Lánuð, leigð, seld…

Svala kom heim úr vinnunni um daginn og á meðan við útbjuggum drekkutíma, sagði hún mér frá hjúkrunarfræðinema sem að er í verknámi á vinnustaðnum hennar Svölu og gengur miður vel. Verknámið og tilheyrandi kröfur flækjast fyrir nemanum, henni finnst sjálf hjúkrunarfræðin erfið, ásamt því að tileinka sér að hugsa eins og til er ætlast. Hér í Danmark köllum við það „að reflektere“ og það þarf að lærast. Færnin til að reflektere er afar sjaldan meðfædd. Svala eyddi ábyggilega hátt í korteri í að segja mér frá raunum nemans og endaði síðan frásögnina á að segja: „Ég sagði henni að þú gætir alveg hjálpað henni.“

„Já, sagðirðu henni það? Og hvenær á ég að hafa tíma til þess?“ svaraði ég.

„Þú ert ekkert að nota þetta sem þú lærðir og ert ekki að gera neitt nema vinna í Noregi…“ svaraði sú unga, bjartsýna og vinnusama Svala. „Ég lét hana hafa meilið þitt og sagði henni að skrifa bara til þín. Í staðinn ætlar hún að búa til nesti handa mér í mánuð.“ 

Þið getið rétt ímyndað ykkur hversu bit ég varð… „Ekki að gera neitt?“ „Bara að vinna í Noregi?“ Hvað með allt annað sem ég er að gera? Allt sem ég þarf að gera? Allt sem mig langar til að gera?

Þegar Fúsi kom heim, sagði ég honum strax frá hvurju dóttir okkar hafði dottið í hug og hvursu óforskammað það var gagnvart mér, móður hennar. Ég átti bara ekki til orð. Mér leið eins og hún hefði selt mig út… ekki lánað né leigt, heldur selt.

Fúsi starði á mig opinmyntur: „Fannst ÞÉR þetta óformskammað?“ 

Ég játti því, enn mjög misboðið og langt í að ég jafnaði mig.

Fúsi setti sig í stellingar. Stellingar sem ég þekki svo vel og veit að nú á að halda ræðu, síður en svo mér til skemmtunar né í hag: „Elsku Dagný mín, þetta hefur þú gert í næstum 25 ár! Lánað mig út aftur og aftur og selt mig ef þú mögulega hefur getað…“

„Hvað meinarðu? Þetta er ekki…“

„Abbabbabb, bíddu róleg, ertu búin að gleyma því þegar þú seldir mig fyrir uppþvottavél? Og 20 metra rafmagnsleiðslu á kefli? Og seinna sláttuvél? Allt saman notað… Þú sagðir: Þið fáið Fúsa, hann er smiður og ég fæ… hitt og þetta.“ 

Smiðurinn að saga – fyrir mig.

„Já en þá græddum við… Þetta voru vinnu- og vöruskipti, við vorum fátækir námsmenn, það er annað“ reyndi ég að malda í móinn. 

„Hvað þá með þegar þú hefur lánað mig út… „Fúsi kemur og flytur fyrir ykkur. Fúsi kemur og hjálpar þér með þakið. Fúsi kemur bara og græjar gluggana. Fúsi getur alveg pottþétt lagað tölvuna þína“ hermdi hann eftir mér. Þetta gerirðu mjög reglulega og er það allt í lagi? Hann hélt áfram með þessa ræðu sína… ég var alveg að verða heyrnalaus.

„Já sko, þetta er annað við erum gift og….“ ég komst ekki lengra, fékk ekkert að tala.

„Þetta er nákvæmlega það sama og Svala var að gera og þú ert hissa?“ 

Ég tapaði víst, þá sjaldan.

 

 

3 Responses to “Lánuð, leigð, seld…

  • Arny Fridriksdottir
    6 ár ago

    Madurinn minn hefur einmitt kvartad yfir tessum „eiginleika“ hja mer! 🙂 En eg er samt svo lööööngu haett thessu!

  • UNNUR SIGURLAUG ARADOTTIR
    6 ár ago

    Haha, vöruskipti fyrir heimilið / hjónin eru í lagi, en þegar börnin ætla inn á það svæði……. það er annað mál ;-))
    sem þarf að ræða sérstaklega og þá klárlega fyrirfram 🙂 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *