eða á fjallinu.

Ég lagði svo af stað með broddana í apótekspoka því ég hafði ekki tekið með mér bakpoka. Og eiginlega trúði ég ekki alveg að ég þyrfti brodda og ákvað því að passa vel upp á kvittunina og bara skila þeim ónotuðum þegar ég kæmi niður aftur.

Hægt er að ganga upp á Ulriken á ótal stöðum en frá Haukeland sjúkrahúsinu og því svæði, eru ca. 3-4 leiðir sem ég veit um. Ég er vön að taka stystu og bröttustu sem er mestmegnis inn í skógi. En sá strax að hún var algerlega í klakaböndum enda eru óteljandi sprænur á þeirri leið. Ég valdi miðleiðina sem er aðeins lengri og opnari. Ég var komin u.þ.b. 1/4 af leiðinni þegar ég allt í einu stóð kjurr, fór svo að renna aftur á bak, datt á rassinn og rann þannig frekar langt niður. Norðmennirnir voru svo kurteisir að mynda heiðursgöng þegar ég rann fram hjá þeim og héldu svo áfram för sinni eins og ekkert hefði í skorist. Sem betur fer vissu þeir ekki að það voru broddar í pokanum sem ég hélt á og passaði vel svo upp á í þessari bunu því kvittunin var þar.

Ég ákvað að lúta í lægra haldi og setja á mig broddana. Enda var flughált. Og þessi salibuna fannst mér í meira lagi vandræðaleg.

Sólin skein og vindurinn bærði ekki á sér í hlíðinni. Ég þrammaði upp, upp, upp, svo sátt við lífið og tilveruna með súkkulaði frá Johan Bulow og Xocolat í vasanum. Og enn sáttari varð ég í hvert sinn sem ég sá einhvern detta. Fólk lá eiginlega eins og hráviði útum allt, svo bratt og hált var á köflum. En samt svo æðislegt, allt var æðislegt.

Ég stoppaði í smá stund uppi, það var alls ekki eins kalt og apótekarakonan hafði talað um. Ekki þannig séð, ekki ef maður fór ekki úr fötunum. Og það var eiginlega ekki hægt að taka af sér vettlingana.

Það hvarflaði að mér að taka löngu leiðina niður, þessa auðveldari, því það er oft erfiðara að fara niður en upp, en svo nennti ég því ekki, ákvað bara að láta mig gossa sömu leið til baka og gekk það áfallalaust fyrir sig.

Í gær hafði ég á tilfinningunni að ákveðnir vöðvar væru eitt flakandi sár.

Í dag kippti ég því í lag með að fara aftur upp á Ulriken því veðrið var svo gott.

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *